4 hlutir sem ég gerði sem eyðilögðu hjónabandið

Þessa grein skrifaði kona að nafni Sloane Bradshaw. Við rákumst á hana og fannst við verða að deila henni með ykkur:

Í fyrstu kenndi ég eiginmanni mínum alfarið um skilnað okkar, eftir 10 ára hjónaband.

Það var hann sem hélt framhjá og labbaði í burtu án þess að líta til baka.

Löngu fyrir það, átti hann það til að loka alveg á mig. Hann sökkti sér í vinnu til að forðast að horfast í augu við það sem var að gerast hjá okkur.

Það hjálpaði mér mikið að „kenna honum um allt“ fyrstu mánuðina eftir skilnaðinn og mantran mín var: „Hvernig vogar hann sér!“.

Ég hafði líka her af fólki í kringum mig sem stóð með mér og var ekki síður hneykslað á því hvað væri eiginlega að þessum manni. Augljóslega var það, að vera lygari sem hélt framhjá og yfirgaf fjölskyldu sína verra en ALLT sem ég gerði í þennan áratug sem við vorum gift. Ekki satt?

Ég var í djúpri afneitun í marga mánuði og tók enga ábyrgð á nokkru varðandi skilnaðinn. Ég sá fyrir mér að ég væri ljúf, óeigingjörn og frekar kúguð eiginkona. Það var ekki fyrr en ég fór til sálfræðings að augu mín opnuðust og ég fór að sjá minn þátt í þessu öllu.

Hér er það sem ég gerði, sem átti sinn þátt í að eyðileggja hjónabandið. Megi það verða ykkur öllum víti til varnaðar.

1.

Ég setti börnin mín í 1. sæti

Það er auðvelt að elska börnin sín og það krefst lítillar fyrirhafnar og þau dýrka þig, sama hvað. Hjónaband er akkúrat hinum meginn á pólnum. Það er vinna. Í hvert skipti sem mér fannst hjónabandið þarfnast vinnu, snéri ég mér í hina áttina og fór með krakkana í Build-A-Bear eða eitthvað til að skemmta þeim.

Ég planaði oft einhver skemmtilegheit þegar ég vissi að eiginmaðurinn kæmist ekki með (svo hann myndi ekki eyðileggja skemmtunina fyrir mér). Ég taldi mér trú um að þetta væri allt í lagi því hann kysi frekar að vera í vinnunni og væri oft pirraður þegar við værum öll saman.

Ég valdi helst að kúra með börnunum í hjónarúminu okkar og kenndi honum um þegar ekkert pláss væri fyrir hann. Sagði honum að hann væri að koma alltof seint upp í rúm.

Þetta varð til þess að við vorum eiginlega aldrei ein saman, ef frá er talið einu sinni á ári á brúðkaupsafmælinu okkar.

2.

Ég setti foreldrum mínum engin mörk

Þau voru mjög oft heima hjá okkur. Þau komu oft í heimsókn án þess að hringja á undan sér og gengu jafnvel beint inn án þess að banka. Þau „hjálpuðu til“ á heimilinu án þess að vera beðin um það, eins og að brjóta saman þvott (ekki eins og við gerum það).

Við fórum í frí með þeim og þau skömmuðu börnin okkar fyrir framan okkur. Ég var hrædd um að koma af stað leiðindum ef ég myndi fara að setja þeim mörk. Í þau fáu skipti sem ég sagði eitthvað, stóð ég ekki við það.

Maðurinn minn giftist bókstaflega allri fjölskyldunni minni.

3.

Ég gerði lítið úr karlmennsku hans

Ég hélt að ástin snérist um heiðarleika og sannleika, en við vitum öll að sannleikurinn á það til að særa.

Eftir að sambandið var orðið „þægilegt“ (lesist: við urðum löt) hætti ég að reyna að hlífa manninum. Ég baktalaði hann við vinkonurnar, mömmu og samstarfsfélagana. Stanslaust!

„Hann gerði þetta! Trúirðu því?“ og „Af hverju í ósköpunum gerði hann þetta?“

Í stað þess að byggja upp sjálfstraustið hans, stappaði ég á því. Ég gerði lítið úr honum, sagði honum að starfið hans væri ómerkilegt og vinir hans væru uppáþrengjandi. Ég tuðaði yfir því að hann gerði hlutina ekki rétt, þegar sannleikurinn var bara að hann gerði þá ekki eins og ÉG VILDI.

Ég talaði oft við hann eins og barn, stjórnaði peningamálum okkar og yfirheyrði hann um hverja krónu sem hann eyddi. Í svefnherberginu gerði hann ekkert rétt, eins og þið getið ímyndað ykkur, og ég lét hann sko finna fyrir því.

Eftir því sem hjónabandið varð verra, stóð ég mig að því að leita að göllum og mistökum til að réttlæta „yfirburði“ mína í þessu sambandi. Að lokum hafði ég enga virðingu fyrir honum og ég er nokkuð viss um að hann hafi fundið fyrir því.

4.

Ég kunni ekki að rífast

Það er kannski ekki til neitt sem heitir að „kunna að rífast“, en það er samt þannig. Ég hélt friðinn á heimilinu með því að þegja yfir öllu sem angraði mig. Þið getið ímyndað ykkur hvernig allir litlu hlutirnir fóru að safnast upp innra með mér, í risastóran reiðibolta sem sprakk svo í þúsund mola. Ég varð frávita af reiði.

Eftirá réttlæti ég reiðina með því að hugsa: „Maður getur bara tekið ákveðið miklu áður en eitthvað gefur sig“. Þegar ég lít til baka sé ég hversu ógnvekjandi ég hef verið í þessum köstum.

Ég skrifa þessi orð ekki til þess að reyna að fá eiginmann minn aftur eða til að reyna að fá fyrirgefningu hans. Ég skrifa þetta því ég trúi varla hvað ég var lengi með hausinn í sandinum og ég vona að aðrar konur lesi þetta og kippi sínum haus upp úr sandinum og líti í kringum sig.

Auðvitað er ég enn sár yfir því að maðurinn minn ákvað að leysa okkar vandamál okkar í rúmi annarrar konu, þegar samtal eða ráðgjöf hefði getað dugað. En ég veit líka að mín hegðun var stór hluti af ástæðu skilnaðarins.

Heimildir: Yourtango.com

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here