Það er vitað mál að fjöldinn allur af fólki er algjörlega háður kaffisopanum. En er það rétt að maður sé betur vakandi þegar maður fær sér kaffi? Eða er það bara plat? 

Meiri hluti Vesturlandabúa byrjar daginn með einum eða tveimur bollum af kaffi. Svo fær fólk sér kannski tesopa í hádeginu og eitthvað annað í eftirmiðdaginn. Okkur finnst að við þurfum þessa hressingu til að geta byrjað daginn og þrauka fundina og erilinn sem bíður okkar. Þetta kallar á spurninguna hvort kaffið hressir okkur virkilega svona mikið eða hvort þetta er allt saman bara hugarburður.

Hér eru nokkrar áhugaverðar staðreyndir um kaffi sem við fundum á veraldarvefnum.

Eykur kaffið skerpuna?

Vísindatímaritið (veftímarit) Neuropsychopharmacology,(tauga-sál-lyfjafræði) stóð fyrir rannsókn sem 379 manns tóku þátt í og var tilgangurinn með rannsókninni að mæla athygli og skerpu fólksins þegar það hafði drukkið kaffi. Fólkið hafði ekki fengið kaffi í 16 klst þegar það svo fékk sopann. Sumir fengu „kaffi“ sem var ekki kaffi en aðrir fengu kaffi. Niðurstöðurnar voru satt að segja sláandi. Munurinn á athygli þeirra sem drukku kaffi og hinna sem drukku bara litað vatn var vart mælanlegur.

Það sem kom enn meira á óvart var, að þeir sem drekka mikið kaffi  fá fráhvarfseinkenni ef þeir hafa ekki fengið kaffisopa í dálítinn tíma. Þegar þeir svo fá kaffið sitt finnst þeim þeir verða mjög hressir en satt að segja eru þeir þá komnir í sitt eðlilega ástand. Þeir sem ekki drekka kaffi lenda auðvitað ekki í þessu.  Við sem drekkum kaffi verðum semsagt „eðlileg“ þegar við fáum sopann okkar.

 

Ættum við að hætta að drekka kaffi? 

Auðvitað er það persónulegt val en mælt er með að fólk drekki kaffi annaðhvort reglulega eða ekki. Það var gerð rannsókn á kaffineyslu fólks  við háskólann í Bristol og þar kom fram að þeir sem drekka kaffi bara öðru hverju verða fyrir mjög miklum áhrifum af því. Þeir urðu kvíðnir og steitan virtist aukast. Þeir sem eru orðnir vanir og háðir koffíni þola áhrifin miklu betur og öðruvísi en þeir sem drekka kaffi bara „spari“.

Hvað getum við þá drukkið?

Heldurðu að þú ættir að láta kaffið vera? Það eru sem betur fer ýmis önnur drykkjarföng í boði eins og t.d.:

  • Grænt te (með ísmolum). Í því er lítið koffín og flestum finnst það mjög hressandi.
  • Jurtate. Maður getur drukkið jurtate annað hvort heitt eða með ísmolum og það er hægt að fá margar gerðir af því.  Jurtate er líka meinhollt sem ekki verður sagt um kaffi.
  • Jurtate og ávaxtasafi. Ef manni líkar ekki vel bragðið af jurtate finnst mörgum gott að setja ísmola út í og berja- eða ávaxtasafa til að bæta bragðið.
  • Heitt súkkulaði. Hvernig væri að prófa heitt súkkulaði einhvern kaldan vetrarmorgun í staðinn fyrir kaffibolla?
  • Koffínlaust kaffi. Þú gætir drukkið koffínlaust kaffi ef þér finnst kaffi gott á bragðið.
  • Ávaxtasmúðíar. Prófaðu þig áfram með að búa til smúðía til að drekka á morgnana. Þú gætir komið sjálfri þér á óvart.
  • Chai te. Ef þér finnst gott að drekka sæta drykki ættirðu að prófa Chai te. Að vísu er í því koffín en ekki nema u.þ.b. helmingur á við það sem er í kaffi.

    Það eru margir sem geta ekki hugsað sér að hætta að drekka kaffi, sem er ekki skrýtið, flestum finnst rjúkandi heitt kaffi ómissandi drykkur yfir daginn en það er fínt að hafa í huga að gott er að drekka það annaðhvort að staðaldri eða sleppa því alveg eins og kom fram í rannsókninni. Hver er þín reynsla af kaffi?

 

SHARE