Á hverju ári deyja meira en ein milljón barna áður en þau ná sólarhrings aldri. Þetta eru niðurstöður árlegrar skýrslu alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children um stöðu mæðra, sem birt er í dag. Þrjár milljónir barna látast áður en þau verða þriggja mánaða gömul, en hægt er að koma í veg fyrir 75% ungbarnadauða með ódýrum og áhrifaríkum aðferðum.
Þetta er í 14. sinn sem Barnaheill – Save the Children gefa út skýrsluna um stöðu mæðra í heiminum. Í ár er fyrsti sólarhringurinn í lífi barna skoðaður sérstaklega. Mælikvarðarnir sem skýrslan byggir á eru lífslíkur mæðra og barna, menntun, innkoma og jafnrétti kynjanna. Best er að vera móðir í Finnlandi. Norðurlöndin skipa fimm efstu sæti listans og er Ísland í fjórða sæti. Ástralía er eina landið utan Evrópu sem kemst í eitt af 10 efstu sætunum. Allra verst er að vera móðir í Kongó. Landið vermir 176. sæti listans, en í næstneðsta sætinu er Sómalía. Afríkulönd sunnan Sahara eyðimerkurinnar koma verst út úr könnuninni.
Á hverju ári látast 287 þúsund mæður af barnsförum eða á meðgöngu og 6.9 milljón barna deyja áður en þau ná fimm ára aldri. Langflest þessara dauðsfalla eiga sér stað í þróunarlöndum þar sem mæður, börn og nýburar hafa ekki aðgang að lágmarks heilbrigðisþjónustu.
Fjórar helstu ástæður nýburadauða eru óþroskuð lungu fyrirbura (35%), sýking (25%) súrefnisskortur við fæðingu (23%) og aðrar orsakir (17%).
Sérfræðirannsóknir sýna að með einföldum og ódýrum aðferðum er hægt að bjarga einni milljón ungabarna frá dauða á ári hverju með ódýrum búnaði:
- Sterasprauta sem hjálpar lungum fyrirbura að þroskast kostar tæplega 60 krónur
- Sótthreinsandi efni á naflastreng og nafla kostar aðeins 16 krónur
- Sýklalyf gegn sýkingum kosta frá 20-235 krónum
- Tæki fyrir öndunarstuðning kosta frá 60-700 krónum
Þetta er í fyrsta sinn sem fyrsti sólarhringurinn í lífi barns er skoðaður út frá því hvar er áhættusamast að fæðast. Skýrslan sýnir afar ójafna stöðu mæðra í heiminum, þar sem barnshafandi konur og ungabörn í þróunarlöndum hafa ekki aðgang að grundvallarheilbrigðisþjónustu, hvorki fyrir né eftir fæðingu.
“Þó svo að við höfum séð mikinn árangur á síðustu árum, er enn langt í land með að við náum þúsaldarmarmiði Sameinuðu þjóðanna um að draga úr ungbarnadauða um 2/3 fyrir árið 2015. Við vitum hvað þarf til að bjarga lífum þessara mæðra og barna og niðurstöður skýrslunnar kalla á aðgerðir,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.
Barnaheill – Save the Children kalla eftir aðgerðum alþjóðasamfélagsins til að efla heilbrigðiskerfi í þróunarlöndum og auka aðgang að faglærðum ljósmæðrum, berjast fyrir jafnrétti kynjanna, hungri og að fjárfesta í ódýrum lausnum sem geta dregið verulega úr ungbarnadauða.
Hér má sjá Katrínu Aðalsteinsdóttur með tvíburadætur sínar, þær Halldóru Gyðu og Þóru Margréti Halldórsdætur sem fæddust í janúar sl. eftir aðeins 25 vikna meðgöngu. Þessari heilbrigðisþjónustu er ekki að fagna allsstaðar í heiminum og eru lífslíkur barna sem fæðast fyrir tímann þær sem raun ber vitni um á Íslandi því ástæða þess að við vermum 4.sæti listans.