Að hafa möguleikann á að vinna heiman frá sér getur verið rosalegur lúxus en það getur líka verið erfitt að halda fókus og halda framleiðninni í hámarki. Þú þarft að passa að halda vinnuhvatanum, reyna að lágmarka lætin sem koma frá fjölskyldu eða nágrönnum og halda einbeitingu. Hér eru nokkur góð ráð:

1. Settu þér stundatöflu

Þú hefur frelsið til að setja þína eigin stundatöflu. Þó er alltaf ákveðin hætta á að þú vinnir öllum stundum eða náir ekki að gera neitt. Ef þú kannast við þetta vandamál er besta ráðið að setja sér stundatöflu til að fara eftir. Búðu til rútínu og haltu þig við hana.

2. Búðu þér til vinnuaðstöðu

Það virkar kannski kósí að liggja í sófanum og vinna, en það gengur ekki til lengdar. Ef þú býrð þér til vinnuaðstöðu muntu að öllum líkindum sjá mun á afköstum og einbeitingu. Ertu með aukaherbergi sem má búa til skrifstofu úr?

3. Taktu pásur

Það eru engir vinnufélagar sem draga þig í kaffi öllum stundum. Þú gætir jafnvel gleymt þér í vinnugleðinni. En mundu að taka þér pásur. Stattu upp og fáðu þér hádegismat og mundu að taka pásur í seinnipartinn. Það er ekki þar með sagt að þú sért að slugsa, með reglulegum pásum nærðu að einbeita þér betur þess á milli.

4. Klæddu þig

Það er óskaplega freistandi að vera í náttfötunum allan daginn, og eflaust koma dagar þar sem þú verður í náttfötunum eitthvað frameftir, en reyndu eftir fremsta megni að klæða þig og muna að þú sért að fara í vinnuna. Þú getur samt hvílt pinnahælana, það er enginn að dæma þig fyir kanínuinniskóna.

5. Forðastu freistingar

Það getur verið mjög erfitt að forðast það að freistast til að taka extra langar pásur. Vinir og fjölskylda gætu litið á vinnuna þína sem eitthvað áhugamál, svona fyrst þú ert nú heima allan daginn – ertu þá ekki laus í kaffi líka? Ekki svara síma og smsum (og Facebook og Twitter og Instagram og Snapchat og Tinder og…) nema á ákveðnum tímum. Lærðu að bera virðingu fyrir vinnunni þinni og aðrir munu gera það líka.

6. Farðu út

Þegar þú ert önnum kafin getur það komið fyrir að allt í einu er komið kvöld og þú hefur ekki farið út allan daginn. Skelltu þér í stuttan göngutúr eða í ræktina. Það er mikilvægt að fara aðeins út fyrir hússins dyr, þótt ekki sé nema bara í þeim tilgangi að anda að sér fersku súrefni.

7. Njóttu þess

Mundu að það er lúxus að vinna heiman frá sér og að þú setur þér stundaskrá. Þú veist best hvenær afköstin hjá þér eru mest og þú hefur frelsið til að fara haga lífinu eftir því.

 

 

 

SHARE