Við stórefum að þú viljir kaupa kjúkling aftur! – Varúð ekki fyrir viðkvæma – Myndir

Ungur maður deildi eftirfarandi myndum og status á facebook hjá sér fyrr í kvöld:
“Afi minn var að sýna mér fulleldaðan kjúkling sem hann keypti í vikunni. Hann er uppalinn í sveit og kveðst aldrei hafa séð aðra eins meðferð á dýri. Fuglinn er með stóran marblett og virðist hafa fengið miklar innri blæðingar áður en honum var slátrað. Endilega deilið.”

993811_10203048071101920_381575956_n 1501723_10203048076822063_1450134061_n1524805_10203048072381952_1452904691_n

Önnur færsla frá ungri konu hefur einnig hlotið deilingu á facebook en hún ber fyrirsögnina “Ólýsanleg grimmd í íslenskum verksmiðjubúskap” og er svohljóðandi:

Endilega deilið sem víðast ef þið látði ykkur velferð dýra einhverju varða!
Síðasta vetur bauðst mér að vinna eitt kvöld í kjúklingaeldi við að raða kjúklingum í sláturkassa. Því kvöldi mun ég aldrei gleyma því þarna varð ég vitni að viðbjóðslegu dýraníði sem ég hélt að viðgengdist ekki á Íslandi.
Umrætt kvöld mættum við sem fengin vorum í verkið inn í gluggalausa skemmu þar sem voru ekki nema um 7000 kjúklingar, enda var búið að taka helminginn á sláturbílinn kvöldið áður. Ég var mætt þarna til að hjálpa til við að troða fuglunum, ellefu saman í litla kassa sem var svo staflað á lyftara sem keyrði þá inn í vörubíl merktum stórum íslenskum kjúklingaframleiðanda.
Það fyrsta sem tók á móti mér í skemmunni var hrúga af dauðum fuglum úti í horni á sama svæði og lifandi fuglarnir höfðust við. Lyktin sem tók á móti okkur þegar við komum inn í skemmuna var það sterk að mig sveið í hálsinn. Eftir um hálftíma inn í skemmunni þurfti ég að fara út til að kasta upp því ammóníakið var svo sterkt.
Við byrjuðum á því að reka fuglana út í enda hússins, þeim fuglum sem ekki gátu gengið sjálfir eða voru of hægir var sparkað harkalega áfram. Þegar fuglunum hafði verið þjappað saman í  annan endann lágu eftir nokkrir dauðir og deyjandi fuglar sem höfðu troðist ofan í skítinn í fuglamergðinni. Þá voru ljósin slökkt því fuglunum er eðlislægt að leggjast niður og fela sig í myrkrinu og það gerði vinnuna auðveldari. Því næst var lyftara með plastkössum ekið inn í skemmuna og mennirnir sem unnu þarna með mér köstuðu kössunum fyrir framan fuglana. Það kom fyrir að kassarnir lentu á fuglunum svo þeir drápust eða meiddust.
Starfið fólst í því að troða fuglunum ofan í kassana, ég var sennilega ekki besti starfsmaðurinn þar sem ég tók bara einn fugl í einu og setti varlega ofan í kassa. Aðrir vanari starfsmenn gripu í fætur fuglanna og grýttu þeim mörgum saman inn um þröngt opið á kössunum án þess að gæta að því hvort vængir eða fætur færu óskaddaðir með. Þannig náðu þeir allt að fjórum fuglum með hvorri hendi í hvert sinn. Þetta starf var launað eftir afköstum en ekki með tímakaupi svo fólk var skiljanlega að flýta sér að klára verkið og komast út úr þessum dimma loftlausa skúr.

Það eru nokkur atvik sem eru mér sérstaklega minnisstæð eftir þetta kvöld. Fyrsta atvikið var þegar ég tók upp dauðan fugl innan um þá lifandi sem voru á leið í slátrun. Ég spurði „bóndann“ hvað ég ætti að gera við hann. „kastaðu dauðu fuglunum upp að veggnum“ var svarið. Næsta atvik var þegar ég tók upp fugl sem rétt hélt höfði og barðist ekki á móti eins og hinir fuglarnir. Ég var ekki viss hvað ég ætti að gera við hann. „Þessi sleppur“ var svarið þegar ég spurði hvort þessum yrði kastað að veggnum eða hvort honum væri troðið í sláturkassann.
Það sem stakk mig hvað mest þetta kvöld var klemmdur vængur sem ég sá útundan mér. Hann hafði klemmst í renniloku sem var ofan á kassanum þegar einhver reyndari starfsmaður tróð ofan í kassann án þess að gæta að því hvernig fuglarnir lentu. Annar starfsmaður tók svo kassann og setti hann í staflann á lyftaranum. Ofan á þann kassa kom annar kassi með ellefu kjúklingum í, ofan á hann nokkrir í viðbót. Vængurinn kramdist á milli án þess að nokkur kippti sér upp við það. Ég fór aftur út til að kasta upp, bæði af viðbjóði og ammóníakseitrun.
Eftir að við höfðum troðið síðasta varnarlausa dýrinu ofan í kassa og húsið orðið tómt  var okkur boðið upp á smákökur og djús. Svo fórum við upp í bíl og ætluðum að leggja af stað heim. Aftur þurfti ég að stoppa til að kasta upp, næstu klukkutímana var ég hóstandi og mjög illt í hálsinum.  Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er fyrir dýrin að eyða allri sinni ævi í þessu lofti. Ammóníak er nefnilega ekki bara vond lykt. Í miklum styrkleika er þetta efni einfaldlega eitrað og mjög ætandi fyrir öndunarveg og augu manna og dýra.

Tilgangur minn með því að skrifa þessa grein er að minna fólk á að við kjósum með veskinu.  Kjúklingur og svínakjöt sem fæst í matvöruverslunum hér á landi er í öllum tilfellum framleitt í viðbjóðslegum verksmiðjum þar sem dýrin koma í þennan heim til þess eins að þjást innilokuð við hörmulegar aðstæður allt sitt líf. Þetta er einfaldlega ekki betra hér á landi en annarsstaðar. Ég trúi því ekki að fólk vilji koma svona fram við þá sem eru minni máttar og varnarlausir og ég neita að trúa því að fólk vilji styðja við svona framleiðsluhætti með því að kaupa þessar vörur. Þú getur haft áhrif með því að sniðganga þessar vörur eða minnka kaup á þeim verulega.

Hér er myndband frá Animals Australia.. þetta er ekki öðruvísi hérna heima.http://vimeo.com/51839781
—-
Vegna fjölda fyrirspurna sé ég mig knúna til að tilgreina ástæðu þess að ég nefni ekki framleiðanda og tilgreini ekki um hvaða kjúklingabú ræðir.

Ástæðan fyrir því er að þessi framleiðsluaðferð er stöðluð í kjúklingabúum þar sem að krafa neytenda hefur verið ódýrara kjöt. Afleiðingin af því eru pökkuð gripahús og ómanneskjuleg framleiðsla á dýrum. Ef við viljum breyta þessu þurfum við að setja skýra kröfu um að kjötvörur séu upprunamerktar svo hægt sé að sniðganga þær verksmiðjur sem viðhafa svona starfshætti. Með upprunamerkingum væri komin pressa á framleiðendur að sýna neytendum að farið sé vel með dýrin. Við þurfum þá líka að vera tilbúin til að borga aðeins meira fyrir þær vörur. Það gefur auga leið að hús með 14.000 dýrum í stöppu gefur meira af sér en hús með færri dýrum sem hafa smá pláss til að anda og vera til.

Tilgangur minn með því að skrifa þessa grein er á engan hátt að hefja netstríð við einstaklinga eða framleiðendur heldur einungis að upplýsa fólk um aðbúnað dýra í verksmiðjum landsins. Það ættu allir, bæði framleiðendur og neytendur, að geta séð sinn hag í því að taka höndum saman og bæta aðbúnað dýranna.

Af tillitsemi við viðkomandi aðila birtir hun.is ekki nöfn þeirra hér, en báðar færslurnar hafa gengið ljósum logum í deilingum á facebook í dag.

SHARE