Herdís Júlía Júlíusdóttir átti frábæra grein í Akureyrar vikublaðinu en þar talar hún um fög sem kennd eru í skólum og af hverju það er ekki kennd sjálfshjálp.
Herdís er á þriðja ári í Menntaskólanum á Akureyri.

Kæri lesandi mér þykir fyrir því að viðurkenna það að ef ég myndi koma að þér í lífshættu myndi ég að öllum líkindum ekki geta bjargað þér. Jú ég hef vissulega fengið smá fræðslu í skyndihjálp en það er langt síðan og ég búin að gleyma megninu af því sem ég lærði á námskeiðunum.

Segjum sem svo að þú hafir verið að keyra utan bæjar, lent á hálkubletti og bíllinn farið útaf veginum. Ég myndi koma að þér, ein á ferð og enginn myndi koma á næsta hálftímanum svo ég væri því þín eina von. Ég er hrædd um að þó að ég myndi að sjálfsögðu vilja bjarga þér þá myndi ég ekki geta það, því ég hefði ekki hugmynd hvernig ég ætti að bera mig að. Ég gæti auðvitað reynt að muna það sem ég hef lært í skyndihjálp en það myndi taka tíma og í aðstæðum sem þessum, skiptir hver sekúnda máli.

Góðu fréttirnar eru þó að þökk sé skólanum þá gæti ég þulið fyrir þig erindin úr Hávamálum svo seinustu mínúturnar yrðu allavega ekki leiðinlegar. Ég myndi með ánægju segja þér það sem ég man úr Grettissögu. Ég gæti meira að segja sett upp leikþátt um hana og þú gætir valið á milli þess að ég flytti það á íslensku, ensku, þýsku, spænsku eða dönsku. Ef þú myndir vilja deyja með glæsilegum hætti gætum við jafnvel farið með kvæði Þóris Jökuls í Sturlungu, „Upp skalt á kjöl klífa, köld er sjávardrífa, kostaðu hug að herða, hér skaltu lífið verða…“ Svo gæti ég skrifað glæsilega minningargrein um þig, á nokkrum tungumálum og einnig samið ljóð um þig samkvæmt fornum bragarháttum.

En því miður, eins og ég sagði í upphafi, eru sáralitlar líkur á því að ég gæti bjarga þér. Ég myndi að sjálfsögðu reyna allt sem í mínu valdi stæði til að reyna að bjarga lífi þínu en þar sem kunnátta mín í skyndihjálp er ansi takmörkuð og frekar kölkuð þá væru viðbrögð mín sennilega ekki þau réttu miðað við ástandið sem þú værir í. Það væri allavega frekar heppni heldur en færni ef ég myndi ná að bjarga þér.

Ég spyr sjálfa mig hví í ósköpunum er ekki kennd skyndihjálp í skólum landsins. Hvers vegna er talið mikilvægara að læra ljóð eftir einhvern mann sem var uppi fyrir langa löngu en að kunna skyndihjálp? Með fullri virðingu fyrir ljóðskáldum og þeirra verkum þá myndi ég miklu frekar vilja hafa möguleika á að bjarga lífi heldur en að halda uppi nafni ljóðskálda.
Með þessari grein vil ég hvetja menntamálaráðuneyti, menntamálaráðherra og alla þá sem fá einhverju ráðið í menntamálum að innleiða skyndihjálp sem skyldunám í öllum skólum og helst árlega því fólk gleymir. Þar að auki finnst mér að það ætti að skylda alla vinnustaði til að halda skyndihjálparnámskeið á þriggja ára fresti. Með því móti aukast líkurnar á að fleiri geti hjálpað til á slysstöðum og bjargað lífum. Þessi breyting væri því okkur öllum til góða og gæti jafnvel bjargað lífi þínu eða ástvina þinna einn daginn.

Greinina og Akureyrar vikublað má finna hér.
Höfundur greinar: Herdís Júlía Júlíusdóttir.

SHARE