Ég er alveg komin í fimmta gír hvað jólabaksturinn varðar. Allt í lagi, ég er kannski ekki byrjuð að baka en ég safna uppskriftum eins og ég fái borgað fyrir það. Það er nú aldeilis eitthvað. Fyrsta skrefið í átt að bakstri í það minnsta. Þessi stórkostlega uppskrift er fengin af Eldhúsperlum.

Sjá einnig: Heimatilbúin jólakort á korteri

min_img_4358

Hafrakossar sem slá í gegn

Hafrakossar (Breytt uppskrift frá www.kevinandamanda.com):

 • 250 gr mjúkt smjör við stofuhita
 • 2 dl púðursykur
 • 1 dl sykur
 • 1 egg
 • 2 tsk vanilluexract
 • 3 dl hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • ½ tsk kanill
 • 6 dl haframjöl (ath ekki grófir hafrar)

Aðferð:

Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljós. Bætið egginu og vanillu út í og blandið vel saman við.

Hrærið saman hveiti, matarsóda, salti og kanil. Bætið út í smjörblönduna og hrærið létt saman. Bætið höfrunum út í og blandið þar til rétt svo komið saman. Setjið deigið með tveimur teskeiðum á plötu, þrýstið aðeins ofan á hverja köku og bakið í 8-10 mínútur. Kælið á grind.

Krem:

 • 150 gr smjör
 • 250 gr flórsykur
 • 2 msk rjómi
 • 1 tsk vanilluextract

Aðferð: Þeytið allt vel saman og sprautið eða smyrjið á kældar kökurnar og leggið aðra köku ofan á.

SHARE