Veldu hver þú vilt vera – Heilsa

wc námske

Nú er sá árstími þar sem dimmt er á kvöldin og kannski einhverjir sem hugsa ennþá til sumarsins sem sveik landsmenn! Ef við erum alltaf að svekkja okkur á hlutum sem hefðu getað farið betur þá fáum við ekki tækifæri til þess að horfa fram á við, og sjá hvað það er bjart framundan. Þá kunnum við síður að njóta hvers augnabliks. Nú er æðislegur tími framundan og það styttist óðum í jólin. Jólahlaðborð, jólaboð, jólatónleikar og fleiri viðburðir þar sem margir hverjir eignast dýrmætar minningar með sínum nánustu. Á sama tíma er gríðarlega mikilvægt að lifa ekki eftir uppskrift einhvers annars. Kæri lesandi veldu hver þú vilt vera. Nú streyma inn alls konar lausnir og tilgátur um heilsusamlegt mataræði og mikið er rætt um hvaða æfingar séu bestar og svo framvegis. Lífið sjálft byggist á því sem  við erum að fást við hverju sinni eða það sem kemur upp í huga okkar. Heilinn okkar er eins og stór leitarsíða. Ef við setjum inn leitarorð þá koma margar mismunandi niðurstöður. Það sama gerist þegar við setjum inn hugsun þá fáum við endalaust margar leiðir. Hægt er að finna ólík rök af hverju þetta virkar betur en hitt, og svo eru önnur rök sem leiða þig akkurat í hina áttina. Þetta á við t.d þegar talað er um margar ólíkar leiðir að því sem flokkast undir heilsusamlegan lífsstíl hvort sem það tengist æfingum, mataræði og fleira. Þetta er orðið eins og hver önnur pólítík, og allir reyna fá sem flesta í sitt lið. Aðilar eru tilbúnir að gagnrýna allt annað en það sem þeir hafa valið að fara eftir. Því er mjög mikilvægt að allir fái tækifæri til þess að setjast niður og hugsa hvað það er sem þeir vilja ná fram. Það sem hentar mér þarf ekki endilega að henta þér. Við þurfum í leiðinni að bera virðingu fyrir ákvörðunum hvers annars. Lífið er ekki svona staðlað. Það er erfitt að þurfa alltaf að segja nei við sjálfa/n sig og á endanum stendur maður sjálfan sig að því að við höfum svikið okkur eða “svindlað” því það er ekki farið eftir þessari stöðluðu uppskrift. Kæri lesandi ef þú vilt fara í gegnum jólahátíðina og lífið sjálft án þess að borða allar þær kræsingar sem verða í vegi fyrir þér þá er það þitt val. Ef þú vilt ekki neita þér um kræsingar og annað sem fylgir jólahefðinni skaltu ekki fara áfram á hnefanum eftir einhverri uppskrift sem otað var að þér. Lærðu að njóta þess, finndu út hvaða hreyfing hentar þér best og stundaðu hana af ánægju og þér til yndisauka. Taktu þetta inn í þína rútínu sem þinn lífsstíl. Ræktaðu þig sem einstakling sem er ekki undir pressu frá öðrum.

Höfundur: Björk Varðardóttir

Stöðvastjóri World Class Kringlunni

Björk

SHARE