„Ég skal mála allan heiminn, elsku mamma”

Svo ég pakkaði jólunum niður og flögraði yfir lendur Skandinavíu með hlébarðatösku í eftirdagi og lítinn Rassa, sem skríkti af gleði yfir þeirri staðreynd að við ákváðum að tékka okkur inn á hótel kortéri í hátíðir. Skakklappaðist með barnið inn í höfuðborgina, lagði höfuðið örmagna á koddann, sötraði sódavatn íklædd flónelsokkum og hló.

Hvað er svo einstæð móðir eiginlega að vilja upp á dekk með sex ára gamalt barn – og það á helgasta tíma ársins – einsömul á fjögurra stjörnu hóteli í Kaupmannahöfn? Af hverju festi ég ekki kaup á nýjum sófa, borgaði bifreiðatryggingarnar, samdi um niðurgreiðslu stöðumælasekta, skammaðist mín svo smávægilega, hengdi upp lúnar jólakúlur og prjónaði eins og tvö stykki sokka?

Í fyrsta lagi rak forvitnin mig af stað; sú löngun að stokka upp hversdagsleikann og láta reyna á ævintýraþránna og í öðru lagi er móðurfjölskylda mín að hálfu stödd á meginlandi Evrópu og með annan fótinn á Íslandi. Þess utan staðgreiddi ég ferðina í haust og festi kaup á fleiri flugmiðum … ég er ægilega skæð þegar ég kemst á tilboðssíður evrópskra flugfélaga með bankakortið að vopni á síðkvöldum.

Sennilega hef ég fengið útþránna að gjöf við fæðingu og ég er lánsöm um margt í lífinu. Þó nútímafjölskyldur séu flóknar í eðli sínu þarf það ekki að merkja að kærleikann skorti. Að tengslin séu dreifðari og þar af leiðandi slitróttari. Þvert á móti þykir mér jafnvænt um öll systkini mín, sem öll hafa fetað eigin leiðir í lifinu.

Að mínu mati skiptir stærð fjölskyldunnar eða eðli blóðtengsla ekki öllu; meiru skiptir að kærleikurinn fari fyrir samskiptunum – að hláturinn skorti ekki – að gleðin, lífsforvitnin og vináttan fái að blómstra.

Ég er líka þeirrar skoðunar að hver fjölskylda móti sínar eigin hefðir og að þannig beri hver kynslóð eigið svipmót. Vissulega þykir okkur Rassa litla gaman að halda jólin hátíðleg heima við og hver veit hvert leið okkar liggur þetta árið. Kannski hengjum við upp lúnar jólakúlur, smökkum norskt pinnakjöt og rannsökum skandinavískar jólahefðir. Hver veit nema við rötum heim til Íslands um næstu jól; setjum í skóinn, borðum Nóa konfekt og sötrum Malt og Appelsín sem er alger munaðarvara í útlöndum.

Og svo er sú ógurlega hugdetta enn að narta í aðra öxlina á mér; að láta allt um lönd og leið og storma með barnið til Sikileyjar fyrir næstu jól, taka lítið hús á leigu og narta í ólívur. Nema við veljum vatnsrennibrautagarð á Kanaríeyjum. Hver veit? Litlu skiptir hvar við verðum stödd í heiminum, – því líkt og systkini mín og fjölskylda, sem tæpast ná að sitja sama kaffiboðið sökum búsetu um gjörvalla Evrópu og Bandaríkin – er það kærleikurinn, stöðugleikinn í daglegum venjum og viðhorf okkar til lífsins; sá siðferðisarfur sem við látum áfram ganga til barna okkar sem skiptir mestu máli að mínu mati.

Ein helsta ástæða þess að við Rassi litli kjósum að ferðast saman og heimsækja ólíka menningarkima er einmitt sú staðreyndin að við styrkjum samband okkar í hvert sinn sem leiðin liggur burtu frá gráum hversdagsleikanum og út í óvissuna. Hvar sem við kjósum að eyða frídögum okkar. Við ferðumst saman – móðir og barn – flissum og færum okkur upp á skaptið, skríðum undir sæng þegar sól hnígur á himni og spröngum á fætur fyrir allar aldir.

Hversu einkennilegt sem það er, þá komum við stöðugt sterkari til baka. Í þetta sinn göngum við inn í nýtt ár, vongóð á svip og full tilhlökkunar fyrir næstu Íslandsferð sem ber upp um miðjan febrúar.

Góðir Íslendingar, upp með kaffibollana! Við Rassi erum að koma í heimsókn!

Tengdar greinar:

Túrbanklædda hetjan og töffarinn frá Íslandi

Hvað ungur nemur gamall temur

Ég er mín eigin móðir

SHARE