“Elskan mín, ástin mín ….skammastu þín”

Þessi orð rifjuðust upp fyrir mér í morgun, – vegna þess að þetta er kjarninn í aðferðafræði margs ofbeldismannsins – og kvendisins.

Laða að sér viðkomandi með fallegu orðfæri og skjóta svo í návígi.

Svona tala lika margir í umræðunni um samkynhneigð.

“Ég elska samkynhneigða, margir eru vinir mínir, – en ojbara það sem þeir gera. Það misbýður mér.”.

Andlegt ofbeldi er dauðans alvara.

Gay Pride gangan – sem útleggst Gleðigangan á Íslandi, er ganga gengin í stolti yfir – stolti yfir að fólk fái að vera “Gay” og frjálst með það. Það að vera það sem það er. Gangan er ÝKT – það fer ekki á milli mála, Ýkt í litum, áróðri og gleði fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Fólks sem er ekki “svona” gagnkynheigt og þarf aldrei að pæla í því hvort það leðir maka sinn, kyssir eða faðmar á almannafæri.

Það er ekki langt síðan að ég var með unga konu í viðtali sem var kvalin af skömm yfir að vera að koma út úr skápnum sem samkynhneigð. Hún var í sambandi við aðra sem var enn inni í skápnum og gat ekki hugsað sér að mæta samfélaginu eða fjölskyldunni.

Samt hrópar fólk að öllu sé náð, samkynhneigð hafi fengið sína jafngildu hjónavígslu viðurkennda og þá eigi það bara að vera heima hjá sér. Púnktur.

Þrátt fyrir þessi lög eru enn prestar INNAN þjóðkirkju sem hafa samviskufrelsi til að vígja ekki samkynheigð pör.

Það eru komin ýmis lög sem eiga að tryggja jafnrétti kvenna og karla en er jafnrétti náð? – Getum við lagt hendur í skaut og bara andað léttar?

Hvað með launamun? Jafnfrétti er ekki náð og þar er víða pottur brotinn og takið eftir að það er líka gagnvart karlmönnum. Jafnréttisbaráttan er ekki bara kvennabarátta.

Nei, við viljum ekki að fólk þurfi að ganga um bæinn með hauspoka vegna kynhneigðar sinnar.

Ég sagði áðan að gangan væri ýkt – hún er ganga gleði og stolts, sem er andstæðan við óhamingju og skömm.

Ég hef skrifað ófáa pistlana um áhrif skammar á fólk, það að skammast sín fyrir sjálfan sig er eins og að vera með krabbamein á sálinni.

Sjálfsvígshugsanir eru algengar hjá fólki sem lifir með skömm, og ef ekki það þá er það oft farið að finna alls konar verki og einkenni, – hvers kyns eða kynhneigðar sem það er.

Skömmin lækkar ánægjuvogina – og gleðin og hamingjan er skert.

Þessi pistill er m.a. ákall til þeirra sem ekki þola Gay Pride og hafa áhyggjur af upprennandi kynslóð að sú ganga muni skemma börnin, eins og fram hefur komið í umræðunni. Ákall til þeirra sem eru enn að veifa viðvörunarflagginu gagnvart hommum, lesbíum, transgender o.s.frv.

EInn af fyrstu hommunum sem kom út úr skápnum á Íslandi flúði land. Við höfum sannarlega komið langa leið – en göngunni er ekki lokið.

Börnin verða ekki samkynheigð við það að horfa á tvo karlmenn kyssast, ekki frekar en að verða gagnkynheigð yfir því að horfa á konu og karl kyssast. –

Fólk sem á erfitt með Gay Pride gönguna er oft fólk sem hefur alist upp við fordóma gagnvart því að vera hinsegin og er hreinlega ekki vant því og finnst það óþægilegt.

Er það vandamál hverra?

Pistillin skrifaði Jóhanna Magnúsdóttir á heimasíðu sína og fannst okkur tilvalið að deila part úr þessum magnaða pistli. 
Síðuna hennar má finna hér og sjá restina af pistlinum.

SHARE