Oft hef ég rætt við fólk sem skelfist framtíðina vegna þess að maki þess hefur freistast til að stíga hliðarspor.
Konan, hnípin, lítil í sér og svefnvana hefur áhyggjur af því hvernig hún eigi að fara að því að framfleyta sér og börnum sínum.

Maðurinn, frávita af sorg yfir að þurfa ef til vill að missa nýfundna ást af því að hann er hræddur um að missa börnin sín. Kannski sér hann það fyrir sér að annar maður gangi þeim í föðurstað og þjáist af svefnleysi.

Það er oft freistandi að leiðast út í framhjáhald þegar þreyta er hlaupin í hjónabandið, vafalaust í von um frelsi. Raunveruleikinn er hins vegar annar. Trúnaðarbresturinn sem fylgir slíku ævintýri hefur oft miklar og alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það má alls ekki líta á framhjáhald sem einhvers konar lífsstíl.

Algengast er að fólk láti freistast þegar það er undir áhrifum áfengis. Ef um skyndikynni er að ræða, er það kannski að hlaupa úr öskunni í eldinn að fara heim uppfullur af samviskubiti, leysa iðrunarfullur frá skjóðunni og koma svo samviskubitinu yfir á makann. Slíkt hefur of mikla áhættu í för með sér. Ég hef orðið vitni af mörgum góðum og traustum fjölskyldum leysast upp í kjölfar slíkra atburða. Af tvennu illu er því ef til vill betra að segja ekki frá og vona að ekki komist upp um svikin.

Nauðsynlegt er að hvetja fólk til að hugsa sig tvisvar um þegar það lendir í svona aðstæðum. Áríðandi er að sýna sjálfstjórn og halda drykkjunni innan skynsamlegra marka. Agi er lykilorðið hér, sérstaklega ef ljóst er að maki mun særast illa ef tvísýnt er um hjónabandið.

Sjá einnig: Hrikalegar staðreyndir um framhjáhald – Myndband

Ekki er sanngjarnt að halda langvarandi ástarsambandi leyndu fyrir maka sínum. Vissulega getur það orðið hjónabandinu að falli ef sagt er frá slíku, en ef einhver örlítil ástarglóð leynist milli hjóna getur atburður sem þessi orðið til þess að styrkja hjónabandið með nýjum áherslum og lífsvenjum.

Sum sambönd teljast vera ,,opin”. Slík hugmyndafræði gengur þó aðeins ef báðir aðilar eru frelsinu samþykknir. Sjaldnast er það svo. Ef annar makinn er ekki samþykkur slíku frelsi í kynferðismálum má það teljast skeytingarleysi ef hinn heldur því til streitu. Það verður ástinni örugglega að fjörtóni.

Eftirfarandi frásögn konu gefur glögga mynd af viðbrögðum við framhjáhaldi:

Mér brá illilega er ég fann bréf frá ástkonu mannsins míns í skyrtuskúffunni hans. Seinna fann ég fyrir undarlegum létti, grunur minn um framhjáhald hafði loks verið staðfestur. Samband okkar hafði gengið illa í u.þ.b. ár og hann hafði aldrei viðurkennt að önnur kona væri í spilinu. Sjálfsmynd mín varð að engu, ég fór að standa í þeirri trú að það væri eitthvað athugavert við mig og ég væri orðin geðstirð gömul skrugga.

Þegar ég bar upp á hann bréfið brást hann við eins og óþekkur strákur sem hafði verið staðinn að verki. Honum virtist einnig létt og lofaði að binda enda á sambandið við hina konuna þar sem hann hafði ekki í hyggju að yfirgefa mig. Hann lagði öll spilin á borðið og ég var þakklát fyrir að hann skyldi hafa valið mig og gefið mér tækifæri. Það kvöld vorum við óskaplega náin.

Daginn eftir helltist yfir mig angist og öryggisleysi. Stæði hann við gefin loforð? Mér fannst ég lítilsigld, einskis nýt. Það hafði verið traðkað á mér og ósjálfrátt fór ég að bera sjálfa mig saman við aðrar konur og var samanburðurinn mér í óhag. Brjóstin voru of lítil, rassinn of stór og hárið lufsulegt. Ég hlaut að líta herfilega út. Ég stóð sjálfa mig að því að horfa á aðrar konur þegar ég fór út. Að sjálfsögðu voru þær miklu flottari og örugglega greindari. Fötin mín voru allt í einu útþvæld og hallærisleg. Litlu peysurnar sem ég hafði alltaf haft dálæti á urðu skyndilega smábarnalegar og bjánalegar.

Mig dreymdi dagdrauma (ég fékk öllu heldur martröð). Ég sá manninn minn fyrir mér njóta ásta með hinni konunni. Ég sá þau sitja hönd í hönd og rakka mig niður með háðslegum athugasemdum um mig og mín ómerkilegu vandamál.

Sjá einnig: 10 játningar tengdar framhjáhaldi

Ég fór að spyrja manninn minn út í hana og skildist loks að hún var yngri, með háskólamenntun og í krefjandi starfi. Hvaða möguleika átti ég, bókari í hlutastarfi í timburverslun með engar vonir um frama? Ég hataði hana eins og pestina og það eitraði hjónabandið. Ég vildi hefna mín og í huganum fann ég upp á ýmsum leiðum til þess. Mér fannst sem ég þyrfti að auðmýkja hana, á sama hátt og ég hafði verið auðmýkt. Ef til vill gæti ég hringt í vinnuna til hennar og baktalað hana við yfirmanninn svo að henni yrði sagt upp. Ég gæti sjálf fundið mér ástmann og goldið líku líkt.

Nú er liðið ár síðan þetta átti sér stað og nú sé ég að ég átti minn þátt í því að hann fór að vera með annarri konu. Þetta hefur skilið eftir sig ör sem aldrei gróa. Hjónabandið hefur engu að síður batnað, við rífumst ekki eins mikið og erum ekki eins fýld og áður. Við leggjum okkur fram við að hlusta hvort á annað og leysa vandamálin með því að ræða þau. Við erum einnig orðin umburðalyndari og stillum á létta strengi. Við leggjum okkur fram við að festast ekki aftur í viðjum vanans og verða skeytingarlaus.

Fleiri fjölskyldutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE