Hér er ein uppskrift að góðum hamborgarhrygg frá Eldhússögur.com.

hryggur 1

Við erum mjög hefðbundin varðandi meðlæti með hamborgarhryggnum:

hryggur 2

 

Uppskrift af gljáðum hamborgarhrygg:

 • Hamborgarhryggur á beini, ca. 400 gr. á mann
 • ananassneiðar

Sykurhjúpur (f. ca. 2-3 kílóa hrygg)

 • 2,5 dl púðursykur (í ár notaði ég muscovado sykur, það kom mjög vel út)
 • 1/2 dl vínedik eða cider edik
 • 1 dl tómatsósa
 • 1 dl rjómi
 • 1/2  dl Dijon sinnep

Bræðið sykur og edik saman í þykkum potti (athugið það kemur sterk lykt þegar edik og sykur er soðið saman). Þegur sykurbráðin fer að þykkjast dálítið er sinnepi, tómatsósu og rjóma bætt saman við. Hrærið vel saman og látið malla þar til blandan verður þykk. Haldið 1 dl af hjúpnum til haga fyrir sósuna.

Hryggurinn er lagður í kalt vatn í 2-3 tíma (fyrir þá sem hafa áhyggur af því að hann verði of saltur, ég geri það ekki). Ofn hitaður í 150 gráður (undir/yfirhita). Hryggurinn er þerraður vel og smurður með gljáanum. Því næst er hann settur á ofngrind neðarlega í ofninn og ofnskúffa botnfyllt með vatni sett undir ofngrindina. Það þarf að fylgjast með því að það sé alltaf vatn í ofnskúffunni á meðan eldun stendur og bæta við vatni við þörfum. Best er að nota kjöthitamæli sem stungið er inn í miðjan hrygginn. Hryggurinn er eldaður í ofninum við 150 gráður þar til hann nær 65 gráða kjarnhita, það er um það bil 45-60 mínútur per kíló, fer mikið eftir því hvort hryggurinn er þykkur eða mjór. Ég geri alltaf nóg af gljáa og pensla 2-3svar sinnum á meðan hryggurinn er í ofninum. Það er gott að hækka ofninn í ca. 220 gráður í 10-15 mínútur í lokin. Hryggnum leyft að jafna sig í allt að 10 mínútur eftir að hann kemur úr ofninum, áður en hann er skorinn. Hann þolir líka vel að bíða lengur ef sósan er ekki tilbúin. Hamborgarhryggurinn er borinn fram með ananassneiðum.

 

Kóksósa (ég áætla þetta magn fyrir ca 4-5 sósuglaða einstaklinga)

 • 1 dl af sykurhjúpnum
 • 2 dl af soðinu
 • 2 dl Coca Cola
 • 2 dl rauðvín
 • 2 dl rjómi (vel hægt að nota meira, ég nota oft upp undir 5 dl)
 • sósujafnari ef með þarf

Setjið soðið, kókið, rauðvín og sykurhjúpinn í pott.  Látið suðu koma upp, lækkið hitann og látið hana malla á meðal hita (þannig að hún “bubbli”) þar til hún hefur soðið niður um helming. Það er afar mikilvægt að sjóða niður sósuna, annars verður hún ekki góð! Ég lét hana malla á hitanum 5 af 9. Athugið að það tekur tíma að láta sósuna sjóða niður, ég tek því af soðinu og byrja á sósunni áður hamborgarhryggurinn er tilbúinn en ef vel á að vera þá tekur ca. klukkutíma að sjóða niður sósuna um helming. Bætið þá rjóma saman við og látið malla áfram í 10-15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og bragðmikil. Ég nota meiri rjóma en gefin er upp í uppskriftinni, grunnurinn af sósunni er svo bragðsterkur og góður að hún þolir vel slatta af rjóma. Þegar grunnurinn í sósuna er vel soðin niður og 2 dl af rjóma hefur verið bætt út í þá er sósan vel þykk. Ef notaður er meiri rjómi en gefin er upp í uppskrift þá þynnist sósan dálítið og þá er hægt að nota sósujafnara til að þykkja hana.

hryggur 4

SHARE