“Við ættum ekki að þurfa að leggja fram gögn til hins opinbera til að börnin okkar fái viðeigandi næringu”

Í kjölfar mikillar umræðu um þjónustu við grænmetisætur í leikskólum og vegna fréttar Vísis um að læknisvottorðs sé krafist óski fólk sérfæðis hjá þjónustufyrirtækinu Skólamat vilja Samtök grænmetisæta á Íslandi koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu:

Grænmetisfæði er mikilvægur hluti af hugmyndafræði og lífsgildum grænmetisæta. Ekki er um að ræða matarkúr, megrun, matvendni eða matarsmekk heldur virka þáttöku í hreyfingu sem snýr m.a. að umhverfisvernd, dýravernd, heilsuvernd og réttlátri nýtingu verðmæta svo dæmi séu tekin. Samtök grænmetisæta á Íslandi mótmæla þeirri stefnu að beina öllum í sama mataræði þar sem fjöldamargar góðar og gildar ástæður geta verið fyrir því að fólk hafni hinu almenna mataræði án þess að um aðkallandi læknisfræðilegar ástæður sé að ræða.

Hvað varðar einstefnu í matarþjónustu og kröfu um læknisvottorð vísast til greinar Sæunnar I. Marinósdóttur, “Vanrækja grænmetisætur börnin sín?” þar sem m.a. segir: “Til þeirra sem telja eðlilegt að aðeins þeir sem hafa læknisvottorð fái sérfæði: Sífellt vaxandi áhersla er á að styðja við einstaklingsbundnar þarfir og leyfa börnum að njóta sérkenna sinna. Samt er enn hópur fólks sem telur eðlilegt að meðhöndla leikskólabörn sem einsleita hjörð og hafa vit fyrir foreldrum þeirra varðandi hverju þau nærast á. Af hverju ætti einstaklingur að þurfa læknisvottorð til að fá að njóta sinnar einstöku tilveru? Ég get ekki skilið þau rök að leikskólayfirvöld varði um það hvaða ástæður liggja að baki matarvali barnanna.

Það að hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir því hvers konar mat við kjósum setja ofan í líkama okkar er afar persónulegur réttur sem getur tengst bæði sjálfsvitund okkar og dýpstu sannfæringu. Við búum við ætlað frelsi og ættum ekki að þurfa að leggja fram gögn til að öðlast samþykki hins opinbera fyrir lífsstíl okkar eða til þess að börnin okkar fái viðeigandi næringu í skólakerfi sem gefur sig út fyrir að styðja fjölbreytileika mannlífsins. Að mínu viti er þetta sjónarmið á engan hátt í anda 2. gr. laga um leikskóla þar sem segir m.a.: „Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar“. Jafnframt eru tilgreind meginmarkmið leikskólanna: c) „að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar“, d) „að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra“.”

 

SHARE