Bolludagur, einn yndislegasti tyllidagur ársins er í dag – hillur kökubúða svigna undan þunga þeytta rjómans, kaffistofur vinnustaða hljóta að vera ansi litskrúðugar í dag og ef grannt er lagt við hlustir má eflaust heyra hlátrasköll og orðin: „Bolla, bolla, bolla!”

Spurningin sem hlýtur að brenna á vörum einhverra er þá væntanlega: „En er siðurinn íslenskur?” og svarið er „Já, í og með.”

Ævaforn tyllidagur sem felur í sér hamingjuríkt bolluát

Bolludagurinn á uppruna sinn að rekja til lönguföstu, sem hefst á miðvikudegi með Öskudegi – en Bolludagur er mánudagurinn í föstuinngangi, sjö vikum fyrir páska. Þannig er siðurinn í raun kaþólskur að uppruna, en algengt var í kaþólskum sið hér áður að fastað væri a kjöt síðustu tvo dagana fyrir lönguföstu. Þó segir Wikipedia elstu heimildir um bolluát (mjólkurmat) í föstuinngangi vera að finna í Sturlungu og biskupasögum, svo ætla má að Íslendingar hafi um aldabil átt í ástríðufullu sambandi við rjómabollur.

img_4186

Ljósmynd og uppskrift að bollum: Eldhússögur

Bolludagurinn harðlega gagnrýndur í Mogganum árið 1910

Bolludagurinn er skemmtilegur tyllidagur og tíðkast léttar flengingar, hróp og hlátrasköll á Bolludegi. Heitið Bolludagur bar fyrst upp hérlendis á prenti árið 1910, en dagurinn var áður kallaður Flengingardagur. Reykvísk bakarí hófu þannig að auglýsa bollur á Bolludaginn um svipað leyti og segir Wikipedia frá umfjöllun í Morgunblaðinu frá árinu 1915 þar sem kvartað er yfir hnignun Bolludagsins:

„… það eina sem virðist vera eftir af kætinni frá fyrri tímum á »bolludaginn«, er óhemju kökuát barnanna — og full búðarskúffan af smápeningum hjá bökurum bæjarins. »Bollan« kostar því miður þrjá tveggeyringa í þetta sinn!“

Íslenskir bolluunnendur létu þjóðlega gagnrýni bréfritara þó eins og vind um eyru þjóta og þannig má finna auglýsingu í Morgunblaðinu frá árinu 1935, þar sem bakaríið Freia auglýsir fjölbreyttar bollur á bolludaginn:

Rjómabollur, rommbollur, krembollur, súkkulaðibollur, rúsínubollur, vínarbollur, hveitibollur.

img_4124

Ljósmynd og uppskrift að bollum: Eldhússögur

Flengjarinn skuli vera alklæddur en fórnarlambið án fata

Bolluvendirnir eru ómissandi viðbót á sjálfan Bolludaginn – ýmsir föndra en aðrir kaupa bolluvendi. Leikurinn gengur út á að börnin flengi foreldra sína, hrópi BOLLA BOLLA BOLLA og fái svo bollu að launum. Strangt til tekið á þó flengjarinn að vera alklæddur og fórnarlambið óklætt – því er börnum best að góma foreldra sína snemma morguns ef ætlunin er að bolla – en fyrir hvert högg fær flengjarinn eina bollu að launum. Svo segir hefðin í það minnsta.

En hvers vegna flengjum við fólk á Bolludaginn? Ýmsar kenningar eru á lofti, einhverjir segja fyrirmyndina kaþólska en aðrir að upprunann sé að finna í frjósemisgöldrum og að með flengingum séum við í raun að vekja náttúruna til lífs og starfa þegar vorið er í nánd.

Litrík og skemmtileg siðvenja – ert þú búin/n að bolla einhvern í dag?

SHARE