Heimatilbúin hóstamixtúra – Uppskrift

Góð ráð til að slá á hósta er að útbúa sínar eigin hóstamixtúrur. Þessar eru einfaldar í framkvæmd en áhrifaríkar og gott að sötra oft og lítið á í einu.  Þær henta bæði mjög ungum börnum og fullorðnum. Ekki spillir að þær bragðast hreint afbragðs vel.

Engifermixtúra með blóðbergi:
Þumlungur af engiferrót
1-2 tsk blóðberg ef ekki til þá timian
1-2 bollar soðið vatn

Afhýðið engiferrótina og skerið í smáa bita. Setjið í hitabrúsa ásamt blóðbergi og hellið soðna vatninu yfir, lokið og látið standa í 10-15 mín. Sigtið.
Gott að setja hunang útí. Ef um ung börn er að ræða er jafnvel betra að flóa mjólk og setja engiferrótina og blóðbergið saman við og sigta. Blóðberg og timian eru jurtir sem hafa öldum saman verið notaðar til að vinna bug á kvefi, hósta, hálssærindum, flensu og jafnvel astma.

Rófumixtúra:
1 rófa
1 tsk hunang

Rófan er skorin í helminga og búin er til lítil skál innan í henni með því að tálga úr miðjunni. Á kanta skálarinnar er hunangi borið á með teskeið. Það dregur í sig rófusafann og smám saman verður hóstamixtúran tilbúin í rófuskálinni.

SHARE