Ýmislegt sem við gerum í daglegu lífi kann að auka streitu án þess að við gerum okkur grein fyrir því.

Flest þekkjum við streitu eða stress af eigin raun og hvernig það getur magnast upp af nánast engu tilefni. Stressið getur vissulega verið gott í hófi og jafnvel styrkt okkur, en of mikið stress er alltaf neikvætt. Bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Ýmislegt sem við höfum vanið okkur á í daglegu lífi eykur stressið til muna án þess að við gerum okkur grein fyrir því og margar aðferðir sem við notum til að forðast stressið geta haft þveröfug áhrif. Hér eru nokkur dæmi um það sem þú átt ekki að gera.

1.
Forðast streituvaldinn
Það er vissulega freistandi að forðast það að opna tölvupóstinn yfir höfuð þegar þú veist að það bíða þín fimmtíu ólesnir tölvupóstar sem þarf að svara. Eða láta aðra sjá um að tala á fundinum af því þér finnst þú ekki koma efninu nógu vel frá þér. En því meira sem þú reynir að forðast þessa hluti, því stressaðri verður þú. Með því að takast á við streituvaldinn nærðu betri tökum á honum og með tímanum minnkar streitan.

2.
Fara of seint að sofa
Það virðist kannski vera góð hugmynd að kvöldi til að horfa á einn þátt í viðbót fyrir svefninn en daginn eftir er hún það yfirleitt ekki. Sérstaklega ekki ef komið var fram yfir miðnætti. Þreyta gerir þig mun móttæklegri fyrir streitu og það eru miklu meiri líkur á því að þú hafir óþarfa áhyggjur.

3.
Gerast sófakartafla
Hreyfingarleysi er olía á eld streitunnar. Ef stressið er að plaga þig, ekki setjast upp í sófa og reyna að láta það hverfa. Það gerist ekki. Farðu frekar í ræktina eða í smá göngutúr. Það hefur jákvæð áhrif á sálartetrið og streitan líður úr þér.

4.
Pústa við vinina
Okkur þykir líklega flestum gott að pústa aðeins við vinina eða makann eftir erfiðan dag. Ræða það sem okkur finnst hafa farið miður og er að angra okkur. Það getur hins vegar aukið stressið enn frekar, og það sem meira er, stressið getur smitast yfir á þann sem þú ert að tala við. Og fyrr en varir nærið þið neikvæðar tilfinningar hvors annars.

5.
Skoða Facebook fréttaveituna
Það er varla hægt að skoða Facebook án þess að rekast á myndir af nýfæddum börnum, sónarmyndir, sólarmyndir frá Tenerife eða tilkynningar um trúlofanir. Gleðitíðindi annarra geta ómeðvitað aukið á streituna hjá okkur sjálfum, sérstaklega ef okkur finnst við eiga eftir að afreka eitthvað í lífinu. Að renna yfir Facebook oft á dag er því ekki skynsamleg iðja fyrir stressaðar týpur.

6.
Fara í verslunarferð
Sumir telja það streitulosandi að skella sér í Kringluna og kaupa eitthvað fallegt en fyrir flesta er það alls ekki raunin. Það hljómar kannski eins og góð hugmynd en rannsóknir hafa sýnt fram á að efnishyggja er einn af helstu orsakavöldum streitu.

7.
Taka skyndiákvarðanir
Ákvarðanir sem við tökum í streituvaldandi aðstæðum geta virst mjög lógískar þá stundina, en þegar frá líður eru þær það kannski ekki. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk tekur ekki jafn skynsamlegar ákvarðanir, til lengri tíma litið, undir miklu álagi og stressi.

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE