Brjóst eru oft talin ímynd kvenlegrar fegurðar og hafa konur löngum sóttst eftir hinum fullkomnu brjóstum.

Hér er bæði átt við lögun og stærð brjóstanna en það getur verið háð tísku hvers tíma, sem getur verið breytileg.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að konur vilja fara í brjóstastækkun. Sumum finnst þær alltaf hafa verið með of lítil brjóst og vilja einfaldlega stækka þau.

Í öðrum tilfellum er það lag brjóstanna sem þarf að bæta t.d. er hægt að laga vægt sig á brjóstum með því að setja púða í þau. Þá er stór hópur þar sem brjóst hafa aflagast eftir barnsburð og brjóstagjöf. Þau hafa minnkað og verða signari, og síðast en ekki síst eru fjölmargar konur sem því miður fá sjúkdóma í brjóstin og þarf þá að nema í burtu hluta eða allt brjóstið og þá er hægt að lagfæra með ísetningu púða.

Þegar brjóst eru stækkuð í fegrunarskyni er lögð áhersla á að konan ákveði að fara í aðgerð sjálf, fyrir sjálfa sig en ekki vegna utanaðkomandi þrýstings frá maka eða samfélaginu.

Almennt er mælt með því að konur hafi tekið út vöxt og þroska áður en hugað er að brjóstastækkun. Oft er einnig ráðlagt að eignast börn áður en hugsað er að slíku, en hver og einn  verður að tka eigin ákvarðanir í þessu efni.

Saga og þróun:

Fyrsta brjóstastækkunin var framkvæmd 1895 þegar fituæxli af baki sjúklings var notað til að bæta upp í brjóstvef sem hafði verið fjarlægður vegna æxlis. Síðan var það ekki fyrr en á 7. áratugnum að farið var að nota önnur efni eins og silicon sem í fyrstu var sprautað í brjóstin með misjöfnum árangri. Þetta leiddi síðan af sér brjóstapúðana eins og við þekkjum þá í dag, ýmist fyllta með saltvatni eða silicone. Hér á landi eru aðallega notaðir silicone púðar sem þykja hafa mýkri og betri áferð og gefa brjóstunum eðlilegra útlit.

Silicone:

Hvað er silicone? Silicone hlaupið sem notað er í brjóstafyllingar er unnið úr kísil, einu algengasta efni jarðskorpunnar. Kísill er í formi kristalla sem mynda m.a. venjulegan sand. Silicon finnst hins vegar ekki í náttúrunni en með því að tengja lífræn efni við kísil verður til hlaup eða olía sem notuð er . Silicon er notað gríðarlega mikið, m.a. í matvæli, snyrtivörur, lyf og lækningatæki á borð við sprautur og gerviliði. Siliconpúðarnir sem notaðir eru til að stækka brjóst, eru venjulega gerðir úr siliconkvoðu, sem er innpökkuð í seigan siliconpoka.

Aðgerðin:

Fyrsta skrefið er viðtal og skoðun á stofu hjá lýtalækni. Þá er mikilvægt að konan útskýri fyrir lækninum hvaða væntingar hún hefur varðandi stærð og annað. Læknirinn útskýrir síðan aðgerðina fyrir sjúklingi, hvernig hún er gerð, hættur og hugsanlegar aukaverkanir og hversu líklegt er, að hægt sé að uppfylla væntingar sjúklings. Aðgerðin fer venjulega fram á skurðstofu lýtalæknis og gerð í svæfingu. Brjóstapúðunum er komið fyrir í gegnum lítinn skurð, annaðhvort undir brjóstkirtlinum sjálfum, eða ennþá dýpra undir brjóstvöðvanum. Silicon er aldrei sett inn í brjóstkirtilinn sjálfan. Síðan jafnar konan sig á vöknun og fer alla jafna heim samdægurs. Almennt er rétt er að taka frí frá vinnu í 1-2 vikur eftir starfa og íþróttir er ekki gott að stunda í 4-6 vikur.

Sjá einnig: Staðreyndir um góðkynja ber í brjóstum

Áhætta og aukaverkanir:

Fylgikvillar eru sem betur fer sjaldgæfir, þótt öllum aðgerðum fylgi einhver áhætta. Fyrst má nefna verki,  blæðingar og sýkingar í kjölfar aðgerðar sem þarfnast meðhöndlunar, þá getur komið fram drep í einstaka tilfellum. Hætta frá svæfingu er alltaf til staðar, en er ekki talin mikil í dag. Þá getur teygst á skyntaugum til brjóstsins sem leiðir af sér skert skyn í geirvörtu eða brjósti. Það geta myndast kalkanir og eymsli í kringum örvef auk þess sem húðin getur þynnst og breyst vegna þrýstings, einnig er lýst útbrotum sem alla jafna ganga niður. Eftir að brjóstapúðinn er kominn á sinn stað myndast örvefur í kringum púðann. Þessi örvefur getur í fáum tilfellum harðnað sem leiðir til að gera þarf aðra aðgerð til að losa um hersli. Þá er þekkt að brjóstapúðar geta lekið og valdið bólguviðbragði sem er einstaklingsbundið, en getur verið alvarlegt og valdið einkennum víðar en í brjóstum eða holhöndum. Þá hefur verið lýst aukningu á eitilfrumukrabbameini (ALCL, Anaplastsic Large Cell Lymphoma) hjá konum sem eru með brjóstapúða, en slíkt er þó sjaldgæft

Brjóstagjöf, eftirlit, enduraðgerð, :

Brjóstapúðar koma ekki í veg fyrir að hægt sé að hafa barn á brjósti enda eru þeir þá settir aftan við brjóstið, sumar konur eiga þó í erfiðleikum með brjóstagjöf. Engin aukning á brjóstakrabbameini hefur fundist hjá konum með brjóstapúða. Brjóstapúðar endast almennt ekki alla ævina en erfitt er að segja til hversu lengi þeir endast. Talið er að allt að 20% kvenna þurfi að láta skipta um púða eftir 10 ár. Sumar kjósa að láta ekki setja inn  nýja púða, en töluverð breyting verður á brjóstum þegar konur eru með púða og vantar þá fyllingu ef þeir eru fjarlægðir. Mikil umræða hefur verið um púðaskipti í kjölfar PIP málsins sem kom upp fyrir nokkrum árum þar sem um var að ræða gallaða púða með miklum aukaverkunum. Almenna vinnureglan er að skipta ef ástæða er til og fylgjast með púðunum ef þeir breytast eða leka sem sést þá ef lag brjóstsins breytist eða upp koma óþægindi. Leki er staðfestur á röntgenmynd eða með ómskoðun auk skoðunar hjá lækni. Mikilvægt er að minna á það að brjóstapúðar eru aðskotahlutur í líkamanum. Í Bandaríkjunum er mælt með segulómun af brjóstum 3 árum eftir ísetningu til að meta leka og á 2ja ára fresti eftir það. Slíkt fyrirkomulag er alfarið á kostnað konunnar, en hefur ekki verið tekið upp hér skipulega. Vilji kona fá skoðun er henni bent á að leita til síns lýtalæknis, heimilislæknis eða á leitarstöð krabbameina með ráðgjöf.

 Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

 

SHARE