Túristi sofandi í íbúð í Reykjavík

Teitur Björn Einarsson vaknaði í morgun, fór fram og sá að túristi hafði hreiðrað um sig í sófanum hans í svefnpoka. Teitur vakti viðkomandi með því að bjóða góðan dag og hóf að tala við manneskjuna.

Teitur segir, á skemmtilegan hátt, frá samskiptum sínum við túristann á Facebook síðu sinni og fengum við leyfi til að birta á Hún.is.

 

Mér er sagt að túristinn sé að sækja í sig veðrið hér á landi, vilji kynnast heimamönnum og upplifa ævintýri. Í því ljósi var það kannski svona eftir á að hyggja ekkert rosalega óvenjulegt að vakna í morgun, fara fram og sjá að inni í stofu hafði túristi hreiðrað um sig í svefnpoka í sófanum alveg sultuslakur.

Standandi þarna á nærbrókinni var lítið annað hægt að gera en að bjóða góðan dag og spyrja yfirvegað hver væri þarna á ferð svona snemma morguns. Túristinn rankaði við sér, leit á mig og stóð greinilega ekki alveg á sama. Ótraustri röddu spurði hann á erlendri tungu hvort ég væri ekki örugglega Sara – sem ég svaraði neitandi og hér ætti heldur engin Sara heima. Vandaðist þá þessi viðkvæma staða okkar á milli mjög til muna.

Fátt annað í stöðunni á þeim tímapunkti en að hverfa til baka inn í svefnherbergi, klæða sig og upplýsa makann um að það væri kominn gestur og hann væri inn í stofu. Varð smá hissa þegar Margrét spurði fyrst hvort hann væri lifandi – ég hafði nú ekki panikkað svo ofboðslega –  en áttaði mig svo á því að hún héldi auðvitað að litla ljónið á heimilinu hefði í enn eitt skiptið borið inn í íbúðina eitthvað rottukvikindi.

Ég leiðrétti hana og sagði að það væri ekki mús inni í stofu heldur ráðavilltur túristi, það væri allt önnur tegund. Með því að breiða þögul sængina yfirvegað yfir höfuðið var ljóst að það var í mínum verkahring að greiða úr þessari vitleysu. Vopnaður þeim ráðum og hvatningu fór ég fram að nýju inn í stofu þar sem gesturinn var þá risinn á fætur, fálmandi skjálfandi eitthvað í símanum sínum. Náðum að halda áfram basic samtali um hvað, ha, hvernig, af hverju var hurðin ekki læst, hver, hvenær og slíkt – sagðist heita Karolína, væri  nýkomin til landsins og átti að hitta Söru hér á Barónstígnum en gat ekki hringt í hana þar sem síminn virkaði ekki.

Ég tók jákvæðu týpuna á þetta og sagði þetta hressandi rangan misskilning, hún væri á réttum stað en bara í rangri íbúð, það hefði verið hrein tilviljun að allt hefði verið opið upp á gátt í nótt og einfalt máli væri að hringja í Söru og kippa þessu í liðinn. Kannski ekki einfalt en eftir annan hring á helstum atriðum með Söru í símanum um hver, hvað, hvernig, hvenær og slíkt komst það helsta til skila og Sara stuttu seinna komin niður í þetta óvænta morgunpartí að ná í túristann sinn.

Túristinn afsakaði sig innilega og þakkaði fyrir sig á leið sinni út. Ég bauð að nýju góðan dag og hana velkomna til Íslands. Túristinn maður!

277321_10151199960513324_1617543295_oTeitur Björn – Mynd af Facebook

 

 

SHARE