Haldið ykkur innandyra gott fólk!

Enn spáir Veðurstofan vonskuveðri á landinu og má búast við hvassviðri eða stormi um landið vestanvert, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi Vestra seinni partinn á morgun. Þar er einnig búist við talsverðri eða mikilli úrkomu, rigningu á láglendi, en snjókomu í meira en 200-300 metra hæð yfir sjó norðvestantil.

Búast má við mikilli úrkomu, slyddu og snjókomu á heiðum og vegum allt frá Snæfellsnesi, Vestfjörðum og um Norðurland og getur færð á vegum spillst af þeim sökum.

Síðar í dag munu línur skýrast enn frekar, þegar ný spá verður gerð fyrir föstudag og laugardag.

Nú er verið að smala víða á norðan og vestanverðu landinu og eru vegfarendur beðnir um að aka varlega og sýna tillitsemi þar sem verið er að reka fé.  Fjárrekstur verður á Holtavörðuheiði og Norðurárdal í dag og þar má því búast við miklu fé í nánd við vegi.

SHARE