ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Ég heiti Heiða Kristín, ég er 24 ára gömul og ég var lögð í einelti þegar ég var yngri, nánar tiltekið alla grunnskólagönguna. Ég hef ekki sagt mörgum frá því en það er tími til kominn að ég sætti mig við þessa reynslu og hætti að skammast mín fyrir það. Mér hefur alltaf fundist það vera svo vandræðalegt að hafa verið lögð í einelti. Mér fannst að fólk finndist eitthvað vera að mér ef það vissi það.

Fólk á það til að hugsa hver ástæðan fyrir eineltinu hafi verið. Varstu eitthvað skrýtin? Fórstu mikið að gráta? Varstu mjög gáfuð/heimsk í grunnskóla? Einelti þarf ekki að hafa neina útskýringu. Stundum eru nýjir krakkar lagðir í einelti í skólum því þau hafa engan að. Ég man ekki nákvæmlega hvenær mitt byrjaði. Ætli það hafi ekki haldið áfram svona lengi því ég sagði engum frá. Ekki í tíu ár. Til að skilja af hverju ég gerði það verði þið að vita aðeins um æsku mína.

„Aumingjar eru það versta“

Ég ólst upp við mikinn alkóhólisma og varð þar af leiðandi mjög meðvirk, strax sem barn. Ég átti það til að fara milli fjölskyldumeðlima því ég vildi ekki að þau rifust og taka frekar á mig skömmina fyrir eitthvað sem gerðist. Allir í fjölskyldunni liðu fyrir þennan alkóhólisma og við vorum ekkert náin, hvorki við systkinin, né ég og foreldrar mínir. Ég var einnig alin upp á svolítið skringilegan hátt. Þannig var að föður mínum fannst ég vera eitthvað svo lítil í mér að hann ákvað að herða mig upp, allt frá unga aldri og kom mjög harkalega fram við mig. Skilaboðin voru mjög skýr: Aumingjar eru það versta sem til er í heiminum. Við meiðum okkur ekki, hvorki andlega né líkamlega og okkur líður ekki illa. Síðast en ekki síst vorkennum við okkur alls, alls ekki.

Þrátt fyrir að vita innst inni að þetta væri ekki gott uppeldi er erfitt að breyta svona hugarfari. Ef eitthvað er sagt við mann dag eftir dag í langan tíma er erfitt að taka það ekki inná sig. Ég ímynda mér að heilaþvottur virki svona, eftir smá tíma var ég orðin alveg sammála þessu og lifði eftir þessu út í eitt. Einhver skynsemi fylgdi þó í huga mér, en bara þegar ég meiddi mig líkamlega.

„Þetta grær áður en þú giftir þig“

 

Ég man eftir því þegar ég var níu ára og við fjölskyldan fórum í ferðalag á Akureyri um sumar. Við fórum í sund og ég hafði mikið gaman af stóru, bláu rennibrautinni. Það var þó verið að laga hana þetta sumarið og ég rak mig harkalega í dekkið á einum stillansanum á leiðinni í seinustu salílbununa. „Ahh!“ hugsaði ég en hristi það fljótt af mér og renndi mér niður. Mér fannst þó skrítið hvað mér var illt í tánni. Ég fór í heita pottinn og fannst vont meira að segja þegar litlar öldur rákust á fótinn á mér. Ég pikkaði í stóru systur mína sem ég vissi að hefði tábrotið sig nokkrum árum áður, rak fótinn uppúr og spurði: „Helduru að ég sé brotin?“ Táin var þá orðin þreföld af bólgu og dökk fjólublá á litin. „Já!“ sagði stóra systa og rak upp stór augu. Ég man að ég kveið svolítið fyrir því að segja mömmu og pabba frá þessu en sýndi þeim svo tána á endanum. En ég fékk svar sem ég hafði fengið að heyra svo oft áður og myndi alls ekki heyra þarna í síðsta skipti: „Iss, þetta grær áður en þú giftir þig.“

Og meira var ekki gert. Við keyrðum svo í bæinn, mamma, pabbi, ég og systkini mín þrjú, ég var sett í skottið á fína sjö manna Pajeronum okkar. Það var nú ekki mikið pláss fyrir mig og brotnu tána mína, en ég gat ekkert meira gert. Næsta dag fór ég í Vindáshlíð og fékk sérstök verðlaun fyrir að lenda í öðru sæti í Brennó keppni með brotna tá.

Eineltið var ljótt og stöðugt

Þið kannski skiljið núna betur hvernig mér leið. Á sama tíma og að líða ótrúlega illa yfir því að vera alltaf strítt sama hvað ég gerði var ég í sífelldu rifrildi við sjálfa mig um að þetta væri ekki neitt neitt, og ég yrði að hætta að vera svona mikill aumingi! Mér leið því bæði illa yfir eineltinu og gangrýni minni á sjálfa mig. Mér datt ekki til hugar að minnast á þetta við nokkurn mann.

Þá að eineltinu sjálfu. Fræðileg skýring á einelti er endurtekin misbeiting á valdi. Hvort sem það er líkamleg eða andleg misbeiting. Ég var beitt andlegu einelti. Ég held það hafi verið vegna þess að ég var höfðinu hærri en flestir bekkjarfélagar mínir fram að 8. bekk og var ég mjög snögg á fæti. Eineltið var ljótt og stöðugt. Ekki man ég alveg hvernig þetta byrjaði en ég man að það var gert grín af mér sama hvað ég gerði.

Þrátt fyrir að hafa fengið þetta kostulega uppeldi bærðist í mér þessi mikla réttlætiskennd. Ef maður var í bíl setti maður á sig bílbelti. Þegar maður fór út að hjóla var maður með hjálm. Og þegar maður gekk úti í myrkri var maður með endurskinsmerki. Krakkarnir í bekknum, eða þeir sem stríddu mér, voru ekki á sama máli. Þeim fannst hrikalega asnalegt að vera með endurskinsmerki og hjálma og létu þá heyra það sem voru ósammála. Strax í fyrsta bekk fékk ég að finna fyrir því að vera skynsöm og fylgja því sem ég taldi vera rétt. Ég bugaðist þó á endanum því mér fannst alls ekki gaman að vera strítt svona mikið og lét undan. Mér leið þó illa í hvert skipti sem ég fór út án endurskinsmerkis og þegar ég fór út að hjóla tók ég niður hjálminn þegar ég var hrædd um að einhver myndi sjá mig, en reyndi að nota hann inn á milli.

Þetta var þó ekki nóg því það var sama hvað ég gerði, alltaf fundu krakkarnir eitthvað nýtt til að stríða mér út af. Einn daginn kom ég með uppáhaldið mitt í skólann, söl. Ég vissi að það væru alls ekki allir sammála mér með það, en mér fannst þetta algjört lostæti. Mér var strítt svo herfilega mikið að ég kom aldrei með söl í skólann aftur. Ég lét þó kennarann vita og hún skammaði allan bekkinn, en það þýddi ekkert.

Árin liðu og alltaf hélt eineltið áfram. Nokkrir nýjir nemendur komu og fóru og hópurinn sem lagði mig í einelti var orðinn að klíku, eða „vinsælu krakkarnir“. Ég var þó ekki sú eina sem varð fyrir barðinu. Þau heltu sér sérstaklega yfir nýja krakka, líklegast til að sýna þeim hver réði. Einnig voru þau mjög vond við nýja kennara. Þeim tókst þó ekki alveg að drepa niður réttlætiskenndina í mér, því ég tók alltaf vel á móti nýjum krökkum í bekknum. Ég lærði alltaf heima og fékk held ég 10 á öllum verkefnum og prófum út sjöunda bekk. Það var líklega út af því sem kennurunum datt ekki til hugar að eitthvað væri að. Ég var alltaf að hjálpa öllum og gekk svona frábærlega í náminu.

Fannst æðislegt þegar klíkan samþykkti hana

Ég æfði fótbolta, æfði á píanó, var í kór, passaði börn og byrjaði að bera út DV í sjöunda bekk. Ég átti líka allra bestu vinkonu sem var með mér í bekk. Við eyddum öllum stundum saman eftir skóla og þá leið mér eins og öll mín vandamál hyrfu á braut. Ég vil meina að ég hafi kynnst hugtakinu afneitun mjög snemma. Þetta var líka allt svo ruglingslegt því í frímínútum þegar það var keppni í fótbolta milli bekkja var ég allt í einu besta vinkona allra. Klíkan vildi glöð hafa mig með því ég var langbesta stelpan í fótbolta af bekknum. Ég þáði það alltaf með þökkum og fannst æðislegt að klíkan samþykkti mig, þó það væri bara í bekkjarbolta. Svipað átti sér stað á Reykjum í sjöunda bekk þar sem við vorum í nokkra daga með öðrum skóla. Einhverra hluta vegna varð ég svolítið vinsæl hjá strákunum í hinum skólanum og þurfti klíkan því miður að viðurkenna mig í hóp þeirra á meðan því stóð, því stelpunum í klíkunni fannst sko ekki í lagi að ég yrði vinsælli en þær.

„Viltu byrja með mér?“

Í unglingadeildinni breyttist eineltið út frá því hvernig fötum ég var í og hvað ég gerði og gerði ekki í virkilega ljótt einelti að mínu mati. Þau léku sér svo mikið að tilfinningum mínum að afleiðingarnar fylgja mér enn þann dag í dag. Ég var nefnilega svo hrikalega skotin í einum af strákunum í klíkunni og það vissu það allir. Miðað við baktalið sem átti sér stað í bekknum væri ég hissa á því að einhver leyndarmál héldust leynd, meira að segja milli þeirra. Fólk var þá aðeins byrjað að „byrja saman“ og byrjuðu samböndin að sjálfsögðu á því að einhver spurði: „Viltu byrja með mér?“ Einn daginn fékk ég þær upplýsingar frá einni stelpunni í klíkunni að stákurinn sem ég var skotin í myndi vilja byrja með mér ef ég bara spyrði hann. Ó, hvað ég varð glöð! Þið getið þó flest ímyndað ykkur hvernig fór, en mér datt ekki í hug að brögð væru í tafli og fór og hitti hann. Hann var með vinum sínum og ég spurði með von í hjarta hvort hann vildi byrja með mér. Svarið var stutt: „Nei.“ Allir hlógu og eftir stóð ég með brotið hjarta en gat þó ekki vorkennt mér né farið að gráta. „Auðvitað vill hann ekki byrja með þér, hvernig gastu verið svona vitlaus!“ hugsaði ég og fór heim. Ég mun aldrei gleyma tilfinningunni þegar ég heyrði þetta nei.

 

Annað atvik sem stendur uppúr var í níunda og tíunda bekk. Haustið í byrjun níundar bekkjar byrjaði ný stelpa í bekknum aðflutt frá Noregi. Henni gekk ekkert allt of vel með stafsetninguna í íslenskunni og hún virtist vera svolítið feimin. Ég bauð hana velkomna fyrsta daginn og við byrjuðum að hanga saman. Eftir stuttan tíma urðum við bestu vinkonur sem eyddum öllum tímum saman. Þangað til einn daginn þá hætti hún að tala við mig. Ég skildi ekki af hverju, ég hafði ekki gert henni neitt. Ég sá að hún var farin að sitja hjá klíkunni í tímum og eyða frímínútum með þeim. Mér fannst þetta virkilega leiðinlegt því ég hafði opnað mig alveg með henni og sagt henni öll mín dýpstu leyndarmál, eitthvað sem ég átti mjög erfitt með. Þá kemur einn strákurinn sem var bæði í klíkunni og ekki og var hissa á því að ég vissi ekki af hverju hún hefði hætt að tala við mig. „Nú?“ spurði ég. „Hún var að klifra upp vinsældarsstigann, hún notaði þig bara sem vinkonu þangað til hún gat farið að hanga með þeim“ sagði hann eins og ekkert væri sjálfsagðra. „Já, auðvitað“, hugsaði ég leið… „sniðug leið til að komast í klíkuna.“

 

Var komin með miklar magabólgur

Eftir þetta byrjaði mér að líða virkilega illa. Þetta fannst mér það ljótasta af öllum atvikum sem ég hafði lent í, og ég hafði lent í þeim ljótum. Ástandið heima fyrir var verra en það hafði nokkurn tímann verið og það vanlíðanin var farið að bitna á náminu. Mér var líka alltaf svo svakalega illt í maganum, ég skildi það ekki. Ég borðaði ekkert óhollt og var duglega að hreyfa mig en var alltaf með þennan stingandi verk undir rifbeinunum. Á endanum fór mamma með mig til læknis og hann sagði að ég væri komin með miklar magabólgur. Svo miklar magabólgur að maginn á mér var eins illa farinn og á manneskju sem hefði lifað við magabólgur í fjörutíu ár. Mamma skildi ekki neitt. Hún var í nógu miklu basli með sitt líf og mig langaði ekki að láta henni líða verr með að heyra hvað mér liði illa. Ég laug þá bara einhverri afsökun og fékk lyf við bólgunum.

Ég útskrifaðist úr tíunda bekk með brotna sjálfsmynd, engar væntingar til sjálfs míns, hafði hætt öllum tómstundum sem ég hafði stundað og eftirá að hyggja var ég mjög þunglynd. Ég gat ekki ennþá sagt neinum frá hvað mér leið illa og ég hataði mig fyrir að vera svona aum. Það var þó ekki það versta. Ein afleiðing eineltis er að verða gerandi sjálfur. Maður getur ekki tekið því lengur að vera alltaf neðst í goggunarröðinni og maður vill taka það út á einhverjum. Ég tók það út á minni eigin litlu systur. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá en það er engin afsökun. Á meðan mér leið svona illa útaf því sem kom fyrir mig, hellti ég mér yfir varnarlausa litla systur mína sem hafði ekki gert mér neitt. Það var ekki fyrr en núna í ár að ég þorði að biðja hana afsökunar, ég skammaðist mín svo mikið. Ég vissi líka ekkert af hverju ég gerði þetta. En þetta er bara ein af þeim hrikalegu afleiðingum sem einelti getur haft í för með sér.

Var rekin úr skóla

Fyrsta önnin í menntó var sú allra versta. Ástandið heima fyrir var orðið það slæmt að ég var orðin hrædd um framtíðina. Allt þetta tók hugann frá náminu og um jólin fékk ég bréf frá rektornum við Menntaskólanum við Hamrahlíð að ég væri rekin vegna lélegs námsárangurs og mætingar. En vegna þess hve ástandið heima fyrir var slæmt skildi mamma alveg hvers vegna ég hefði ekki verið að mæta og fór rakleiðis til rektorsins og útskýrði málið. Ég fékk að halda áfram næstu önn.
Ég sá enga lausn við vandamálum mínum. Það sem bjargaði mér úr þessum heljum var stelpa sem ég kynntist á annarri önninni minni í MH. Ég hafði vitað hver hún var áður en ekkert kynnst henni fyrr en þá. Við náðum svo svakalega vel saman að ég hefði ekki trúað því að það væri til manneskja á jörðinni sem skildi hvernig mér leið. Hún hafði sjálf verið lögð mikið í einelti í sínum skóla og við vorum með svipað brotna sjálfsmynd. Við náðum að hafa svo ótrúlega gaman saman, byrjuðum að kynnast strákum og gátum alltaf sagt hvor annari allt sem við hugsuðum því það var oftast það sama. Saman hjálpuðum við hvor annarri í gegnum menntaskóla þar sem við kynntumst frábærum vinahópi sem við þekkjum enn þann dag í dag. Mér leið stundum eins og ég gæti allt því ég hafði hana með mér, og henni leið eins.

Þoldi ekki viðkvæmnina

Við erum ennþá bestu vinkonur í dag. Ég gat þó ekki viðurkennt vanlíðan mína við neinn annan, því eins og heilaþvottur virkar, maður ákveður bara ekki einn daginn að hætta að hugsa svona. Ég gat ekki byrjað að vinna í batanum á þunglyndinu né meðvirkninni og afleiðingum þess að vera alin upp af virkum alkóhólista, fyrr en ég gat viðurkennt að það var eitthvað að. Það tók mig langan tíma og mér leið illa lengi eftir að ég viðurkenndi vandann. Það var ekki fyrr en ég var orðin 19 ára gömul að ég ákvað að fara til sálfræðings. Ég þoldi ekki hvað ég var alltaf viðkvæm og ákvað að þrátt fyrir að finnast ég mesti aumingi í heimi að þurfa að fara til sálfræðings að drífa það af.

Ég mun aldrei geta þakkað sálfræðingnum mínum nægilega fyrir hvað hún hjálpaði mér mikið. Ég gat sagt henni allt og eyddi næstum fyrstu fjórum tímunum að tala í gegnum ekkasog og tár um allt það sem hafði angrað mig öll þessi ár. Hvílík tilfinning það var að geta loksins sagt einhverjum frá því án þess að líða illa því hún kenndi mér að horfa ekki lengur þessum gagnrýnisaugum á sjálfa mig.

Á ennþá erfitt með að nota hjálm

Í dag er ég hundrað sinnum hamingjusamari en ég var í grunnskóla. Bargdaginn er þó ekki unnin. Ég er ennþá með lélegt sjálfstraust. Ég er ennþá meðvirk og stundum tekur þunglyndið sig upp aftur. Ég á ennþá erfitt með að hjóla með hjálm eða ganga með endurskinsmerki. Ef ég heyri hlátrarsköll í kringum mig hugsa ég strax að þau séu að hlæja að mér. Ég vildi óska þess að þetta hefði allt farið öðruvísi og að ég hefði byrjað að vinna í mínum málum fyrr. En lífið heldur áfram og ég get ekki annað en gert gott úr þessari lífsreynslu. Þó hún hafi farið illa með mig vona ég að með þessari sögu geti ég hjálpað einhverjum. Það er ekki okkur að kenna ef við erum lögð í einelti. Það er ekkert að okkur. Það gefur ekki grænt ljós á einelti að við erum gáfuð, eða vitlaus, eða ný í bekknum, eða sýnum tilfinningar okkar meira en aðrir. Við verðum líka að hafa trú á kerfinu og segja frá, það er alltaf eitthvað hægt að gera. Ekki gefast upp eins og ég gerði og láta þetta viðgangast í tíu ár. Þetta hefur áhrif á okkur, ég er 24 ára í dag og ég er rétt að geta talað um þetta opinskjátt.
Komum fallega fram við hvort annað, stöðvum einelti.

SHARE