VITI nefnist nýja húsgagnalína þeirra Olgu Hrafnsdóttur og Elísabetar Jónsdóttur sem saman skipa hönnunarteymið VOLKI.

Þær stöllur sóttu innblástur til vita við strendur landsins og voru öll húsgögnin unnin út frá formi og hlutverki hans. Húsgögnin má nota jafnt úti sem inni. Kollarnir, borðin og ljósin eru litrík úr pólýhúðuðu stáli, sessurnar eru úr ull og borðplöturnar úr tré. En Volki hefur getið sér gott orð fyrir litríka prjónavöru sína úr ull eins og trefla, teppi, púða og grófheklaða kolla.

Volki mun kynna VITA til leiks á hönnunarmars með innsetningu í Mengi þar sem prjónavara Volka verður í bakgrunni, en með henni hafa Olga og Elísabet veggfóðrað stóran vegg.  Í Mengi selja þær líka vörur sínar ásamt öðrum áhugaverðum munum eins og bókum, myndlist og tónlist.

Mengi er nýr staður í Reykjavík með fjölbreytta starfssemi og er staðsettur á Óðinsgötu 2. Eins og segir á síðu fyrirtækisins er Mengi í senn verslun, gallerí, viðburðarrými og útgáfa með lifandi dagskrá alla helgar. Þar eru haldnir tónleikar, leiksýningar, myndlistasýningar og gjörningar svo nokkuð sé nefnt og þar er opið fjóra daga vikunnar frá miðvikudegi til laugardags.

Sýning Volka opnar miðvikudaginn 26. mars nk og á milli kl 17:00 og 20:00 þann dag býður Volki fólki upp á léttar veitingar þar sem litagleði og lifandi tónlist mun ráða ríkjum.

 

Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.

SHARE