Eggert Eyjólfsson fyrrum slysalæknir setur þessa færslu á FB síðu sína og segir frá því í hreinskilni hvernig ástandið er í heilbrigðiskerfinu og máttum við til með að deila honum með ykkur:

Ég er nú frekar seinþreyttur til vandræða. En ég er kominn með nóg af því að stjórnendur LSH tali undir rós um stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Orð eins og “… í hópi ríkja sem við viljum ekki bera okkur saman við” og “stefnir í óefni”.
Eigum við ekki bara að segja sannleikann? LSH er óaðlaðandi vinnustaður, fyrir allar stéttir. Álagið er mikið, húsnæðið er algerlega úr sér gengið, nánast ónýtt og fyrir löngu orðið algerlega úrelt. Áttum okkur á því að gjörgæsla LSH á Hringbraut, þar sem vistaðir eru sjúklingar sem hafa undirgengist gríðarlega stórar aðgerðir á brjóst og kviðarholi og fárveik börn, er í húsnæði sem var byggt á árunum 1926-1930.
Tækjabúnaður sjúkrahússins er gamall og lúinn. Til að mynda er meðalaldur tölva á LSH um 8 ár. 8 ÁR!!!
Stöður lækna eru í síauknum mæli fylltar með nemum, sem ekki hafa reynslu eða þekkingu til að standa á eigin fótum inni á sjúkrahúsinu þar sem þarf að taka erfiðar ákvarðanir oft á dag. Það á enginn læknanemi skilið að vera settur í þá aðstöðu að ráða ekki við aðstæður og hafa lítið “bakköpp” að leita til.
Upp á síðkastið hefur verið erfitt að fá teknar röntgenmyndir á sjúkrahúsinu. Mönnum er tíðrætt um öryggi sjúklinga. Sjúkrahús sem ekki getur tryggt að hægt sé að taka einfalda röntgenmynd af sjúklingum á gjörgæslu, bráðamóttöku eða af almennum deildum, getur með engu móti haldið því fram að öryggi sjúklinga sé tryggt.
Vinnuveitandi sem stendur endurtekið í deilum við starfsfólk um kaup, kjör og vinnuaðstæður hlýtur að þurfa að líta í eigin barm og bregðast við. Það hefur verið lítið um slíkt.
Og heilbrigðiskerfið er víðar en á LSH.
Það er ekki óalgengt að fólk þurfi að bíða jafnvel í meira en viku eftir tíma hjá heimilislækni. MEIRA EN VIKU!! Heimilislæknar og heilsugæslustöðvar eru framvarðasveit hvers heilbrigðiskerfis. Heilsugæslan hefur verið fjársvelt og er, eins og heilbrigðiskerfið allt, í molum.
Heilbrigðiskerfið er fyrir löngu komið fram af öllum brúnum og þverhnípum. Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Starfsfólk er óánægt, þreytt, starfar við algerlega ófullnægjandi aðstæður og er undirlaunað. Sjúklingar hafa ekki þann aðgang að heilsugæslu sem þeir ættu að hafa. Fráflæði frá bráðadeildum sjúkrahússins er allt of hægt. SJúklingar þurfa oft að eyða mörgum klukkutímum á bráðamóttöku sjúkrahússins í bið eftir rúmi. Þessi bið er oft lengri en 12klst.
Það sem er svo verst, er að þeir sem á endanum bera ábyrgðina, stjórnmálamenn, hugsa ekki lengur en í mesta lagi eitt kjörtímabil. Það sést best á nýlegum ummælum formanns fjárlaganefndar um að það “sé ekki eitt einasta vit í að byggja nýjan Landspítala núna”. Og ástæðan er sú ekki eru til peningar.
Það er því athyglisvert að alltaf eru til milljarðar á milljarða ofan til að bjarga hinum og þessum fjármálastofnunum, óháð þjóðhagslegu mikilvægi (sbr SpKef).
Ég leyfi mér að halda því fram að engin stofnun er jafn þjóðhagslega mikilvæg og LSH, og raunar allt heilbrigðiskerfið. Heilbrigði þjóðarinnar hefur verið nokkuð gott, mæðradauði er sjladgæfur, ungbarnadauð er með því lægsta sem þekkist, langlífi þjóðarinnar er jafnfram vel þekkt. Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær heilsu þjóðarinnar hrakar vegna niðurskurðar í velferðarkerfinu.
Ég skora á leiðtoga þjóðarinnar að taka sjálfa sig til alvarlegrar endurskoðunar og spyrja sig hvort þeir valdi störfum sínum. Of lengi hafa varnaðarorð heilbrigðisstarfsfólk hljómað fyrir daufum eyrum. Það er margbúið að tyggja það ofan í Alþingi, og þjóðina alla, að heilbrigðiskerfið geti orðið fyrir óbætanlegum skaða. Nú er heilbrigðiskerfið mjög alvarlega laskað, stórslasað og berst fyrir lífi sínu. Nú er ekki tími til að hugsa sig um og pæla í hlutunum. Nú þarf aðgerðir. Nú þarf steypu, bæði fyrir nýtt sjúkrahús og fyrir háttvirta Alþingismenn sem þurfa heldur betur að herða sig og girða í brók.

SHARE