Dröfn Vilhjálmsdóttir heldur úti blogginu eldhussogur.com þar sem hún birtir allskonar ómótstæðilegar uppskriftir. Þessi uppskrift er ein af hennar allra vinsælustu og við höfum fengið góðfúslegt leyfi til að birta nokkrar vel valdar á Hún.is. Ef þú vilt fylgjast með Dröfn á Facebook getur þú nálgast síðuna hér.

Eins og það er gaman og nauðsynlegt að fara í frí svona endrum og sinnum þá er alltaf jafn gott að koma heim aftur. Það þykir mér að minnsta kosti. Þrátt fyrir vandræðalega mikla flugþreytu og svefnleysi hjá heimilisfólki hér í gær gat ég eiginlega ekki beðið eftir að komast aftur í eldhúsið mitt. Ég eyddi talsverðum tíma í fríinu í að glugga í matartímarit og eftir að hafa rekist á girnilega uppskrift að grísakótilettum í Cooking Light hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að elda eitthvað svipað þegar heim var komið. Útkoman var einstaklega góð og mér þykir þetta upplagður föstudags- eða helgarmatur.

min_img_5360

Appelsínugljáðar grísakótilettur með sinnepi og rósmarín (fyrir 4):
  • 5 grísakótilettur með beini
  • Safinn úr tveimur stórum appelsínum (u.þ.b 2 dl)
  • 2 msk appelsínumarmilaði
  • 2 msk grófkorna sinnep
  • 1 hvítlauksrif smátt saxað eða rifið á rifjárni
  • 3-4 ferskar rósmaríngreinar eða 2 tsk þurrkað
  • Salt og pipar

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður. Pískað saman í skál appelsínu safa, marmilaði, sinnepi, hvítlauk og kryddið með smá salti og pipar og 1 tsk af söxuðu rósmarín. Kryddið kjötið með salti og pipar og steikið á vel heitri pönnu þar til vel brúnað. Færið kjötið yfir á disk. Hafið pönnuna á meðalháum hita og hellið vökvanum á. Hleypið suðunni upp og leyfið að sjóða í 5 mínútur eða þar til sósan hefur aðeins þykknað. Leggið kjötið þá aftur á pönnuna og veltið vel upp úr sósunni. Leggið rósmaríngreinar ofan á og bakið í ofni í 8-10 mínútur eða þar til kjötið er eldað í gegn. Berið fram með fersku salati.

 

 

SHARE