Sérfræðingar mæla með því að hreyfa sig í 30 til 45 mínútur á dag til að halda sér í góðu formi. En flest þekkjum við það vandamál að eiga erfitt með að koma svo langri æfingu fyrir í stífri dagskrá hversdagslífsins. Lausnin á því vandamáli er hins vegar að gera æfingar á meðan við sinnum einhverju öðru. Það er bara um að gera að nota hugmyndaflugið.

1. Sæktu æfingahjólið

Það eru allmargir sem eiga æfingahjól sem er að rykfalla í geymslunni eða bílskúrnum. Það er hins vegar algjör sóun. Náðu í hjólið og komdu því fyrir í stofunni. Þá hefurðu enga afsökun fyrir því að hreyfa þig ekki. Þú getur tekið hjólaæfingu á meðan þú horfir á fréttir eða hlustar á barnið lesa fyrir skólann. Ef þú átt ekki æfingahjól geturðu örugglega fengið það á góðu verði á einhverjum af sölusíðunum á netinu sem sérhæfa sig í notuðum vörum.

2. Armbeygjur við eldavélina

Notarðu þá afsökun að þú þurfir að undirbúa matinn og hafir því ekki tíma fyrir æfingu? Hérna er lausnin á því. Þú gerir einfaldlega æfingar á meðan þú ert að elda. Styddu þig við eldavélina og gerðu standandi armbeygjur á meðan pastað eða hrísgrjónin sjóða. Ef þú gerir þetta á hverjum degi ætti ekki að líða á löngu þangað til þú færð tónaða og fallega handleggi.

3. Burstaðu tennur og styrktu fætur

Notaðu tímann á meðan þú burstar í þér tennurnar eða þrífur þig í framan til að koma inn nokkrum æfingum. Það hentar vel að gera æfingar þar sem ekki þarf að nota hendurnar, enda þær væntanlega uppteknar við annað. Þetta kann að hljóma flókið en um leið og þú kemst upp á lagið með að gera tvennt í einu þá verður þetta ekkert mál.

4. Dansaðu með börnunum

Svo er um að gera að sleppa sér aðeins með börnunum og dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Settu góða tónlist á og hristu skankana í stofunni. Þetta er einkadansgólfið þitt og þú getur gert það sem þú vilt. Það er alveg óþarfi að láta feimni halda aftur af sér þegar maður er í stofunni heima. Það er enginn að horfa, nema þínir nánustu og þeir munu elska þetta uppátæki.

SHARE