Dröfn Vilhjálmsdóttir stofnaði matarbloggið sitt, eldhussogur.com í júní 2012 en hún hefur alla tíð haft áhuga á matargerð og bakstri. Við rákumst á þessa frábæru vefsíðu sem inniheldur fjöldan allan af uppskriftum og myndum af ómótstæðilegum kræsingum! Við fengum góðfúslegt leyfi Drafnar til að birta nokkrar uppskriftir frá henni og fengum að heyra aðeins í þessari mögnuðu konu:Dröfn hefur sett inn yfir 300 uppskriftir á síðuna sína sem nálgast má með því að klikka hér. Dröfn segir að matarbloggið veiti henni aðhald og hvatningu til að læra eitthvað nýtt og prófa sig áfram í eldhúsinu:
Mér finnst magnað hversu auðvelt það er í raun að galdra fram dásamlega góðan mat eða kökur úr einföldum hráefnum. Þess vegna ætti maður aldrei að þurfa að borða óspennandi, óhollan eða vondan mat. Með þetta að leiðarljósi veitir bloggið mér aðhald og hvatningu til þess að læra eitthvað nýtt og prófa mig áfram í eldhúsinu og koma þannig í veg fyrir að ég festist í sama farinu í matargerð. Mér finnst bloggið ákaflega hentugur vettvangur til þess að halda utan um uppskriftirnar mínar og miðla þeim til minna nánustu sem hafa áhuga.

Bloggið hefur undið hratt upp á sig og þegar mest lætur fær síðan 15 þúsund heimsóknir á dag
Bloggið undið hratt upp á sig og þegar mest lætur fæ ég 15 þúsund heimsóknir á dag sem er auðvitað komið býsna langt út fyrir nánustu fjölskyldu en það er afar skemmtilegt að svona margir sýni blogginu áhuga. Á bloggið set ég ekki eingöngu inn uppskriftir heldur legg ég mikla áherslu á að hafa góðar myndir af matnum og oft á tíðum ferlinu við matargerðina. Að sama skapi flétta ég oft frásögnum og myndum frá hversdagslífinu inn í bloggið til að gefa uppskriftunum lit. Þannig matarblogg finnst mér sjálfri skemmtilegast að lesa, matur og matargerð tengjast svo náið fólki og félagsskap að þetta tvennt er ekki hægt að aðskilja.

Það eru eflaust margir sem binda vonir við að Dröfn gefi út matreiðslubók einn daginn!

Hér fyrir neðan er uppskrift af Brownie köku með hindberjarjóma. Þessa uppskrift verður maður að prófa!

Uppskrift

Brownie-botn

 • 120 gr suðusúkkulaði
 • 100 gr smjör
 • 2 1/2 dl sykur
 • 2 egg
 • 1 ½ msk vanillusykur
 • ¼ tsk salt
 • 1 ½ dl hveiti
 • Hindberjarjómi
  • 300 gr. frosin hindber, afþýdd
  • 1 dl sykur
  • 4 blöð matarlím
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi
  • þeyttur rjómi til skreytingar
  • fersk hindber til skreytingar

  Brownie-botn: Bakarofn hitaður í 175°C. Smelluform (ca. 22 cm.) smurt að innan, bökunarpappír sniðinn og klipptur eftir botninum á forminu og lagður ofan á botninn. Súkkulaði og smjör sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Þegar blandan er bráðnuð er hún tekin af hitanum og sykri bætt út í. Hrært þar til blandan er slétt. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er vanillusykri og salti hrært út í. Að lokum er hveitið sigtað út í, blandað varlega saman með sleikju og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 175°C í um það bil 30 mínútur (athugið að kakan á að vera blaut). Kakan látin kólna. Því næst er smelluforminu smellt af og kökunni hvolft á kökudisk. Þá er auðvelt að fjarlægja bæði botninn á kökuforminu og bökunarpappírinn. Því næst er smelluforminu smellt aftur utan um kökuna á kökusdisknum til þess að halda við hindberjarjómann sem kemur ofan á.

   

 • Hindberjarjómi: Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er síðan hellt í fínt sigti og fræin þannig síuð frá og þeim hent. Matarlímsblöð lögð eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látin liggja þar í 5-7 mínútur. Hindberjamauk, sem nú er laust við fræ, er sett í pott ásamt sykrinum og suðan látin koma upp.  Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk og þykk eru þau tekin upp úr skálinni, vatnið kreist úr þeim og þeim svo bætt út í hindberjamaukið í pottinum og hrært þar til blöðin eru uppleyst. Potturinn er tekinn af hitanum og vanillusykri þá bætt við (vanillusykri má aldrei blanda við sjóðandi vökva, þá verður hann beiskur) , blandan svo látin bíða þar til hún kólnar. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan hefur kólnað er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjarjómanum er því næst dreift yfir kaldan brownie-botninn (formið látið sitja áfram utan um kökuna). Kakan kæld í minnst þrjá klukkutíma, gjarnan yfir nóttu. Skreytt með þeyttum rjóma og ferskum hindberjum.

SHARE