Gæludýr eru gefandi fyrir heilsu og líðan

Fátt er dýrmætara en að eiga góða fjölskyldu og vini. Þó að ekkert geti komið í stað tengsla við aðra manneskju getur gæludýr uppfyllt ákveðna þörf fyrir vináttu og snertingu. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Á þetta bæði við þá sem eru heilbrigðir og einnig þá sem eru veikir. Sögulegar heimildir herma að umgengni við dýr hafi verið notaðar til lækninga allt aftur til tíma Forn-Grikkja. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu og athygli, minnkar streituviðbrögð, lækkar blóðþrýsting og hægir á hjartslætti. Ennfremur hvetur umgengni við dýr til samskipta við aðra og dregur þannig úr einmanaleika. Þannig hafa t.d. rannsóknir sýnt að sá sem gengur um með hund í taumi er frekar ávarpaður af ókunnugum og fær fyrirspurnir eða vinsamlegar athugasemdir um dýrið.

Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýna áhuga án nokkurra skilyrða. Í samskiptum manns og dýrs skiptir ekki máli þótt maðurinn eigi erfitt um mál og hugsun eða hvort hann á við alvarlega líkamlega fötlun að stríða. Samskipti manns og dýrs geta uppfyllt ýmsar þarfir sem erfitt er að uppfylla, t.d. þegar dvalið er á stofnun. Það að klappa og strjúka hundi getur leitt til slökunar og vellíðanar sem endist mun lengur en sjálf heimsóknin. Þess vegna hafa mörg hjúkrunarheimili í Bandaríkjunum tekið upp þá stefnu að hafa heimilisföst dýr, t.d. ketti og hunda, íbúum heimilisins til ánægju.

Sjá einnig: Hafið þið séð frægasta gæludýr í heimi?

Ein rannsókn hefur verið gerð á Íslandi á áhrifum hundaheimsókna inn á deild fyrir minnisveika á Landakoti. Niðurstöður benda til þess að samskipti við hundana hvetji sjúklingana til að tjá sig, örvi hjá þeim tilfinningaleg viðbrögð og hafi jafnframt róandi áhrif. Þeim sem á annað borð hafa ánægju af dýrum er því hagur í því að umgangast dýr eða eiga gæludýr.

Aldraðir, sem eiga og hugsa um gæludýr, geta jafnvel búið við betra heilsufar en aðrir. Þetta má að hluta rekja til þessa að hundaeigendur hreyfa sig oft meira en aðrir og að sá sem býr einn en á fyrir gæludýri að sjá hefur hefur ýmis verkefni sem leysa þarf af hendi. Eru þá ekki talin þau góðu áhrif sem félagsskapur af dýrinu getur haft á eigandann. Það að eiga og annast gæludýr getur því haft góð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu.

 

Frá Landlæknisembættinu

Fleiri greinar má sjá á doktor.is logo

SHARE