Valda veirur leghálskrabbameini?

 

  • Með frumustroki frá leghálsi er unnt að finna þær konur sem eru í áhættu að fá leghálskrabbamein eða hafa sjúkdóminn á algeru byrjunarstigi (hulinstigi). Þessa uppgötvun gerði grískur læknir að nafni Papanicolaou fyrir meira en fimmtíu árum. Leitaraðferðin hefur síðan verið notuð í mörgum löndum til að greina sjúkdóminn á læknanlegu stigi. Leghálskrabbameinsleit hófst hér á landi 1964 og hefur lengst af beinst að konum á aldrinum 25-69 ára sem boðaðar hafa verið til skoðunar á tveggja til þriggja ára fresti. Árangurinn er ótvíræður og hefur nýgengið lækkað um 67% og dánartíðnin um 76%.
  • Fjölgun forstigsbreytingaSannað er að sjúkdómurinn byrjar með vægum forstigsbreytingum sem þróast síðan í mis alvarlegar forstigsbreytingar og að lokum í krabbamein. Hér á landi hefur nýgengi þessara breytinga hækkað mikið frá árinu 1980, og þá aðallega meðal yngri kvenna. Leiddi þetta til þess að skoðunaraldur var lækkaður úr 25 árum í 20 ár árið 1988. Ástæður aukningarinnar má sennilega rekja til frjálsari kynlífhegðunar og minni notkunar verja við samfarir. Þetta kemur einnig fram í hækkandi tíðni klamydíusýkinga og veirusýkinga er valda kynfæravörtum, en þessar veirur og sýklar hafa verið tengdar myndun leghálskrabbameins.

Sjá einnig: Hver eru einkenni lifrakrabbameins?

  • KynlífÞað hefur lengi verið vitað að leghálskrabbamein tengist á einhvern hátt kynlífshegðun. Margir rekkjunautar geta aukið áhættuna, þó að það eigi ekki við í öllum tilvikum. Margir aðrir áhættuþættir hafa verið nefndir, og á síðari árum hefur komið í ljós að þeir tengjast allir sömu veirunni sem nefnd er HPV (human papilloma virus). Að smitast af þessari veiru veldur ekki krabbameini eitt sér heldur koma aðrir þættir til, svo sem önnur smit (t.d. klamydía) og reykingar.
  • HPVTíðni HPV smits er mjög há meðal yngri kvenna eða allt að 40% en lækkar hratt eftir 30-35 ára aldur og nær vissu jafnvægi eftir 45 ára aldur eða um 5-7%. Þessi lækkun með aldri er talin byggjast á því að ónæmiskerfi líkamans nái hjá langflestum að útrýma veirunni áður en hún nær fótfestu í líkamanum. Hjá þeim konum þar sem ekki tekst að útrýma veirunni tengist hún við gen fruma í leghálsi, leggöngum og burðarbörmum og einnig á getnaðarlim karlmannsins og getur orsakað krabbamein í þessum líffærum. Veiran veldur fyrst forstigsbreytingum og nær frumustrok frá leghálsi í velflestum tilfellum að greina þær áður en þær þróast í krabbamein. Í leghálsi eru breytingarnar aðallega neðst í hálsinum og er unnt að fjarlægja þær með minni háttar aðgerð, svonefndum keiluskurði. Hefur hann engin áhrif á möguleika konunnar til að verða síðar barnshafandi. Öðru máli gegnir um klamydíusýkingu sem getur valdið ófrjósemi ef konan fær ekki viðeigandi meðferð.
  • Margir stofnarStofnar HPV eru fjölmargir og er áætlað að undirtegundir séu yfir 100 talsins. Milli 20 og 30 undirtegundir orsaka breytingar í kynfærum kvenna. Um 15 þeirra eru tengdar leghálskrabbameini og aðrar valda hvimleiðum vörtum, kondylom, á kynfærum karla og kvenna. Það að veirur valdi þessum sjúkdómum hefur opnað nýjar leiðir til að finna þær konur sem eru í raunverulegri áhættu að fá leghálskrabbamein. Vandamálið hefur aftur á móti verið að þær aðferðir, sem notaðar hafa verið til að greina veiruna, hafa ekki verið nógu nákvæmar, en það er nú leyst. Hins vegar skapar hátt sýkingarhlutfall HPV meðal yngri kvenna vandamál, þar sem þessi próf geta ekki aðgreint þær konur sérstaklega sem eiga eftir að þróa forstigsbreytingar og síðar krabbamein.
  • FramtíðinTil framtíðar litið má telja að leghálskrabbameinsleitin fari í eftirfarandi farveg: Leghálsstrokið mun halda mikilvægi sínu. Notkun HPV prófa munu létta eftirlit með þeim konum sem hafa endurteknar vægar og óljósar breytingar og auðvelda eftirlit með konum eftir keiluskurð. Unnt væri að nýta HPV prófið til að sannreyna hvort kona um fertugt, sem hefur eðlileg fyrri frumustrok, sé laus við HPV smit. Kona, sem á þeim aldri hefur bæði prófin eðlileg, þarf þá ekki að mæta á ný til leitar fyrr en eftir 4-5 ár, og gæti jafnvel hætt að koma eftir 60 ára aldur, svo fremi að ekki yrði breyting á kynlífshegðan.
  • Bólusetning á ÍslandiVegna þess að veira veldur leghálskrabbameini er mögulegt að finna bóluefni gegn henni. Margar tegundir veirunnar gera þetta þó flóknara, þar eð bóluefni gegn einni undirtegund dugar ekki á aðra. Ljóst er þó að um 65-70% allra leghálskrabbameina orsakast af ákveðnum HPV stofnunum og jafnframt að flestar kynfæravörtur orsakast af öðrum HPV stofnunum. Verið er að þróa bóluefni gegn þessum stofnum og er fyrirhugað að hefja rannsókn með þetta bóluefni alls staðar á Norðurlöndum og víðar innan fárra mánaða. Rannsóknin getur leitt til þess að innan fárra ára verði unnt að bólusetja bæði konur og karla fyrir kynþroskaaldur gegn sjúkdómum sem þessar veirur valda.
  • Mæting yngri kvennaBólusetning gegn krabbameini gagnast ekki þeim konum sem verið er að boða til krabbameinsleitar í dag. Sú staðreynd að t& iacute;ðni HPV veirunnar er hækkandi meðal yngri kvenna staðfestir mikilvægi þess að þær mæti reglulega til leitar svo unnt sé að greina forstig sjúkdómsins og meðhöndla hann áður en krabbamein myndast. Rannsóknir hér á landi hafa staðfest að meðal yngri kvenna virðist ferill sjúkdómsins stundum vera svo hraður að krabbamein á byrjunarstigi geta greinst með frumustroki áður en þrjú ár eru liðin frá síðasta eðlilega frumustroki. Það er því áhyggjuefni að á síðustu árum hefur aðsókn yngri kvenna minnkað og er nú lægst í yngsta aldurshópnum, 20-24 ára. Ástæðan er vafalaust að yngri konur gera sér ekki grein fyrir mikilvægi leitarinnar og mæta ekki til leitar hjá heilsugæslulækni, kvensjúkdómalækni eða á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð í Reykjavík.
  • Forvarnir mikilvægarLjóst er að meðalaldur Íslendinga hækkar ekki mikið frá því sem nú er nema farið verði að beita forvörnum í ríkara mæli en áður. Má þar nefna tóbaksvarnir og fræðslu um heilbrigða lífshætti svo sem aukna líkamsrækt og rétt fæðuval. Hvað krabbameinsleit varðar þá hefur þegar orðið mikill árangur af leghálskrabbameinsleit hér á landi en ærin vinna er framundan m.a. við rannsóknir nýrra veiruprófa og vegna rannsókna með bóluefni gegn HPV. Hækkandi tíðni forstigsbreytinga og minnkandi aðsókn yngri kvenna er þó áhyggjuefni sem gefur tilefni til aukinnar fræðslu og upplýsinga til kvenna um orsakir og forvarnir gegn þessum og öðrum sjúkdómum.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

 

SHARE