Hægeldað lambalæri er ekta sunnudagsmatur. Það er dásamlega mjúkt og meyrt og nánast bráðnar í munninum. Uppskriftin er fengin af Eldhússögum.
Sjá einnig: Hægeldaður lambahryggur í jólaöli
Hægeldað lambalæri
- 1 lambalæri, ca. 3 kíló
- ólífuolía
- lambakjötskrydd
- salt og pipar
- 2 sætar kartöflur
- 12 kartöflur
- 6 gulrætur
- 1 paprika
- 2 rauðlaukar
- 2 hvítlaukar (ég notaði solo-hvítlauka sem koma í heilu)
- piparkorn
- 600 ml vatn
Bakarofn hitaður í 80-100 gráður undir-og yfirhita. Lærið er snyrt, skolað og þerrað. Því næst er borið á það ólífuolía og það kryddað með lambakjötskryddi, salti og pipar. Kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur flysjaðar og skornar í mátulega bita, passa að hafa bitana frekar litla. Laukurinn, paprikan og hvítlaukurinn sömuleiðis. Öllu raðað í botninn á steikarpotti, vatninu helt yfir, dálítið að piparkornum bætt út í og þá er lærið lagt yfir grænmetið. Steikarpottinum lokað og lærið látið steikjast í ca. sex til sjö tíma við 80-100 gráður. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Þegar steikartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220 gráður og grill. Þannig er lærið grillað í ca. 10 mínútur eða þar til puran er orðin dökk og stökk. Ef mögulega grænmetið er ekki alveg tilbúið á þessum tímapunkti þá er hægt að leggja lærið á bretti og hella grænmetinu í ofnskúffu. Á meðan lærið jafnar sig áður en það er skorið niður og lokið er við sósugerð er hægt að setja grænmetið í ofnskúffunni inn í ofninn við 200-220 gráður og baka það í ca. 10 mínútur eða þar til það er alveg eldað í gegn.
Lærið er svo lagt á bretti og leyft að jafna sig á meðan sósan er útbúin.
Sósa:
Vökvinn í ofnpottinum er síaður frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.
- 40 g smjör
- 40 g hveiti
- 3 dl rjómi
- 2-3 tsk lambakraftur (eða nautakraftur)
- 2 tsk rifsberjahlaup
- 1 msk sojasósa
- sósulitur
- salt og pipar
Smjörið er brætt í potti og hveitinu þeytt saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddum, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.