„Ég hef verið mjög þreytt í mörg ár“ – Kristjana Marín segir okkur sína sögu

Kristjana Marín Ásbjörnsdóttir var búin að vera slöpp í mörg ár og farið lækna á milli í leit að orsök þreytunnar og slensins. Hún skrifaði okkur sögu sína:

Ég hef verið mjög þreytt í mörg ár, alveg síðan ég var unglingur og man varla eftir mér öðruvísi. Ég var mjög grönn og fitnaði ekki þrátt fyrir að borða mikla óhollustu. Ég þurfti alltaf að plana dagana út frá því að leggja mig. Ég einfaldlega hélt bara að minn orkuþröskuldur væri minni en hjá öðrum og var bara vön því.

Átti erfitt með að halda sér vakandi

Árið 2006 fór ég til heimilislæknis vegna þess að þreytan var að aukast. Ég var bara endalaust þreytt og gat sofnað allsstaðar. Ég átti til dæmis erfitt með að halda mér vakandi við upplestur og tónleika í vinnunni. Ég var alveg búin á því eftir vinnudag og svaf mikið. Ég fór til læknis sem sendi mig í blóðprufu. Niðurstaðan úr þeirri prufu var það að allt var í fína lagi nema ég var aðeins of blóðlítil. Læknirinn sagði að ég væri með „vægt þunglyndi“ og ráðlagði mér því að fara í ræktina eða göngutúra.

Versnaði við veikindi móður

Árið 2009 var móðir mín lögð inn á gjörgæslu í lífshættu sem tók mikið á. Þá fór líðan mín að versna. Ég var farin að svitna óeðlilega mikið, vaknaði stundum í svitabaði á nóttunni en var ískalt. Þreyta og orkuleysi yfirtók allt. Ég var í fjarnámi og kvöldskóla með vinnu og var með rútínu samkvæmt því. Ég þurfti að leggja mig eftir vinnu svo ég færi ekki að sofna yfir bókunum og ég varð að sofa til hádegis á frídögum til að geta lært. Ég svaf í 2-3 tíma að meðaltali á daginn eftir vinnu en svo fór þetta að aukast og ég fór að sofa lengur og var ennþá þreytt þrátt fyrir það.

Það var farið að vera mjög erfitt að vakna. Aldrei hvarflaði að mér að það væri eitthvað að. Maður verður hálf dofinn og sinnuleysið verður í hámarki. Þegar ég lít til baka skil ég bara ekki hvernig ég gat þetta. Ég náði að klára skólann, vinna og hugsa um barnið mitt. Heimilið mætti reyndar afgangi og öll verk sem hefði þurft að gera. Ég varð mjög óskipulögð sem var ólíkt mér. En einhvernveginn tókst mér að halda þessu öllu gangandi með þrjósku.

Tók fýluköst útaf engu

Eftir því sem tíminn leið fór ég að fá oft hausverk og vöðvabólgu og ég var farin að vera oft pirruð og döpur. Ég var farin að taka „fýluköst“ útaf engu og ég var svolítið farin að loka mig af. Það voru þunglyndiseinkenni sem ég var að fá. Ég hafði alltaf svör fyrir því afhverju ég var með þessi einkenni. Til dæmis vegna þess að það væri svo mikið að gera í skólanum, ástarsorg og vera einstæð móðir. Þess vegna hef ég ekki talið neitt líkamlegt vera að. Það var farið að vera ómögulegt að tala við mig stundum. Það var erfitt að ráða við alla þessa tilfinningaflækju.

Gleymskan

Ég var líka orðin hræðilega gleymin. T.d. mundi ég ekki eitt skiptið númerið mitt á stimpilklukkunni í vinnunni sem ég var búin að vera með í 5 ár, ég var gleymin með nöfn á fólki sem ég hafði samt þekkt lengi og svo var skammtímaminnið alveg svakalega lélegt. Ég datt alveg út þegar ég var á leiðinni eitthvað og þegar ég ætlaði að gera eitthvað, mundi ekki hvað ég hafði gert daginn áður og gleymdi eitt skiptið eggjum sem voru að sjóða í pottinum.

Tók sér pásu frá náminu

Þegar ég útskrifaðist sem sjúkraliði jólin 2011 ákvað ég að taka smá pásu frá skólanum því að ég var farin að eiga svo erfitt með að einbeita mér og önnin var því sérstaklega erfið. Ég féll í stærðfræði því ég gleymdi öllu sem ég hafði lært þegar ég kom í prófið en náði síðan sjúkraprófinu. Síðan var ég farin að þyngjast þrátt fyrir að vera í ræktinni og blés út af bjúg. Ég byrjaði á Herbalife og ætlaði aldeilis að taka á því í ræktinni og fá meiri orku með hreyfingunni.

Alltaf var ég hrikalega þreytt eftir vinnu þrátt fyrir að drekka 10 kaffibolla því það var mitt „bensín“ svo ég gæti lifað af daginn. Þá dreif ég mig beint í ræktina að hamast. Þolið var farið að versna smátt og smátt og ég fór að fá svimaköst. Ég var svo þrjósk að ég drakk meira kaffi eftir ræktina til að reyna að halda mér vakandi. Ég skildi svo ekkert í því af hverju ég náði ekkert að léttast. Ef ég fór ekki í ræktina í viku fann ég mig þyngjast.

Fékk ofsakvíðakast í litun og plokkun

Þá gerðist það einn miðvikudaginn í mars 2012 þegar ég var búin að vinna 8-16 og fara í ræktina að ég ákvað að fara í lit og plokk um kvöldið svo ég náði ekki að leggja mig þann dag. Ég veit ekki hvað ég hafði drukkið marga kaffibolla. Ég var að berjast á móti þreytunni og leið eitthvað furðulega. Snyrtifræðingurinn setur lit á augun þannig að ég varð að hafa augun lokuð. Þá fékk ég rosalega innilokunarkennd sem jókst smátt og smátt þar til ég gat ekki meira og hún varð að taka litinn af mér strax því ég var farin að svitna gríðalega og fannst eins og ég væri bara að deyja, allt varð svo fjarlægt og hjartað pumpaði rosalega hratt.

Ég vissi ekki að ég var að fá ofsakvíðakast. Eftir að ég kem heim fæ ég annað kast og næsta dag í vinnunni og var ítrekað að fá kast yfir helgina. Ég hélt ég væri að missa vitið. Ég komst svo að því sjálf þegar ég fór að googla að þetta væri ofsakvíðakast og reyndi að fara eftir því sem var sagt að gera til að koma í veg fyrir köstin. Svo las ég það að ofsakvíðakast getur komið í kjölfar skjaldkirtilssjúkdóma. Þá sá ég það að öll einkennin pössuðu við mig.

Var búin á því á sál og líkama

Ég fór til læknis strax eftir helgi. Þar brotnaði ég niður. Ég var gjörsamlega búin á sál og líkama. Hann gat séð að ég væri með ofsakvíða og ég fékk kvíðastillandi. Ég spurði hvort hann gæti athugað skjaldkirtilinn og ég fór í blóðprufu og var greind með vanvirkan skjaldkirtil. Einnig var ég járnlítil. Ég fór á Levaxin, 50 míkrógrömm 4 daga vikunnar og 100 míkrógrömm 3 daga vikunnar og lífið mitt snarbreyttist smátt og smátt en það tók um 7 mánuði fyrir mig að vinna upp orku. Ég mundi ekki að það væri hægt að vera svona vakandi og var búin að gleyma því hvernig líðan manns ætti að vera. Elska töflurnar mínar sem hafa gefið mér lífið aftur! Ég fór aftur í ræktina og fór að léttast og er næstum komin í sömu þyngd og ég var áður, enda hrundi bjúgurinn af líka.

Skjaldkirtillinn er staðsettur framan á hálsinum og skiptist í tvo hluta sitt hvorum megin við barkann. Hann gefur frá sér hormónið þýroxín sem stjórnar meðal annars efnaskiptum líkamans en losun þýroxíns er aftur stjórnað af hormóni sem kemur frá heiladingli. Skjaldkirtillinn getur tekið upp á því að framleiða og losa út í blóðið of mikið eða of lítið af þýroxíni og er þá talað um ofstarfsemi eða vanstarfsemi kirtilsins. Truflanir á starfsemi skjaldkirtils er tiltölulega auðvelt að greina með vissu með hormónamælingum í blóði.
Skjaldkirtillinn er staðsettur framan á hálsinum og skiptist í tvo hluta sitt hvorum megin við barkann. Hann gefur frá sér hormónið þýroxín sem stjórnar meðal annars efnaskiptum líkamans en losun þýroxíns er aftur stjórnað af hormóni sem kemur frá heiladingli. Skjaldkirtillinn getur tekið upp á því að framleiða og losa út í blóðið of mikið eða of lítið af þýroxíni og er þá talað um ofstarfsemi eða vanstarfsemi kirtilsins. Truflanir á starfsemi skjaldkirtils er tiltölulega auðvelt að greina með vissu með hormónamælingum í blóði. Skjaldkirtill.is

 

Hringdi í lækninn emjandi af sársauka

Ég hef ekki fengið ofsakvíðakast síðan, en ég fékk eitt slæmt kvíðakast rétt eftir áramótin 2012-2013. Það kom snöggt einn morguninn þegar ég var að fara í vinnu og það tók svo á að ég svaf mestmegnis í 2 daga á eftir. Ég fékk stundum slæma verki í fæturnar og það komu slæm tímabil hjá mér sem ég þurfti að leggja mig og var alveg orkulaus. Það er eins og líkaminn hafi þurft að gjalda fyrir það þegar ég gerði mikið. Þá gat ég sofið út í eitt og varð að safna orku aftur. Það gat tekið nokkra daga að fá orkuna á ný. Einnig fékk ég ennþá stundum þunglyndiseinkenni. Alltaf komu samt mælingarnar vel út. Ég hringdi eitt skiptið í heimilislæknirinn þegar ég var emjandi af sársauka í fótunum og hann sagði mér að taka 2 töflur af D -vítamíni með Omega 3 á hverjum degi.

Ég komst svo að því að ef ég borðaði eitthvað sem innihélt soja krassaði ég og var í nokkra daga að jafna mig (öll einkenni vanvirkan skjaldkirtils komu fram). En undanfarið var þreytan að yfirtaka allt og orkuleysið. Ég var sérstaklega slæm þegar ég vaknaði snemma þannig að alla vinnudaga var ég að berjast á móti þessu. Ég kláraði alla orkuna í vinnunni og lá svo bara fyrir eftir daginn alveg búin á því. Vöðvabólga, depurð, aukin þreyta og minnisleysi versnaði mikið. Haustið 2013 var ég að berjast við að vera í skóla að klára stúdentinn (fjarnám og kvöldskóla) og vinnu en það fór öll mín orka í það og svo svaf ég.

Fór til þriggja mismunandi lækna

Ég fann fyrir mikilli vanlíðan. Ég fór til þriggja mismunandi lækna sem sendu mig í blóðprufur en aldrei spurði neinn hvernig mér liði né skráði niður einkennin. Þegar niðurstöður kom var svarið alltaf það að skjaldkirtillinn væri alveg eðlilegur samkvæmt mælingu. Ég sagði í október þegar ég fékk þessa niðurstöðu að það gæti bara ekki verið því ég væri með öll einkennin. Það var ekki hlustað á það. Mig fór að gruna að ég væri með vefjagigt því einkennin eru mjög svipuð. Ég fór einnig í margar rannsóknir vegna tíðra þvagláta. Niðurstaðan var sú að ég væri með ofvirka þvagblöðru en læknirinn tengdi það ekki við skjaldkirtilinn. Ég komst svo að því fyrir stuttu að það er eitt af einkennum vanvirknis.

Laugardaginn fyrir jólin 2013 ákvað ég að prófa að taka 100 míkrógrömm af Levaxin í staðinn fyrir 50 míkrógrömm því ég var orðin alveg orkulaus. Svo hugsaði ég bara að taka þetta í mínar eigin hendur vegna þess að ég fann mikinn mun á mér og ákvað því að halda áfram að taka 100 míkrógrömm á hverjum degi. Mér fór að líða mikið betur. En samt var ég ennþá með einkenni eins og beinverki, særindi í hálsi, orkuleysi, vanlíðan, depurð, síþreytu, erfitt að vakna og fleira.

Ég var undirmeðhöndluð

Í janúar 2014 fékk ég tíma hjá lækni sem mér var bent á. Ég sagði honum frá líðan minni og hann gat séð það strax á mér að ég væri undirmeðhöndluð. Sem sagt að skjaldkirtillinn væri ennþá vanvirkur. Hann sá að ég var með bjúg undir augum, hár og húð þurrt, kaldar hendur, þreytuleg og augnabrúnir þunnar. Hann spurði mig nokkrar spurningar um líðan mína og það passaði allt saman. Ég er með þurrk undir fótum og á olnbogum, kláða í húð, orkulaus ennþá og með síþreytu, gleymin, utan við mig, viðkvæm, með vöðvabólgu, hárlos, hjarta pumpar hratt og hart, oft með kvef, beinverki og hitatilfinningu, særindi í hálsi og almenn vanlíðan.

Hann sagði mér að auka skammtinn enn meira. Hann sagði mér að taka 125 míkrógrömm á dag í viku og hækka síðan í 150 míkrógrömm á dag auk þess voru hellingur af vítamínum sem hann mælti með að ég tæki. Ég er enn með bullandi einkenni vanvirkan skjaldkirtils. Var sjálf ekki að gera mér alveg grein fyrir því fyrr en við töluðum um það. Vegna þess að ég var farin að versna mikið aftur og fór á stærri skammt fann ég svo mikinn mun að hafa farið að geta gert meira og var glaðari. Þá er svo erfitt að finna það hjá sjálfri manni að einkennin eru ekki alveg farin þegar manni er farið að líða betur. Það er eins og það gleymist hvernig heilbrigð líðan er.

Þetta er ekki leti

Eftir að ég fór á skjaldkirtilslyf er ég alveg með löngunina í að gera fullt en það er líkaminn sjálfur sem stoppar mig af, þreyta og slen sem gerir erfitt fyrir. Það virkar eins og leti en það er ekki leti. Þetta er líkaminn sem er búinn á því. Það getur tekið smá tíma fyrir lyfin að virka og að byggja upp líkamann. Þessi sjúkdómur er með sömu einkenni og vefjagigt en munurinn er sá að það eru alltaf til staðar verkir við þreifingu í vefjagigt og verður að vera til staðar í a.m.k. 11 af eftirfarandi 18 kvikupunktum (sjá vefjagigt.is)

Ég veit til þess að það eru mjög margir með vanvirkan skjaldkirtil sem eru undirmeðhöndlaðir vegna þess að það mælist eðlilegt í blóðprufu en einkennin eru samt til staðar. Það er forvitnilegt að vita hvort það séu margir sem eru ómeðhöndlaðir vegna þess að blóðprufur koma eðlilega út en eru samt með vanvirkan skjaldkirtil samkvæmt einkennum. Í sjúkraliðanáminu lærði ég það að við eigum alltaf að hlusta á líkamann og gott heilbrigðisfólk er fólk sem hlustar á líðan sjúklings og meta það án þess að horfa stíft á niðurstöðu úr blóðprufum vegna þess að viðmiðið um „eðlilegt“ ástand á skjaldkirtlinum er mjög stórt. Þessi einkenni eru margskonar vegna þess að skortur á skjaldkirtilshormóni hefur áhrif á flest líffæri. Það virðist vera saklaust en það getur verið alvarlegt ef ekki er meðhöndlað til lengri tíma og getur verið orsakavaldur af mörgum alvarlegum sjúkdómum, t.d. sykursýki, hjartasjúkdóm, sjálfofnæmisjúkdómum, krabbamein og alzheimer.

Einkenni:

Einkennin

Einkennin byrja oftast væg og aukast með tímanum þannig að það gera sér ekki allir grein fyrir því. Þau eru til dæmis: þróttleysi, síþreyta, erfitt að vakna, þreyta þrátt fyrir að hafa sofið, svefnleysi, verkir í vöðvum og liðum, vöðvakrampi, vöðvabólga, stirðleiki og þreyta í liðamótum, sinadráttur, óþol gagnvart kulda, höfuðverkur og tíðatruflanir. Húðin er oft þurr, föl og hrjúf, þurrkublettir, bólur, neglur þunnar og brothættar, hárið þunnt, hárlos og þurrkur í augum, augngröftur, fjörfiskur, sjóntruflanir (sjá í móðu), munnþurrkur, þunglyndi, kvíði, depurð, vanlíðan, viðkvæmni, skapsveiflur og pirringur, sinnuleysi, máttleysi, minnisleysi, tregða í hugsun, athyglisbrestur, þyngdaraukning, konur verða ófrjóar, hæg melting, hægðatregða, ofvirkur ristill, ofvirk þvagblaðra, skert kynlöngun, fótaóeirð, fótapirringur, hæsi og djúp rödd, þvoglumæli, orð koma vitlaust út, kvef, minnkuð matarlyst og skjálfti. Viðkvæmari fyrir veikindum og sýkingum og ótalmörg fleiri einkenni geta verið.
Síðar koma alvarlegri einkenni eins og bjúgur, bólgumyndun, blóðleysi, heyrnarskerðing, þykk tunga, hjartastækkun og hægur púls, lágur blóðþrýstingur, svimi, andnauð, blóðsykursfall, hraður og harður hjartsláttur og lækkaður líkamshiti.

– Kristjana Marín Ásbjörnsdóttir, sjúkraliði

Frábærar upplýsingar á skjaldkirtill.is

 

Dagarnir eru misgóðir og misslæmir

 

SHARE