Flestir kannast við þá tilfinningu að sakna. Maður saknar stundum einhvers sem er látinn en þá hlýjar maður sér við góðar minningar sem maður geymir alltaf.

Eins og það getur verið erfið tilfinning að sakna einhvers held ég að það sé hollt og gott fyrir mann að fá að sakna fólksins sem manni þykir vænt um af og til. Ég er farin að kunna að meta tilfinninguna sem fylgir því að sakna. Amma mín fór til dæmis til útlanda í sumar í 10 daga og þá fann ég að ég saknaði hennar, ég gat ekki beðið eftir að fá hana aftur heim. Maðurinn minn fer stundum til útlanda í viðskiptaferðir og er nýkominn heim úr einni slíkri, ég fer nú stundum með en í þetta skiptið komst ég ekki með enda mjög langt flug fyrir ólétta konu. Við söknuðum hvors annars í þessa nokkra daga sem hann var úti og það var æðislegt að fá hann heim. Það getur verið erfitt að sakna en á sama tíma held ég að það sé hollt og gott fyrir mann að fá tækifæri til þess að sakna af og til. Það sýnir manni enn betur hversu mikið maður elskar sína nánustu og vill ekki án þeirra vera.

Það er stundum sagt að fjarlægðin geri fjöllin blá og það getur svo sannarlega átt við í ákveðnum tilfellum. Við könnumst flest við það þegar fólk saknar fyrrverandi maka og virðist hafa gleymt alveg öllu því slæma sem átti sér stað í sambandinu. Já, söknuður getur að vissu leiti brenglað hugsunina en mín reynsla er samt sú að söknuður er oftast af hinu góða, í það minnsta ef maður saknar þeirra sem manni þykir vænt um. Stundum á maður það nefninlega til að gleyma því að kunna að meta fólkið í kringum sig. Maður má ekki taka fólkinu sínu sem sjálfsögðum hlut og það er ágætt að spá stundum í því að það eru ekki allir það heppnir að hafa gott fólk í kringum sig, góðan og traustan maka, góða foreldra og ömmur og afa, góða vini og góð systkini. Það er ekkert sjálfsagður hlutur.

Kannski er ég bara Pollýana í dag en ég ætla að vera jákvæð og segja að við höfum öll gott af því að sakna!

SHARE