Harpa Einarsdóttir, fatahönnuður og listakona, er farin að hanna undir merkinu Myrka, eftir að hafa misst fyrirtækið sitt, Ziska, í hendur fjárfesta fyrir tveimur árum. Hún hefur sett af stað söfnun á Karolina Fund til að leggja lokahönd á frumgerðir nýju línunnar. Næst á dagskrá er svo sýning í Cannes þar sem fína og fræga fólkið fær að berja flíkurnar augum

 

„Það er stórt skref að fara aftur af stað, alveg frá grunni. En fatahönnunin er einskær ástríða hjá mér þannig ég verð að halda áfram og gera það sem ég er menntuð til,“ segir fatahönnuðurinn og listakonan Harpa Einarsdóttir sem er að reyna að koma undir sig fótunum með nýtt vörumerki – Myrka.

Með Hilton-systur á kantinum

Harpa hefur sett af stað söfnun á Karolina Fund til að geta lagt lokahönd á línuna sem hún er nánast tilbúin með. Henni hefur verið boðið að taka þátt í spennandi viðburði í tengslum við kvikmyndahátíðina í Cannes í næstu viku og þarf hún því að hafa hraðar hendur við að klára frumgerðir línunnar og útbúa kynningarefni. Harpa ljómar af tilhlökkun þegar hún talar um Cannes þar sem við sitjum á notalegu kaffihúsi í Hafnarfirði. Hún dreypir á kaffi, því besta í bænum, að hennar sögn.
„Þetta er á vegum fyrirtækis sem heitir Beverly Hills Haute Coutere. Þau leigja glæsihýsi, halda veislur og tískusýningar,“ segir Harpa. Hún þekkir einn þeirra sem að fyrirtækinu standa og vill sá hinn sami hjálpa henni við að kynna nýja vörumerkið. Að sjálfsögðu tekur hún því fagnandi.
„Ég get fengið gott tengslanet þarna og vonandi klætt einhverja stjörnuna í Myrka. Hollywood-sena er kannski ekki alveg það sem Myrka stendur fyrir, en svona fögnuður kitlar hégómann örlítið. Ég hef aldrei upplifað neitt í líkingu við þetta. Að sitja á sundlaugarbakka með Hilton-systur á kantinum. Það er mjög fjarlægt mínum íslenska veruleika,“ segir Harpa og skellir uppúr. Og það eru orð að sönnu. Síðustu mánuðir hafa verið henni frekar erfiðir.

Missti heimilið og bílinn

„Eftir að ég lokaði búðinni minni, Baugar og bein, síðasta haust þá missti ég eiginlega allt úr höndunum á mér. Heimilið, bílinn og allt. Ég er búin að vera á flakki um landið, eins og sígauni, síðustu mánuði. Það er samt gott að komast aðeins í burtu til að átta sig á hvert maður er að fara og hvað maður vill gera við líf sitt. Ég tók þátt í mjög spennandi listaviðburði á Seyðisfirði í febrúar og vann á hóteli við Mývatn í mars, og naut þess að vera með husky-tíkinni minni á hundasleða í náttúrufegurðinni þar. Ég gaf mér tvo mánuði í að ákveða hvort ég ætlaði að gera aðra tilraun í tískubransanum eða gefa mig alla í myndlistina og láta þennan bransa bara eiga sig fyrir fullt og allt.“

Missti fyrirtækið til vinkonu sinnar

Þrátt fyrir að Harpa sé mjög sátt við það sem hún er að gera í dag, er sú ákvörðun að fara af stað með nýtt vörumerki þó ekki komin til af góðu. Árið 2014 missti hún fyrirtækið sitt, Ziska, í hendur fjárfesta eftir að hafa unnið að því í sex ár. Sagan á bak við þessa atburði er mjög dapurleg enda var um að ræða vinkonu Hörpu.

„Hún kom inn fyrirtækið sem fjárfestir en ákvað svo að draga sig í hlé vegna persónulegra vandamála. Ég var þá með allt tilbúið í framleiðslu og var komin inn í verslunina Gottu á Laugavegi. Ziska var listamannsnafnið mitt og því erfitt að missa fyrirtækið í hendur annarra. Mér bauðst samstarf með annarri viðskiptakonu sem framleiddi línuna fyrir Gottu, og um leið reyndi hún að hjálpa mér að fá merkið aftur í mínar hendur.“
En vegna þess að framleiðslan var sett í gang án þess að nýjum samningi hafði verið lokað þá gerðist Harpa brotleg við þann samning sem hún hafði áður gert við vinkonu sína. „Þannig að hún, með sína sterku lögfræðinga, tók allan hagnað af sölu línunnar og eignaðist í framhaldi af því Ziska. Þetta var afar lærdómsrík reynsla og kenndi mér líka að treysta ekki öllum um leið. Ég lærði að samningar eru samningar. Ég reyni að láta hvatvísi mína ekki koma mér í svona vandræði framar.“

Var rosalega dramatísk

Harpa segist reyndar hafa miklu meiri húmor fyrir hlutunum í dag en hún hafði áður. Líka þegar illa gengur. Hún getur alveg hlegið að hrakförum sínum og því sem fer úrskeiðis. Það gerir gæfumuninn að geta það.
„Ég var rosalega dramatísk og tók allt aðeins of mikið inn á mig. Það er mikið frelsi í því að geta hlegið að sjálfum sér, yppt öxlum og haldið áfram. Það er miklu verra að gefast upp og játa sig sigraða heldur en að spýta í lófana og reyna aftur,“ segir Harpa sem hefur alltaf verið óhrædd við að koma til dyranna eins og hún er klædd. Hún hefur tjáð sig opinskátt um geðhvarfasýki sem hún glímdi við, sem og heimilisofbeldi sem hún bjó við um tíma. Það að hún stigi fram og segði sína sögu veitti fleirum styrk til að gera slíkt hið sama. Harpa er stolt af því að hafa opnað umræðuna, en hún varð hins vegar fyrir töluverðum fordómum í kjölfarið.
„Fólk lítur stundum á mig sem fórnarlamb þó ég upplifi mig ekki sem slíkt. Ég er opinská og geri mig svolítið varnarlausa fyrir vikið. En ef það hjálpar einhverjum þá er það þess virði. Ég sé allavega ekki eftir neinu.“

Gerði oft magnaða hluti í maníu

Eins og fram hefur komið er Harpa á góðum stað í dag. Það á líka við varðandi geðhvarfasýkina sem hún heldur nú í skefjum með lyfjum. „Síðasti kærastinn minn neyddi mig til að byrja á geðlyfjum. Hann sagðist hætta með mér ef ég færi ekki á lyf,“ segir Harpa og skellir upp úr. „Það var mjög gott hjá honum að setja mér þessa afarkosti. Hann kom inn í líf mitt á réttum tímapunkti og hjálpaði mér mikið að hreinsa til í lífi mínu.“

Harpa hafði þá nokkrum sinnum reynt að fara á lyf en alltaf hætt fljótlega eftir að hún byrjaði. „Ég fékk svo lyf sem hentuðu mér vel og þau hafa gert mér alveg ótrúlega gott. Ég fattaði hvað líf mitt var búið að vera erfitt út af þessum sveiflum. Ég var svo veruleikafirrt og upplifði hlutina sterkari og öðruvísi en þeir voru í raunveruleikanum. Það varð allt ýktara og meira fyrir vikið. Ég viðurkenni það reyndar að ég sakna þess stundum að detta í þessar maníu. Ég gerði oft magnaða hluti í maníu, en líka mjög heimskulega hluti. Ég held samt að ég muni alltaf vera á lyfjunum. Þau hjálpa mér að halda sönsum, vera skipulögð og glöð. Kvíðinn er líka farinn. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun,“ segir Harpa og virðist staðföst. Að taka lyfin hefur líka hjálpað henni að styrkja sambönd við fjölskyldu og vini, sem er henni mjög dýrmætt.

Var ástfangin af ástinni

Hér áður fyrr átti Harpa það jafnframt til að sækja í að vera ástfangin. Hún sóttist sífellt eftir því að vera í samböndum og þá skipti engu hvort þau gerðu henni gott eða ekki. „Ég hef verið ástfangin af ástinni og hef alltaf þurft að hafa eitthvað í gangi. En núna, í fyrsta skipti, er ég búin að vera lengi án alls þessa. Og ég er mjög sátt við það. Sátt við að vera ekki í sambandi. Mér finnst gott að treysta bara á sjálfa mig,“ segir Harpa og það er ljóst að henni líður vel.
Eftir að hafa misst heimili sitt um tíma er hún nú búin að koma sér vel fyrir í litlu húsi í gamla bænum í Hafnarfirði. Þar býr hún ásamt 16 ára dóttur sinni sem er að ljúka tíunda bekk í Lækjaskóla. En 18 ára gamall sonur hennar er að læra flug á Keili og býr hjá ömmu sinni og afa í Keflavík á meðan. „Börnin mín eru bæði alveg stórkostleg. Ég skil ekki hvernig ég fór að þessu,“ segir Harpa og brosir. Stoltið leynir sér ekki þegar hún talar um börnin. Að koma þeim á legg er hennar mesta afrek í lífinu og það tekur enginn af henni.

Mynd/Rut

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE