■ Mænusóttarátak UNICEF á Íslandi í samstarfi við Te & Kaffi gengur framar vonum ■ „Árangur síðustu ára er undraverður og nú þurfum við að klára málið og útrýma mænusótt endanlega úr heiminum,“ segir Íslendingur hjá UNICEF í Afganistan

 

Mænusóttarátak UNICEF á Íslandi í samstarfi við Te & Kaffi gengur framar vonum og þegar hefur átakið skilað 137.392 bólusetningum. Átakinu lýkur næsta þriðjudag. Fólki býðst að gefa andvirði bólusetninga gegn mænusótt, einnig þekkt sem lömunarveiki, en engin lyf eru til við sjúkdómnum og bólusetning er eina leiðin til að koma í veg fyrir að hann valdi lömun.

 

Átakið sem ber heitið Klárum málið stendur út september og markmið þess er að vekja athygli á þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn mænusótt og bjóða landsmönnum að taka þátt í henni. UNICEF hefur ásamt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, Rótarý-hreyfingunni og fleirum verið í forsvari fyrir átak sem miðar að því að losa heimsbyggðina fyrir fullt og allt við þennan skelfilega sjúkdóm. Það markmið er í augsýn.

„Til þess að ná því þurfum við að bólusetja öll börn – líka á þeim svæðum þar sem erfiðast er að ná til þeirra. Ein bólusetning kostar 25 krónur. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir hafa nýtt sér tækifærið hér á landi og gefið andvirði bólusetninga,” segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

 

Fólk bætir ýmist 25 krónum við drykkinn sinn hjá Te & Kaffi sem sömuleiðis gefur bólusetningu með drykknum – eða gefur 10 bólusetningar, 250 krónur, með því að senda sms-ið stopp í númerið 1900.

 

Verðum öll að leggjast á eitt til að útrýma mænusótt“

 

Íslendingurinn Alistair Gretarsson, sem er yfirmaður upplýsingamála hjá UNICEF í Afganistan, segir baráttuna gegn mænusótt þar í landi vera á lokametrunum. Veikin var eitt sinn útbreidd um allan heim og olli meðal annars miklum skaða á Íslandi á sínum tíma.

„Í fyrra voru einungis 37 skráð tilfelli í Afganistan og þá hafði þeim fækkað um tæp 54% á milli ára. Í ár hafa hingað til greinst fjögur tilfelli. Til samanburðar lömuðust fyrir 25 árum 300.000 manns í heiminum af völdum mænusóttar á hverju einasta ári. Við erum því sannarlega á lokametrunum í baráttunni gegn þessum skæða sjúkdómi,“ segir Alistair.

 

„Árangur síðustu ára er undraverður en við megum ekki hætta núna. Það er einmitt á þessum síðustu og erfiðustu metrum sem við þurfum að gefa í. Við þurfum að taka höndum saman, klára málið og útrýma mænusótt endanlega úr heiminum. Það er nú eða aldrei,“ segir hann.

 

Alistair bendir á að veikin hafi fyrir stuttu verið landlæg í fjórum ríkjum; Afganistan, Pakistan, Nígeríu og á Indlandi. Af þeim hafi Indland verið álitið hvað mesta áskorunin í baráttunni gegn sjúkdómnum, enda annað fjölmennasta ríki heims og afar flókið að ná að bólusetja hvert einasta barn þar í landi.

 

„En það tókst að útrýma veikinni á Indlandi! Við vitum því að þetta er sannarlega hægt.“

 

 

SHARE