Úr ljómandi landsbyggðartúttu yfir í jórtrandi bónuspoka

Nú er ég bara svona ósköp venjuleg skrudda, búsett í borginni, ættuð úr sveitinni og þessi týpíska ljóska sem að lét óvart barna sig – tvisvar. Búin að vera svo lengi ein heima með tveimur ótalandi og með öllu ósjálfbjarga börnum að ég fæ „víðáttubrjálæðiskast“ nálægt fullorðnu fólki.

Ég er ýmist vanvirk eða ofvirk – það fer eftir dögum.

Hvað gæti litla ég, þessi ómenntaða, bitra og skítuga móðir farið að segja ykkur sem að þið vitið ekki fyrir?
Ekkert, en þið gætuð hugsanlega á einhverjum tímapunkti annaðhvort hlegið eða „tengt“ við það sem ég drita hérna niður.

Ég var 19 ára þegar ég eignaðist eldri dóttur mína, þegar heimurinn minn snérist í milljón hringi og breyttist á augnabliki.

Út frá þvinguðum hlandbunum á óteljandi þungunarpróf breyttist allt!

Það þarf nefnilega ekkert nema aðeins tilhugsunina um að á leiðinni sé splúnkunýr genapollur, við það fer hugurinn af stað og umturnast!

Tvær línur á plastprik sem ég meig á, – „gat nú verið, lenti á gölluðu prófi!“

Tvær línur í viðbót á öðru prófi, – „Nei þessi tegund er náttúrulega bara rusl!“
Tvær línur á dýrara prófi, – „Nei hættu nú alveg, hverjar eru líkurnar?!“
Þriðja verslunarferðin var tekin í apótekið í Árbænum því auðvitað eru öruggari próf þar, sjoppurnar og verslanirnar eru bara með einhverjar gallaðar restar af sömu tegundum á minna verði!

Rekkinn var hreinsaður og veskið líka. Ef að þessi skrambans prik færu ekki að virka hótaði ég þeim sóðalegri úrhellingu úr allt annarri rifu í staðinn fyrir hlandið!

Óteljandi línum, örfáum bjálæðisköstum, óstjórnlegu grátkasti og smá hláturskasti síðar var ég búin að sætta mig við það að það væri sennilega óeðlilegt að lenda á rúmlega tíu gölluðum prófum í röð og að ég væri ólétt.

Þá var ekki aftur snúið, hausinn var kominn af stað!

Fyrst þurfti ég að komast að næstu skrefum, eins og til dæmis snemmsónar og tíma hjá ljósmóður. Svo mátti ég taka mig saman í andlitinu og verða sú manneskja sem að ég ætlaði að bjóða barninu mínu upp á.

Heilum þremur árum af meðgöngu síðar pungaði ég út lítilli stúlku.
Þetta ætlaði ég sko aldrei að gera aftur!
Enda bara virkilega erfitt og subbulegt – og þar sem að ég er ekkert nema þrjóskan og stend föst við ALLT sem að ég segi liðu ekki nema tæpir 19 mánuðir þar til að mér varð mál að verpa aftur.

Þarna var unga skruddan hún ég allt í einu komin með tvö börn, eitt sem var afskaplega krefjandi og orkumikið og annað sem að hélt að sólarhringurinn virkaði öfugt – sofið á daginn og vakað á nóttunni.

Mikil gleði og mikið gaman.

En andskotinn! – svona auk þess að þurfa að fara frá því að vera 19 ára stelpukjáni sem að gerði bara það sem að henni datt í hug að gera og yfir í að verða manísk húsmóðir, útungunarvél og ábyrgðarmaður fyrir tveimur auka lífum, bleyjuskiptir, mjólkurframleiðandi, fóðrari og allt hitt sem að móðurhlutverkinu fylgir. Þá er algjörlega fáránlegt hvað er mikið sem að maður þarf að dúlla sér við að uppgötva sjálfur varðandi þennan pakka!

Skvísan þarna sem að gerði bara það sem að hún vildi, þegar að hún vildi það var enganveginn búin undir þetta stórskemmtilega „make-over“ í boði meðgöngunnar.
Dagurinn sem að hlandprufurnar voru teknar var nefnilega líka fyrsti dagurinn af 35 vikum af stanslausri morgunógleði.
Ég fór því úr því að vera venjuleg, föl og rauðhærð yfir í að vera eins og grár, 13 ára… hveitimalari.

Grái, 13 ára fíkillinn, úps, ég meina hveitimalarinn var líka með þvagleka, bjúg og rassgatið á henni var eins og átta blaða rós í boði gyllinæðarinnar, sem að ég í fulli hreinskilni hélt að gamalt fólk fengi bara.

Þvílíkur skellur!

 

 

 

Hvar var þessi meðgönguljómi líka?

Eða var kannski alltaf verið að segja meðgönguRjómi?

-Því að ég fékk alveg helling af honum! Brjóstin á mér láku frá 25. viku.

Hvernig gátu allar þessar óléttu konur bara verið í íþróttum og einhverskonar fimleikaæfingum með annan fótinn á kafi í eyranu á sér og hinn einhverstaðar á Vestfjörðum, brosandi og sætar, til í tuskið og bilað glaðar með þessa bumbu sína?

– Þegar uppáhaldsíþróttin mín var að setjast á ískaldar dósir til þess að kæla bjúgað lobbýið sem annars bara rifnaði undan þrýstingi! Já, eða að reyna að rúlla mér grenjandi fram úr rúminu sjálf.

Eða þessar fallegu, nýgreiddu, máluðu, kasóléttu gyðjur sem að rölta um í verslunum eins og ekkert sé?

-Ég þurfti einusinni að fá hjólastól afþví að ég var með svo mikla gyllinæð að ég gat ekki gengið, það að vísu héldu allir að ég væri með samdrætti eða þessháttar verki og hlupu af stað til að sækja stól – það þarf samt enginn að vita af því.

 

Var ég svo bara ein um það að fara úr því að vera rétt svo undir meðalgreind og niður í ósjálfbjarga vitleysing sem að fór til dæmis ekki bara einusinni, heldur tvisvar niður á hundasvæði hundlaus?!

Það tók mig því ekki langan tíma að átta mig á því að ég væri alveg hreint afspyrnu lélegur „meðgangari“. (Það er víst orð!)

Annaðhvort var ég bara eitthvað gölluð eða öðruvísi en aðrar konur eða þá að ég var bara hreinlega með ofnæmi fyrir því að vera ólétt.

Það var enginn annar sem að sat öskurgrenjandi á baðherbergisgólfinu eftir að hafa óvart víxlað gyllinæðar og sveppasýkingarstílunum sínum! – Það fannst mér allavega.

Þegar að ég spurði hvort að ég væri að einhverju leyti „eðlileg“ eða að ganga í gegn um „eðlilega“ hluti  var bara hlegið að mér. Sem að var auðvitað líka frábært! – ég elska að fá fólk til þess að hlæja -En mér fannst ég vera bara ein, það var enginn sem að sagði mér að þetta væri nú bara ósköp eðlilegt eða að það væri einhver annar sem að hefði gengið í gegn um þetta!

Já, eða þar til að ég sló þessu upp í kæruleysi og byrjaði að setja þessa hluti í hlægilega „pistla“ inn á bumbuhópinn minn og á fleiri mömmusíður á Facebook!
Um leið og þetta var orðið fyndið, í staðinn fyrir vandræðalegt og óþægilegt, stigu fleiri fram og bæði hlógu og sögðu frá svipuðum lífsreynslum!

Ég þurfti mikið á því að halda að finnast ég ekki vera ein, að finnast ég ekki vera að gera eitthvað vitlaust.
Það er erfitt að upplifa sig venjulega eða á einhvern hátt eðlilega þegar maður gengur með barn – sérstaklega í fyrsta skipti.
Pressan var svo mikil, ég bara VARРað gera allt „rétt“ – annars yrði barnið mitt bara tekið af mér!
Ég VARРlíka að vita allt og að vera með allt á hreinu – allt frá sjálfri mér og hvað væri að gerast í líkamanum mínum, og yfir í það hvernig barnið yrði nákvæmlega þegar að það kæmi út, jafnvel hvernig það yrði og ætti að vera upp úr eins árs!

 

 

Ég fæ að spila leikinn með eitt auka spil.

 

Oftast er það uppáhalds spilið mitt en það er bara nýlega orðið það því fyrir svo stuttum tíma var það versta martröðin mín.

Það var bara núna fyrir örfáum mánuðum sem að lífið mitt breyttist að því leytinu til að ég gaf sjálfri mér séns.
Áður átti ég engan. Það vissi enginn hvað var að mér – þrátt fyrir að það væri augljóst að það væri eitthvað. Allt sem að ég tók mér fyrir hendur gekk bara ekki upp og það kom engum á óvart!

það breyttist um leið og ég fékk útskýringuna á því hvað ADHD þýðir.

Týpísk Anna! Tekur sér eitthvað smáræði fyrir hendur en annaðhvort klúðrar því stórkostlega eða skilur það eftir óklárað, jafnvel illa klárað – eftir aðeins augnablik.

Hræðslan var því óbærileg þegar að ég komst að því að ég ætti von á barni. Hvernig í ósköpunum á ég að geta gert þetta?
Ég get ekki gert barninu það að koma í heiminn vitandi það að á einhverjum tímapunkti myndi ég klúðra öllu svo stórkostlega að það væri hræðilegt! –  og það kæmi sko ENGUM á óvart!  

Það var of sárt.

Ég barðist samt, það var eitthvað sem að sagði mér að þetta væri það besta sem að gæti komið fyrir mig. Jú, og auðvitað þrjóskan, þörfin til þess að gera akkúrat það sem að fólk vildi að ég gerði ekki – og „þeink dog!“

Þetta var það dýrmætasta sem að ég hef fengið að upplifa!
Eftir strembna meðgöngu, bæði á líkama og sál og svo nokkrar vikur af foreldrahlutverkinu fann ég það loksins!

Þó svo að það sé fáránlega erfitt er það svo ótrúlega nauðsynlegt, frelsandi og gott þegar maður loksins sér það að það er ENGANVEGINN hægt að vera fullkomið foreldri!

Pressan sem er ó, svo eðlilegt að finna er frábær! – um leið og þú ferð að nota hana til þess að gera þig að besta foreldrinu sem að þú getur mögulega verið – en ekki þegar að þú notar hana sem niðurrif af því að þú ert engu nær varðandi það hvernig þú átt að standa eftir að hafa lesið þig rangeygða/n um það hvernig þú „átt“  að vera!

Það er ómöguleg tímaeyðsla og hreinlega bara sárt að finnast maður ekki „kunna“ að vera ólétt. Því þið sem að eruð búnar að eiga börn vitið það líka að það er ekki hægt að kunna neitt í þessu! Ég vissi meira að segja ekki einu sinni hvernig ég átti að gera þetta í annað skiptið sem að ég gerði þetta – því það var nánast ekkert eins!

Það er ENGINN sem að kann betur að ganga með barnið þitt – þú ert meistarinn, uppfinningarmaðurinn og skaparinn í þessu dæmi og það sama gildir eftir burð.

Því fyrr sem að þú sættir þig við það – því betra.

SHARE