8 hugmyndir að stefnumótum heima fyrir

Þegar maður er í sambandi og kannski með börn að auki, getur verið agalega erfitt að finna tíma fyrir rómantíkina. Það er dýrt að fara út að borða og svo þarf að borga barnapíunni.

Hér eru nokkrar hugmyndir að rómantík heima fyrir, sem þurfa ekki að kosta mikið.

1. Bíómyndakósí

Þökk sé Netflix og VOD-inu og Leigunni og hvað þetta nú allt heitir, þá er orðið einfalt að skapa huggulegt kósíkvöld heima fyrir. Svo má jafnvel skella heitri nachosdýfu í ofninn og skála í rauðvíni. Og vera í náttfötunum. Það er ekkert sem fæst í bíó!

2. Spilakvöld

Hvernig væri að hóa nokkrum vinum saman og spila saman? Allir koma með eitt borðspil og verja kvöldinu við spil og spjall. Ávísun á góða kvöldstund… svo lengi sem enginn sé mjög tapsár.

3. Líkamsræktarstefnumót

Við vitum öll að góð heilsa er gulli betri. Við vitum líka öll að það getur verið erfitt að finna tímann til að sinna líkamsræktinni. Og heimilinu. Og vinnunni. Og makanum. Það gæti því verið sniðugt að fara saman í ræktina. Eða stunda líkamsrækt heima (af ýmsum toga).

4. Tilraunamennska í eldhúsinu

Kvöldmaturinn á það til að detta í leiðindarútínu og hugmyndaflugið getur verið af skornum skammti. Farið saman yfir uppskriftir eða uppskriftasíður (Pinterest er sniðugt!) og skorið á hvort annað í eldhúsinu.

5. Leikjatölvukvöld

Áttu gamla NES í geymslunni? Er Wii tölvan farin að rykfalla? Hefur enn ekki fundist tími til að vígja PS4 tölvuna? Leyfið ykkar innra barni að blómstra!

6. Búið til heima spa

Leirmaski, kornaskrúbbur, froðubað, kertaljós, nudd… allt þetta kósí sinnum tveir og plús samvera með makanum. Alls ekki slæmt reikningsdæmi.

7. Pikknikk ferð í stofuna

Teppi á gólfið, létt tapas veisla og rómantík. Það má henda þessu í gang í hvaða veðri sem er!

8. Kynnist hvort öðru upp á nýtt

Það hljómar kannski frekar þreytt en í einu pari eru tveir einstaklingar. Einstaklingar sem vaxa, þroskast og taka breytingum. Ef samband á að ganga upp og þróast í sömu átt er mikilvægt að taka púlsinn reglulega. Það þarf ekki að kosta handlegg að njóta samvista!

SHARE