Akureyringar loka þjóðveginum

Fréttasíðan Patentlausn getur nú skúbbað að Akureyrarbær hefur ákveðið að loka í áföngum þjóðveginum í gegnum bæinn. Á næsta ári verður vegurinn þrengdur niður í eina akrein, en árið 2020 verður svo veginum endanlega lokað.
Við tókum viðtal við bæjarstjórann.

– Já það er rétt, okkar nýja skipulag gerir ráð fyrir að vegurinn verði farinn árið 2020. Hann tekur einfaldlega dýrmætt byggingarland frá bæjarbúum, sem bærinn getur selt fyrir líklega 10-20 milljarða. Og það er nú hægt að ráða marga leikskólakennara fyrir þann pening. Svo getum við byggt ný hverfi á þessu svæði, hverfi sem verða alveg eins og í alvöru borgum í útlöndum, svona þétt og falleg byggð eins og í Amsterdam eða Flórens.

En getið þið bara ákveðið þetta?
Akureyri hefur aldrei framselt sitt skipulagsvald til ríkisins. Við ráðum auðvitað yfir okkar landsvæði! Við viljum ekki að bærinn þenjist út bara til að einhverjir Reykvíkingar geti keyrt stystu leið í gegnum bæinn.

En hvernig á þá á að ferðast milli norðvesturlands og norðausturlands?
Sko, það eru fjölmargar leiðir aðrar. Til dæmis mætti leggja nýjan veg fyrir ofan skíðabrekkurnar í Hlíðarfjalli. Einnig er mjög álitlegur kostur að umferðin fari niður á Árskógssand og þaðan með ferju til Grenivíkur.

En lengur það ekki ferðatímann umtalsvert hjá þessum ferðalöngum?
Nei nei, alls ekki svo. Kannski klukkutíma eða tvo. En þétting Akureyrarbæjar þýðir að vegalengdir innan bæjarins styttast. Alla vega fyrir suma. Sem eru kjósendur hér á Akureyri.

En gengur það, að segja fólki bara að taka ferju? Er það raunhæft?
Sko, þetta eru nú bara örfáir, aðallega eitthvað snobbpakk að sunnan, sem nota þenna þjóðveg í gegnum bæinn, sem liggur eins og skerandi sár í gegnum Akureyri. Hugsaðu bara um öll BÖRNIN sem eru í hættu! Fyrir utan alla milljarðana sem við græðum.
Það er ekki okkar vandi hvernig eitthvert utanbæjarfólk kemst frá einum stað til annars. Getur það ekki bara keyrt til Keflavíkur í staðinn?

Pistill eftir Einar Karl Friðriksson sem einnig birtist á blogginu hans

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here