Ef barnið pissar undir er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er býsna algengt fram að 6 ára aldri. Það er því ástæðulaust að hafa af því miklar áhyggjur fyrr en eftir þann aldur.

Hafa þarf í huga að barnið gerir þetta EKKI viljandi.

Ef barnið pissar óviljandi í rúmið, er það kallað ósjálfráð þvaglát eða enuresis (latína).

Ósjálfráð þvaglát geta oft verið ættgeng. Allt upp í 85% tilfella eru ættgeng. Það þýðir að einhver ættingi hefur átt við sama vanda að stríða. Í 57% tilfella hefur annaðhvort systkini eða annað foreldranna einnig pissað undir.

Af þeim börnum sem pissa undir er meirihlutinn drengir. Komið hefur í ljós, að u.þ.b. 15-20% 5-6 ára barna pissa undir. Gera má ráð fyrir þessu hjá 1% unglinga. Hjá flestum börnum sem pissa undir er yfirleitt ekki vitað um neina skýringu.

Þó kemur það fyrir að sum börn fara skyndilega að væta rúmið eftir að hafa haldið sér þurrum um nætur. Yfirleitt er á því læknisfræðileg eða sálræn skýring, t.d. blöðrubólga, sykursýki, vandamál í skólanum eða skilnaður foreldra.

Sjá einnig: Þvagfærasýking og blöðrubólga

Hvers vegna pissa sum börn undir?

Oftast er engin viðhlítandi skýring. Algengast er að það sé ættgengt.

Þó er talið að sum þessara barna sofi afar djúpum svefni, og finni því ekki fyrir því þótt þvagblaðran fyllist. Einnig er einstaklingsbundið á hvaða aldri þau ná stjórn á blöðrunni.

Einstaka börn framleiða of lítið af því efni, sem virkar hamlandi fyrir þvaglát að nóttu til (ADH). Þeim er hægt að hjálpa með nefúða, sem inniheldur þetta efni. Læknir þarf að skoða barnið og meta hvort þörf er á meðferð.

 

Hvað get ég gert til að hjálpa barninu?

Reyndu að láta þvaglátin ekki verða að vandamáli fyrir fjölskylduna. Flest börn eru mjög leið yfir því að pissa undir. Það er því mjög til bóta, ef fjölskyldan er jákvæð og styður barnið.

Segðu barninu að margir aðrir eigi við þetta að stríða. Ef þekkt dæmi eru í fjölskyldunni hjálpar að segja barninu frá því, að „þessi og hinn hafi líka lent í þessu á yngri árum.“ Barninu líður betur að vita að það er ekki eitt um þetta vandamál.

Gefðu barninu mjög lítið að drekka u.þ.b. 2 klukkustundum áður en það fer í háttinn. Það er ekki öruggt að það hjálpi, en það er til bóta að láta barnið ekki fara að sofa belgfullt af vökva.

Láttu barnið pissa áður en það fer að sofa.

Settu gúmmíundirlak í rúmið.

Leggðu hrein náttföt og lak til fóta eða við hliðina á rúmi barnsins svo að það geti sjálft skipt um, ef það vaknar. Láttu barnið sjálft skipta um lak. Það er ekki hugsað sem refsing, heldur til að stuðla að því að barnið takist sjálft á við vandann. Það hjálpar barninu að vera meira meðvitað um þvaglátin.

Hrósaðu barninu óspart ef það heldur sér þurru yfir nótt.

Barnið á ekki að sofa með bleiu því að þá lærir það ekki að skynja og bregðast við þegar það vætir sig eða þarf að pissa.

Mörgum foreldrum hefur verið gefið það ráð að vekja barnið um miðja nótt til að láta það pissa. Það hefur ekki reynst sérlega árangursríkt, þar sem barnið vaknar ekki af sjálfsdáðum til að pissa.

 

Hvenær á ég að fara með barnið til læknis?

  • Ef barnið heldur áfram að pissa undir eftir 6 ára aldur.
  • Ef barnið hefur verið hætt að væta í rúmið og fer síðan skyndilega að gera það aftur.
  • Ef sterk lykt er af þvagi barnsins, ef barnið kvartar yfir sviða eða verkjum þegar það pissar, eða þegar það er nýbúið að pissa.
  • Ef barnið fer að væta sig á daginn.
  • Ef barnið pissar oft á dag og um nætur.
  • Ef barnið er með hægðatregðu eða hefur ósjálfráðar hægðir í buxurnar.
  • Ef þú hefur áhyggjur af að eitthvað sé að.

 

Hvað athugar læknirinn?

Læknirinn þinn byrjar á að afla upplýsinga um barnið. Hvenær það vandist af bleiu á daginn, hvort einhver önnur vandamál séu á ferð, hvort einhver annar í fjölskyldunni hafi átt við svipað að etja o.s.frv.

Því næst skoðar hann barnið. Þreifar kvið þess og kynfæri.

Læknirinn biður líka yfirleitt um þvagprufu til að útiloka bakteríusýkingu og blöðrubólgu. Einnig er hugsanlegt að tekin verði blóðprufa.

 

Hvaða meðhöndlun kemur til greina?

Ef ekkert líkamlegt amar að barninu er algengasta aðferðin svokölluð rúmbleytuviðvörun. Það er gert þannig að klukka, bjalla eða titrari vekur barnið, ef það pissar í rúmið.

Ástæðan fyrir því að viðvörunin ber árangur er, að hún vekur barnið þegar fyrsti þvagdropinn lendir í nærbuxunum eða lakinu. Þannig verður barnið smátt og smátt meðvitað um að nú sé það að pissa og að þvagblaðran sé full.

Viðvörunarbúnaðurinn getur verið mismunandi. Stundum er lítið koparnet lagt undið lakið og tengt við búnað, sem hringir um leið og fyrsti þvagdropinn lendir í lakinu. Aðrir eru með skynjara í nærbuxunum, sem er tengdur við bjöllu eða slíkt.

Gerið ykkur grein fyrir að það getur tekið vikur eða mánuði að sjá árangur af búnaðinum. Það er tímafrekt að þjálfa barnið. Temdu þér og barninu þolinmæði.

Flest börn hætta að pissa undir af sjálfu sér, þegar þau eru tilbúin. Búnaðurinn flýtir fyrir.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE