Fæðingarsaga: Hann hafði vit á því að þegja yfir því þar til eftir fæðinguna

Ég var sett 9. september 2009 og var orðin þreytt í bakinu og gat ekki beðið eftir að koma barninu í heiminn. Ég vissi ekki kynið og því mikil spenna í gangi. Ég var ekki búin að vera með mikla samdrætti og hélt því að barnið myndi bara vera þarna inni að eilífu! Ég var aaalltaf á klósettinu þar sem barnið þrýsti mikið á blöðruna hjá mér og var komin með ógeð á því að pissa  Ég var nánast hætt að drekka vökva svo ég þyrfti ekki að pissa á hálftíma fresti. Seint á sunnudagskvöldinu þegar ég var komin 40 vikur og 4 daga 13. september, þá vorum við Patrick að ræða hvað barnið ætli að láta bíða eftir sér, við sofnuðum kannski um 1 leitið um nóttina.

Eins og allar nætur síðasta mánuðinn þá vakna ég um hálf 4 til að pissa. Ég settist á klósettið og tók eftir smá blóði í nærbuxunum með glæru slími. Ég hugsaði að kannski væri eitthvað að fara að gerast. Ég skelli mér á netið og googla þetta. Ég hringi um 4 leitið niður á spítala og fæ að tala við ljósmóður sem heitir Steina Þórey og hún spurði hvort vatnið væri farið og hvort ég væri með einhverja verki. Engir verkir og vatnið ekki farið. Ég var allavega búin að fara tvisvar að pissa síðan ég vaknaði svo mér datt í hug að vatnið væri kannski að fara. Ljósmóðirin sagði mér bara að vera róleg og koma ef ég væri stressuð. Ég vakti Patrick og sagði að það væri kannski eitthvað að fara að gerast og stuttu seinna fæ ég þennan svaaaka verk. Ég byrja að fara á 5-10 mínútna fresti að pissa, ég var auðvitað ekkert að pissa heldur var legvatnið að fara. Sem betur fer var mamma búin að segja mér hvernig legvatnið fór hjá henni, annars hefði ég ekki vitað að þetta væri legvatnið  Verkirnir komu á 2-3 mínútna fresti stax og það var svo vont að sitja á klósettinu að pissa því ég fékk alltaf verki á sama tíma! Á meðan gerði Patrick tösku tilbúna með dóti af listanum sem ég hafði skrifað upp og tók því um 5 mínútur að pakka og svo fékk hann sér ristað brauð í rólegheitunum fyrst ég var ennþá tilbúin að vera heima.

Svo rétt fyrir 5 þá treysti ég mér ekki að vera ennþá heima því mér fannst verkirnir vera svo svakalegir. Ég kveið bílferðinni niður á spítala þótt ekki væru nema 5-7 mínútur á spítalann í Keflavík. Ég hafði átt erfitt með að sitja því með hríðunum kom svakalegur verkur í mjóbakið. Bílferðin gekk nú samt vel og ég velti því fyrir mér hvernig konur færu að því að vera með svona mikla verki klukkutímunum saman, eftir á þá veit ég að flestar konur fara hægt af stað í verkjum. Þegar við vorum komin fyrir utan spítalann bað ég Patrick um að geyma töskuna bara út í bíl því mér fannst hálf asnalegt að fara upp með tösku klst. eftir að ég hafði talað við ljósmóðurina því ég yrði pottþétt send aftur heim. Þegar við vorum svo komin á spítalann um 5 leitið þá tók Steina Þórey ljósmóðir á móti okkur sem bað mig um að leggjast, sem var ekki gott þegar ég fékk verki, og fara úr að neðan og setti á mig monitorinn. Hjartslátturinn var fínn hjá barninu og svo athugaði hún útvíkkun… ég var komin með 7 í útvíkkun! Hún ætlaði varla að trúa því að ég hafi talað við hana með enga verki 1 klst. áður!  Svo kom þessi svaka hríð og hjartslátturinn hjá barninu fór niður í 50 sem er slæmt svo hringt var á sjúkrabíl í hvelli og Konráð fæðingarlæknir vakinn og hann kom strax. Það átti að senda mig í bæinn ef þyrfti að taka barnið með bráðakeisara og Patrick kom strax til mín til að taka í höndina á mér  en hjartslátturinn lagaðist og ég fékk súrefni úr grímu. Ljósmóðirin hélt að barnið hafi haldið í smá stund í naflastrenginn en fyrst að hjartslátturinn lagaðist var ég ekki send í bæinn. nokkrum hríðum seinna vildi hún færa mig yfir í fæðingarherbergið og spurði hvort ég vildi ganga eða fá hjólastól, ég vildi alls ekki sitja svo ég gekk, en það var samt erfitt að labba ganginn. Um 5:40 var ég komin með 9 í útvíkkun. Ég var pínu svekkt að þetta væri að ganga svona hratt fyrir sig því mér líkaði svo vel við fæðingarstofuna þarna og ætlaði að fá að nota þennan svaka heitapott og allt dótið sem á að hjálpa konum að líða betur og hjálpa barninu að mjaka sér neðar en ég fór beint upp á rúm, fékk meira súrefni og svo hlátursgas sem fékk mig til að segja ýmsa heimskulega hluti. En auðvitað var ég himinlifandi að þurfa ekki að vera með verki í marga klukkutíma.

Þegar ég var komin með 10 í útvíkkun sagði hún að ég mætti byrja að rembast en að sumar vilja bíða eftir að rembingsþörfin komi á sjálfum sér. Ég beið og í næstu hríð kom rembingsþörfin og þá datt hjartslátturinn aftur niður í 50 hjá barninu en lagaðist sem betur fer aftur. Klukkan var um 6 þegar ég byrjaði að rembast. Ég rembdist í smá tíma og hélt stundum utan um höfuðið á Patrick og vildi hafa ennið hans upp við mitt enni, ég meiddi hann víst í eyranu en hann hafði vit á því að þegja yfir því þar til eftir fæðinguna. Konráð fæðingarlæknir kom svo og hjálpaði mér að fara í bestu stöðuna til að þrýsta barninu út og var fæðingarlæknirinn að þrýsta á móti annarri löppinni og Patrick hinni  Ég fann strax hvað allt gekk betur og ég fékk auðvitað mikið hrós frá Steinu Þóreyju. Ég vissi ekkert hvað tímanum leið en ég hélt ég hefði rembst í 20 mínútur í heildina en rembdist í heilar 50 mínútur samt!  Konráð fæðingarlæknir hafði látið mig frá nefsprey til að lengja hríðarnar hjá mér, því þær voru í styttri kantinum, ég rembdist víst bara 3-4 sinnum með hverri hríð en ég fann samt engan mun eftir spreyið. Steina Þórey var alltaf að segja að barnið væri að færast neðar og neðar og sæi dökkt hár og bauð Patrick að sjá en hann svona hálf vildi ekki skoða en kíkti aðeins en sá ekkert þannig, hálf feginn. Steina Þórey sagði svo að hún ætlaði að klippa mig í næstu hríð og auðvitað kom skelfingarsvipur á mig en hún deyfði mig og ég fann ekki fyrir því þegar hún klippti og ég rembdist og  þrýstingurinn sem hafði verið varð næstum að engu þegar höfuðið kom út. Ég opnaði augun og var líklega á svipinn eins og lítil börn sem segja vaaaaaaaaá  Ljósmóðirin brosti til mín og sagði mér að höfuðið væri komið út og bað mig að bíða eftir næstu hríð og rembast svo aftur. Ég beið sko ekkert eftir næstu hríð heldur þrýsti bara hehe.. Ég fann reynar ekkert allt of vel hvenær hríð kom þar til hún var á hástiginu. Mér finnst svaka góð lýsing sem Didda systir kom með, að þegar litli líkaminn kom út er eins og að ímynda sér að koma slepjulegum fiski út hehehe

Ég fékk barnið strax í hendurnar og tilfinningin var líklega sú besta sem ég veit um. Sjá andlitið og litlu puttana. Ég var svo hamingjusöm að ég gleymdi að athuga hvort barnið væri strákur eða stelpa! Ég gleymdi líka að skoða naflastrenginn enn fastan við naflann. Ég fann samt fyrir naflastrengnum niður magann á mér og inn leggöngin. Steina Þórey sagði mér að bíða eftir næstu hríð til að þrýsta fylgjunni út og kom hún út strax, ég fann ekkert hvenær næsta hríð var svo ég þrýsti bara. Hún sýndi okkur fylgjuna og sagði að þetta væri flott fylgja með sterkum poka og eitthvað.. mér fannst þetta bara hálfógeðslegt. Leit út eins og blóðmör hehe  Svo kom í ljós að barnið var strákur og svo klippti Patrick naflastrenginn og litli strákurinn var orðinn einstaklingur og við Patrick orðin foreldrar  Ég hafði rifnað verr en Steina Þórey hélt og náði í Konráð til að sauma að spönginni og hún sauma svo afganginn. Saumaskapurinn var búinn um 8 leitið. Patrick fór svo út í bíl að ná í töskuna og myndavélina og tók nokkrar myndir. Við færðum okkur svo í hjónaherbergi og ég rúmföst reyndar.

Patrick var svo rólegur í allri fæðingunni og hafði svo góð áhrif á mig. Ég er svo þakklát fyrir allt það sem hann gerði fyrir mig á meðgöngunni og í fæðingunni og að sjálfsögðu að sjá um drenginn á meðan ég var hálf rúmföst og ég er líka mjög þakklát fyrir alla þolinmæðina sem hann sýndi mér! Eftir ca 3 klukkustundir af verkjum þá fæddist frumburðurinn minn, mánudaginn 14. september 2009 kl. 6:52. Hann fæddist 3.560 gr. eða 14 merkur og var 50 cm. að lengd. Hann var svo skírður Svanur í höfuðið á afa sínum 13. desember

Höfundur: Arndís Kristinsdóttir

SHARE