„Dómurinn var þyngdur af því að verjandi hennar mótmælti“ 

Sjö karlar nauðguðu stúlku og börðu hana auk þess til óbóta. Dómstóll lands hennar, Saudi Arabíu dæmdi hana seka samkvæmt Sharia lögum og var refsingin húðstrýking – 90 högg. Verjandi stúlkunnar mótmælti dóminum og sagði hann óréttlátan. Þá þyngdi dómarinn refsinguna um meira en helming og dæmdi henni 200 högg. Þannig eru kvenréttindin í því landi.

Fyrri dómurinn var byggður á að stúlkan hafi brotið hin ströngu Sharia lög sem í gildi eru í Saudi Arabíu um aðskilnað kynjanna.

Í dóminum segir að stúlkan hafi setið í bíl með skólafélaga sínum sem hún var ekki skyld og þar með hafi hún brotið Sharía lögin um aðskilnað kynjanna.

Lögfræðingur hennar, Abdul Rahman al-Lahem hafði beðið alþjóðasamfélagið um hjálp til að fá stúlkuna sýknaða eða að minnsta kosti leggja að ríkisstjórninni að leyft yrði að áfrýja dóminum.  

 Fórnarlambi nauðgunarinnar refsað

Leyft var að áfrýja dóminum, nýr dómur var kveðinn upp og refsingin aukin úr 90 höggum í 200 högg auk þess sem stúlkan var dæmd til sex mánaða fangelsisvistar í ofanálag.

Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti landsins er sagt að refsingin hafi verið þyngd af því að lögfræðingur sakbornings tjáði sig um málið í heimspressunni.  Í yfirlýsingunni sagði einnig að „sannað hafi verið“ að konan hafi verið í bíl með ókunnum karlmanni og lögfræðingur hennar hafi tjáð sig um dómskerfi landsins vegna dómsins og sagt að „það hafi opinberað mikla fáfræði“.

 

Málsatvik

Ofbeldið átti sér stað árið 2006. Stúlkan hafði hitt skólafélaga sinn til að ná í mynd hjá honum. Hún sat þarna í bílnum þegar tveir karlar réðust inn í bílinn og óku honum á afskekktan stað þar sem fimm karlar voru fyrir. Þar nauðguðu þeir henni allir. Ekki er ljóst hvernig farið var með piltinn.

Það er dýrt að véfengja lögin í Saudi Arabíu 

Abdul Rahman al-Lahem fær ekki að verja stúlkuna framar. Dómsmálaráðuneyti landsins svifti hann lögmannsréttindum sem hann hefur nú fengið aftur eftir mótmæli áhrifavalda.

Þetta mál vakti mikla athygli og stúlkan fékk stuðning allsstaðar að. Mannréttindasamtök börðust fyrir því að stúlkan fengi réttlæti sínu framgengt og Barrack Obama talaði opinberlega um að þessi dómur væri óréttlátur og hvatti dómsvöld í Saudi Arabíu til að aflétta dómnum. Vegna þrýstings frá mannréttindasamtökum og áhrifavöldum tók konungurinn Abdullah þá ákvörðun að náða stúlkuna. Hann tók það þó fram að hann myndi ekki efast um lög landsins heldur að hann hefði tekið mark á áhuganum sem fólk sýndi þessu tiltekna máli. Þó að hann hafi lokað þessu tiltekna máli þýðir það ekki að lögin hafi breyst. Stúlkan hefur komið fram og sagt sína sögu og hún hefur nú þegar tekið út sinn dóm en hún varð fyrir miklu aðkasti meðan þetta gekk yfir. Það eru því miður alltof margar stúlkur sem ekki hafa verið náðaðar en þessi stúlka má að vissu leiti teljast heppin að utanaðkomandi aðilar veittu máli hennar sérstaka athygli.

Fawziya Al-Oyoni, sem vinnur fyrir mannréttindasamtök og lögmaðurinn Omar Al-Saab bentu á að þó að konungurinn hafi dregið dóminn til baka þýði það ekki að fórnarlömbum nauðgunar verði ekki lengur kennt um. “Náðun þýðir að hún gerði eitthvað rangt en dómsvaldið var svo almennilegt að það dró dóminn til baka.”

 

 

Hér getur þú séð frásögn stúlkunnar

Heimild

SHARE