Tískubiblían er til. Hún er raunveruleg, í stöðugum vexti og hana er að finna á netinu. Voguepedia; alfræðivefur Vogue er handhægur uppflettivefur sem er heill ævintýraheimur og í raun ómissandi viðbót í lífi hvers þess sem unnir tísku, hönnun, ljósmyndunar, fegurðar og athyglisverðra tískutrenda svo eitthvað sé nefnt.

Voguepedia: Ótrúlegur uppflettivefur sem fór í loftið árið 2011 og var þá ætlað að umfaðma 119 ára sögu tískuritsins sem flestar konur frá fyrsta degi útgáfu hafa einhverju sinni litið augum. Gósenland þeirra fróðleiksþyrstu, draumaheimur grúskarans, magnað uppflettirit tískubloggara. Draumkenndur vefur sem spannar allt litróf tískunnar.

Á Voguepedia má fyrir það fyrsta fletta eftir snyrtivörumerki, hönnuðum, ritstjórum, fyrirsætum, ljósmyndurum, þekktum nöfnum og jafnvel tískufyrirbrigða. Listinn er nær endalaus, afar ítarlegur og hefst ávallt á því sama; fyrstu birtingu í Vogue.

vougepedia

Ótrúlegan fróðleik má finna á síðum tískubiblíunnar og það er sagan spannar allt aftur til fyrstu daga tímaritsins sem hefur verið leiðandi á sínu sviði allt frá fyrstu dögum útgáfu. Þarna má meðal annars finna einkar skoplega sögu af einum fyrsta ritstjóra Vogue, kubbslaga naglanum Josephine Redding, sem kærði sig kollótta um dynti hátískunnar, klæddist gjarna flatbotna skóm og vopnuð afkáralegum hatti, sem hún skildi aldrei við sig, gaf tímaritinu núverandi nafn sitt – Vogue – en heitið gróf hún upp gegnum veglega alfræðiorðabók, sem Josephine handlék gjarna á góðviðrisdögum.

vogue nafnið

Á Voguepedia er einnig að finna gagnagrunn yfir alla þá ljósmyndara, störf þeirra, uppvaxtarár og birtingar á síðum Vogue. Þannig hefur hátískuljósmyndarinn Mario Testino átt heiðurinn að einum 55 forsíðum hátískuritsins og er hvergi nærri af baki dottinn. Færri vita að Mario Testino missti yngri bróður sinn aðeins tíu ára gamlan að aldri úr lifrarkrabba og að reynslan, sem hafði djúpstæð áhrif á Mario, þá sautján ára, knúði hann tæpum þrjátíu árum síðar til að gefa út gullfallega ljósmyndabók sem innihélt einungis ljósmyndir af börnum. Þema bókarinnar, sem bar einfaldlega heitið Kids var óður til barnæskunnar og rann allur ágóði af sölu bókarinnar óskiptur til styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

mario testino

Helstu sorgir og sigra Beyoncé, söguna af hennar fyrsta áheyrnarprófi og ferðalag hennar allt frá hæfileikaþættinum þar sem hún þreytti frumraun sína sjö ára gömul og fram ofurvelgengni hennar til dagsins í dag er einnig að finna á Voguepedia. Allar færslur sem ritaðar hafa verið um Beyoncé á síðum Vogue, hverju hún klæddist og hvaða ljósmyndari varð fyrir valinu. Allt er vandlega skráð niður og svo sú skemmtilega staðreynd að velgengni Destiny´s Child varð til þess að ábyrgðarmenn The Oxford Dictionary sáu sig nauðbeygja til að skrásetja nýyrðið “Bootylicious” á spjöld orðabókarinnar þegar frægðarsól stúlknabandsins skein sem fegurst.

beyonce vogue

Enn á höttunum eftir frekari upplýsingum? Tískutrendin eru líka skráð á síður tískubiblíu allra tíma og er að finna á Voguepedia. Viltu fræðast um stefnur og strauma? Pönkið? Minipils? Hvað vantar upp á hina fullkomnu umfjöllun um hátískuna? Ekki láta hnappinn Turning Points fara framhjá þér.

Ef spursmálið er tíska; geymir Voguepedia svarið. 

heimild: vogue.com/voguepedia

Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.

SHARE