Ellen kærð fyrir meiðyrði

Spjallþáttadrottningin og grínistinn, Ellen DeGeneres, hefur verið kærð fyrir að gera grín að nafni konu í þættinum sínum og birta nafnspjaldið hennar með símanúmeri á. Konan, sem starfar sem fasteignasali og verkfræðingur, heitir Titi Pierce, en Ellen bar nafnið hennar ítrekað fram sem Titty, sem á íslensku þýðist sem brjóst.

Það var ekki bara nafngrínið sem fór fyrir brjóstið á Titi því hún var ekki par sátt við að númerið hennar væri gefið upp í vinsælum spjallþætti með þessum hætti. Segir hún að hundruð manns hafi hringt í hana eftir þáttinn á meðan hún var stödd í jarðarför hjá nánum ættingja. Þá gerði Ellen jafnframt grín af brjóstum hennar í tengslum við nafnið og þótti Titi það einkar óviðeigandi.

Titi kærir Ellen fyrir meiðyrði, brot á friðhelgi einkalífsins og fyrir að hafa valdið sér miklu tilfinningalegu uppnámi. Hún setti sig í samband við aðstandendur þáttarins strax eftir að honum lauk, bað um að símanúmerið væri hulið og leiðrétti framburðinn á nafninu sínu í Tee Tee. Þrátt fyrir athugasemdirnar voru engar breytingar gerðar áður en þátturinn var endursýndur.

 

Birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE