Grét þegar börnin sungu lagið hennar

„Úff. Ég hefði aldrei í mínum villtustu draumum dreymt að þetta gengi svo vel,“ segir söngkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir um frábærar viðtökur hennar fyrsta lags, I’ll walk with you, sem kom út fyrr á þessu ári. Hildur hefur verið söngkona hljómsveitarinnar Rökkurró og segir það allt annars eðlis að standa ein sem listamaður en sem hluti af hljómsveit. „Mig hafði langað til að gera þetta lengi en aldrei þorað – ekki fyrr en ég tók þátt í Eurovision. Eftir þá reynslu öðlaðist ég kjarkinn til að láta vaða og hætta að hugsa um hvað öðru fólki finnst. Ummælin á Twitter hertu mig,“ segir hún og hlær.
Lagið I’ll walk with you virðist höfða til allra aldurshópa og allt frá fjögurra ára börnum upp til heldri borgara eru hummandi hið mjög svo grípandi viðlag. „Ég vissi alveg að lagið væri grípandi en mig óraði ekki fyrir að það myndi höfða til jafn ólíkra hópa og raun ber vitni,“ segir Hildur. Hún fær reglulega send myndbönd á Snapchat af krökkum að syngja lagið og segist hafa grátið þegar hún fékk sent Snapchat af fullri rútu af börnum syngjandi lagið hennar.

 

Hildur segist ekki vera orðin fræg enda séu ekki margir farnir að tengja andlitið við lagið. „Það eru helst lítil börn sem stara svolítið á mig og síðan fólk sem er komið í glas. Það er alveg óhrætt við að ræða við mann um lagið og fá mynd af sér,“ segir Hildur og skellir upp úr.
Og það eru breytingar í vændum hjá þessari vinsælu söngkonu. „Ég var að vinna hjá QuizUp og var ein af þeim sem sagt var upp í fjöldauppsögnunum um daginn. Þannig að ég er bara að leita mér að nýrri vinnu. Það góða er að á meðan ég er að leita get ég eytt meiri tíma í tónlistina.“
Lag Hildar er spilað um allan heim en hún segir landvinninga á erlendri grund mega bíða. „Ég lifi í núinu og spái ekki mikið í það sem gerist næst. Ef ég gæti sameinað ferðalög og tónlist þá væri það mjög gaman.“

Nýtt lag á leiðinni

Hildur situr ekki auðum höndum en í næsta mánuði kemur nýtt lag frá henni sem unnið er í samstarfi við Halldór Eldjárn í Sykri. Hildur segir lagið öðruvísi en I’ll walk with you en það lag var unnið með Loga Pedro úr Retro Stefson. Hún semur lög og texta og segir að nú sé tækifæri til að vinna með sem fjölbreyttustum hópi tónlistarfólks til að lögin fái hvert sinn blæ þótt hún vilji auðvitað halda sínum stíl.

 

Hér er svo myndbandið við lagið hennar:

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE