Nú hafa margir sennilega lagt lokahönd á smákökubakstur og eru farnir að huga að öðruvísi hnossgæti. Til dæmis tertum til þess að bera á borð í einhverju jólaboðinu. Hérna er ein alveg stórkostleg, uppskriftin er fengin af Eldhússögum.

Sjá einnig: Æðisleg marengsterta með ávaxtarjóma og karamellusúkkulaðikremi

img_1419

Draumaterta með fílakaramellukremi

  • 200 g sykur
  • 3 egg
  • 100 g pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g döðlur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g suðusúkkulaði, saxað meðalgróft
  • 50 g kornflex
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 líter rjómi

IMG_1379

Fílakaramellukrem:

  • 200 g fílakaramellur
  • 1 dl rjómi

Ofn hitaður í 200 gráður. Egg og sykur þeytt mjög vel saman. Þá er pecanhnetunum, döðlunum, suðusúkkulaðinu ásamt kornflexinu og lyftidufti bætt út í varlega með sleikju.

IMG_1381

Tvö smelluform (ca. 24 cm) smurð og deiginu skipt á milli þeirra. Bakað við 200 gráður í um það bil 20-30 mínútur. Tíminn getur verið dálítið misjafn eftir ofnum, það þarf að fylgjast með botnunum og meta tímann. Botnarnir eru kældir.
1/2 líter rjómi þeyttur og settur á milli botnanna. Ég skildi dálítið eftir að rjóma til að skreyta tertuna með.

Fílakaramellur settar í pott ásamt rjómanum og hitað við vægan hita þar til karamellurnar eru bráðnaðar og hafa blandast saman við rjómann. Þá er kremið látið kólna þar til það er hæfilega þykkt – það er að það sé hægt að hella því yfir tertuna án þess að það leki of mikið. Eftir að kremið er sett á kökuna er hún geymd í ísskáp þar til að kremið er orðið kalt og stífnað.  Þá er kakan skreytt með afgangnum af þeytta rjómanum. Ég skar niður nokkrar fílakaramellur smátt og dreifði yfir tertuna en ég mæli reyndar ekki með því. Mér fannst karamellurnar of seigar undir tönn til þess að nota þær sem skraut.

 

SHARE