Mikið hefur verið fjallað um hina glæsilegu Angelinu Jolie undanfarnar vikur. Leikkonan gekkst undir aðgerð fyrir skömmu síðan eins og flestir nú vita og bíður nú eftir næstu aðgerð. Hún dró sig úr sviðsljósinu um tíma en steig svo fram og sagði frá ákvörðun sinni, sú ákvörðun var að gangast undir brjóstnám en móðir hennar lést fyrir aldur fram úr krabbameini sem gengur í erfðir. Angelina tók þá ákvörðun að fara í brjóstnám og með því minnka líkurnar á því að fá krabbamein.

Myndir hafa birst af leikkonunni víða og slúðurblöðin vestanhafs birta myndir af henni á forsíðu og segja fólki að hún sé of létt, jafnvel með anorexíu. Ég gat svo ekki orða bundist þegar ég renndi yfir fréttaveituna á Facebook í gær og sá fólk skrifa ýmis ummæli við fréttir um leikkonuna. Fólk sagði til dæmis:

“Oj hvað hún er sjúskuð, illa farin og horuð, alltof horuð!”

“Hún var einu sinni sæt þegar hún var með kjöt á beinunum, nú er hún bara eins og anorexíusjúklingur!”

“Hvernig væri að fá sér hamborgara? Djöfull er þetta ljótt, talandi um að vera að detta í sundur.”

Og svo gæti ég lengi talið. Ég næ þessu ekki alveg, það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég sé að þessi leikkona, sem alltaf hefur verið grönn, hefur lést, er svo sannarlega ekki anorexía. Það fyrsta sem mér dettur í hug er kvíði, stress, veikindi og álag sem einmitt veldur oft þyngdartapi. Ég verð líka að segja að mér finnst alveg hreint furðulegt að það sé efst í huga fólks að setja út á útlit manneskjunnar og fara þannig langt út fyrir efnið. Ég fór að velta því fyrir mér hvort einhver myndi segja svona lagað um manneskju sem til að mynda hefði fitnað mikið vegna lyfjagjafar, hefði fólk þá tekið undir ummæli eins og: “OJ hvað hún er feit og ljót, hvernig væri að fara í megrun!” Ég sé það ekki alveg fyrir mér, en það virðist bara vera í lagi að setja út á útlit fólks ef um er að ræða “of horaða” manneskju samkvæmt einhverjum ákveðnum stöðlum, þá er alltaf fólk sem tekur undir það. Þó að ÞÉR finnist hugsanlega fallegra að vera með “meira kjöt á beinunum” er það bara ekkert í boði fyrir alla, fólk verður bara að fá að vera eins og það er. Ótrúlegt en satt, þá eru bara alls ekkert allir sem pæla mikið í líkamsþyngd sinni, það er mjög líklegt að þessi tiltekna leikkona sé að hugsa um svo margt annað en að vera mjó eða horuð.

Við skulum líka muna það að anorexía er sjúkdómur og anorexía er ekki eitthvað sem við ættum að slengja fram í niðrandi tón. Anorexía er sjúkdómur sem mjög erfitt er að eiga við og það vita allir sem kljást við sjúkdóminn.

Aðalatriðið er nefninlega ekki þessi gullfallega leikkona, aðalatriðið er að þarna er kona sem kom fram og sagði frá mjög persónulegum hlut sem hefur hugsanlega mikið að segja fyrir margar konur og sumt fólk virðist vera uppteknara af útliti hennar en málefninu. Fyrst kom, “Nú nenni ég ekkert að horfa á myndirnar hennar, hún er ekki með alvöru brjóst lengur” Svo núna er það… “Vá hvað hún lítur illa út, alltof horuð, hún er pottþétt með anorexíu.”

Mig langar svo líka að taka fram að mér finnst hún gullfalleg, hvort sem hún er léttari en hún á að sér að vera vegna veikinda eða 15 kg þyngri en hún er í dag.

Hér er myndasafn sem við birtum. Myndir sem Brad Pitt tók af konu sinni.

SHARE