Veröldin fer á hvolf

Það er ýmislegt sem maður á ólært í þessu lífi um sjálfan sig og lífið í heild. Ég er að kynnast sjálfri mér upp á nýtt þessa dagana og komast að ýmsu sem ég vissi ekki. Það áttu sér stað tímamót hér á heimilinu í seinustu viku og ég veit ekki hvort lífið verði Vernokkurntímann eins aftur.

Uppþvottavélin er biluð! Já þið lásuð rétt. Uppþvottavélin er biluð og hún á vart afturkvæmt til starfa hér á þessu heimili og mun áreiðanlega enda á haugunum um leið og maðurinn minn kemur í bæinn. Hann er í útlegð þessi misserin á ættarsetrinu í Djúpavík og fær því ekki að finna fyrir því hvernig er að búa með „Kiddu með enga uppþvottavél“. Það er örugglega ekki eftirsóknavert.

Ég hef semsé komist að nokkru skemmtilegu þessa vikuna sem hefur komið mér á óvart:

  • Ég kann ekki lengur að vaska upp. Sá hæfileiki virðist hafa gufað upp og ég hef þurft að margþvo suma hlutina af því þeir eru ekki hreinir eftir fyrstu eða aðra umferð
  • Það er ekkert gott að láta hlutina þorna í grindinni. Ég hélt ég gæti nú stytt mér leið í þessum leiðindum með því að leyfa þessu bara að þorna í grindinni. Nei ó nei. Það vill enginn borða með hnífapörum sem líta svona út.

DSC_0016

  • Við notum alltof mikið af glösum. PUNKTUR!
  • Þú þarft að vera heimavinnandi ef þú ert með fleiri en 3 í heimili og ert ekki með uppþvottavél.
  • Eftir uppvaskið þarf ég að skipta um peysu af því það gengur svo mikið á hjá mér að peysan mín verður rennblaut.

Ég veit ekki hvað mér finnst um að ég sé orðin svona góðu vön og það þarf ekki nema eina bilaða uppþvottavél til að setja veröld mína á hvolf. Mér finnst dýrmætur tími minn vera fara í EKKERT meðan ég er að vaska upp.

Í heimsókn minni hjá ömmu minni um helgina var ég að kvarta yfir þessu og lýsa því hversu erfitt þetta allt saman er og þá sagði amma: „Ég hef aldrei átt uppþvottavél.“ Þetta var algjört væl í mér, mér varð það allt í einu ljóst. Amma mín eignaðist 6 börn og hún þvoði upp, saumaði, þreif og meira að segja þreif föt í höndunum árum saman.

Eftir þetta talaði ég ekki meira um uppþvottavéla„vandamálið“ mitt.

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

SHARE