Geta hafið nýtt líf vegna Skarphéðins Andra

Við sögðum ykkur frá því  í lok janúar að 16 ára drengur fengi líffæri Skarphéðins Andra Kristjánssonar, en hann lenti í  alvarlegu bílslysi um miðjan janúar sem síðan leiddi hann til dauða.

 

Nú nokkrir einstaklingar eignast nýtt líf vegna Skarphéðins Andra en móðir hans setti þetta inn á Facebook nú rétt í þessu:

29. janúar verður gleðidagur fyrir marga því á þeim degi eignuðust 5 einstaklingar nýtt líf vegna gjafa Skarphéðins Andra sem lést deginum áður. Í dag fengum við að vita aldur og kyn þeirra sem öðluðust nýtt líf þennan dag. Þetta veitti okkur mikla gleði og þá sérstaklega fyrir hönd þeirra fjölskyldna sem geta haldið áfram að vera með ástvinum sínum.
Hjartað fór til 16 ára drengs, bæði lungun fóru til rúmlega sextugs manns, lifrin fór til rúmlega fimmtugs manns, annað nýrað fór til fertugs manns og hitt nýrað til rúmlega fimmtugs manns. Nýtt líf er tekið við hjá öllum þessum einstaklingum og gengur vel.

Við höfum heyrt af grunnskólum, framhaldsskólum, heimilum, fyrirtækjum og heilu skipsáhöfnunum sem hafa tekið upp umræðu um líffæragjöf, höldum því áfram. 

29. janúar verður dagurinn sem við minnum á umræðuna þar til Íslendingar hafa tekið upp dag líffæragjafa. Munum að umræðan hefst heima og er mikilvæg. Við vitum aldrei hvenær við stöndum í þeim sporum að þurfa að svara spurningunni um hvort gefa eigi líffæri eða ekki. Slysið þann 12. janúar 2014 þar sem við misstum tvö yndisleg ungmenni þau Önnu Jónu og Skarphéðinn Andra hefur kennt okkur það.

Steinunn, Kiddi, Einar Sveinn, Sigríður og Ágúst Ingi

SHARE