Vinna og streita

Man with hand on head

Rannsóknir benda til að streita sé að verða eitt algengasta vinnutengda vandamál hins vestræna heims og að afleiðingarnar varði bæði starfsmenn og vinnuveitendur. Eins og flestir vita er streita í sjálfu sér hvetjandi og hjálpar fólki til að ráða við krefjandi aðstæður í lífinu. Hins vegar segja fræðimenn að ef streita verður viðvarðandi og illviðráðanleg þá hafi hún slæm áhrif á heilsu fólks. Vinnutengd streita er afleiðing þess að ekki er samræmi milli krafna sem gerðar eru til starfsmanna og væntinga og þarfa þeirra, eða getu þeirra til að ráða við viðfangsefni sem þeim eru falin. Þetta ósamræmi getur átt við á öllum stigum hefðbundinnar röðunar í stjórnskipulagi vinnustaða en er líklegra að verði til hjá þeim starfsmönnum sem eru undir miklu álagi og hafa lítil áhrif á vinnuskipulag sitt. Áhugavert er að niðurstöður rannsókna sýna fram á að góð samskipti og stuðningur á vinnustað draga verulega úr óæskilegum áhrifum streitu á vinnustað.

Streita hefur áhrif á afköst

Langvarandi streita getur haft í för með sér þunglyndi, kvíða, kulnun, truflun á ónæmiskerfi og hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig getur vinnustreita haft óbein áhrif á vellíðan fólks með því að skerða getu þess til að taka upp jákvæða lífshætti eins og að bæta mataræðið, hreyfa sig eða hætta að reykja. Þá hefur streita áhrif á afköst fólks og starfsemi vinnustaða vegna þess að hún dregur úr vinnuframlagi, eykur veikindafjarvistir og starfsmannaveltu. Í Bretlandi var áætlað að streita kostaði vinnuveitendur á milli 4–5 milljarða króna á ári 1996. Áætlaður fjöldi vinnudaga sem glatast vegna streitu hafa síðan þá tvöfaldast og þeim fer fjölgandi.

Ýmsar ráðleggingar hafa verið settar fram sem annars vegar beinast að einstaklingum og hins vegar vinnuveitendum. Allt bendir til þess að eigi árangur að nást verði vinnuveitendur í samstarfi við starfsmenn að leita leiða til að draga úr streitu með því að auka áhrif starfsmanna á eigin vinnu ásamt því að hvetja til góðra samskipta á vinnustaðnum.

Sjá einnig: Ráð gegn streitu

Leiðir sem stjórnendur ættu að leggja áherslu á:

    • Tileinka sér styðjandi stjórnunarhætti.
    • Veita nýjum starfsmönnum nægilegar upplýsingar og þjálfun.
    • Auka áhrif starfsmanna á vinnu sína.
    • Stuðla að heilbrigðum lífsháttum starfsmanna.
    • Umbuna starfsmönnum á ýmsa vegu.
    • Aðstoða starfsmenn við að ráða við streituvaldandi þætti í vinnunni.
    • Tryggja markvisst upplýsingaflæði frá stjórnendum til starfsmanna og milli starfsmanna.
    • Tryggja öruggt vinnuumhverfi.
    • Styðja endurhæfingu starfsmanna sem þess þurfa og aðlaga vinnu að getu starfsmanna hverju sinni.

Mikilvægt er að stjórnendur vinnustaða geri sér grein fyrir því að mælikvarðar á árangur starfsemi vinnustaðarins taka ætíð bæði til heilsu og velferðar starfsmanna og framleiðni fyrirtækisins.

Benda má á Vinnueftirlit ríkisins hvað varðar frekar upplýsingar: www.vinnueftirlit.is

Anna Björg Aradóttir
yfirhjúkrunarfræðingur

 

SHARE