„Heimskan í mér var auðvitað yfirgengileg“ – Hildur Lilliendahl

Netheimar hafa logað síðustu daga vegna ummæla Hildar Lilliendahl á umræðuvef Bland.is undir notendanafninu Nöttz. Samkvæmt Dv.is leitaði tónlistarkonan Hafdís Huld Þrastardóttir til lögreglu vegna grófra ummæla sem Hildur Lilliendahl lét falla nafnlaust um hana, á síðunni, á árunum 2009 til 2010.

Hildur hefur látið ýmis önnur ummæli falla í nafni Nöttz og þar á meðal um lýtalækninn Þórdísi Kjartansdóttur, þar sagði hún að hún væri réttdræp, eins og fram kemur á vef Vísis í gær.

Hildur sendi frá sér þessa yfirlýsingu í sambandi við þetta mál seint í gærkvöld.

Elsku þið öll.

Það eru allir að spyrja hvað ég „segi“ um þetta allt saman. Í mjög stuttu máli hef ég reynt að einbeita mér að því í kvöld að fara ekki að grenja fyrir framan krakkana mína. Fram eftir kvöldi reyndi ég að fylgjast með internetinu en svo gafst ég upp og fór að spila við fjölskylduna mína. Það er field day á öllum fjölmiðlunum sem voru að fatta Barnaland, allir á bólakafi í gúgli og væntanlega alveg tuttugu eða sjötíu nýjar fréttir á leiðinni.

En svona í örstuttu máli, svo það komi í það minnsta eitthvað smáræði frá mér til einhvers fólks sem mögulega bíður með öndina í hálsinum og vill ekki mynda sér skoðun fyrr en ég hef sagt eitthvað: Ég segi svosem ekki margt. Ég hef óskaplega lítið af málsbótum. Allt sem ég hef sagt hingað til hefur verið dagsatt, Palli trollaði stundum á nikkinu mínu um stutt skeið frá síðsumri til síðhausts árið 2009. En á Barnalandi hefur NöttZ líka sagt alveg ógeðslega margt heimskulegt.

Samfélagið sem Barnaland er er verður ekki útskýrt fyrir þeim sem hafa ekki stundað það. Þar grasseraði mjög grófur og mjög lókal húmor. Fólkið sem stundaði þessa umræðu vissi, að minnsta kosti upp til hópa, að það var engin alvara bakvið strigakjaftinn í NöttZ, megnið af því sem nú hefur verið dregið upp var algjört og pjúra grín, sagt í góðra vina hópi. Heimskan í mér var auðvitað yfirgengileg þegar mér tókst að vona að þessari iðrar internetsins gætu haldið sig í iðrum internetsins.

Ef við tökum Þórdísi Kjartansdóttur lýtalækni sem dæmi, þá eru það ummæli þar sem ég er bókstaflega að gera grín að sjálfri mér og brjóstunum á mér – sem skilst þegar ummælin eru lesin á þeim tíma og þeim stað sem þau eru skrifuð, en það er auðvitað vonlaust að ætla að útskýra það fyrir fólki sem þekkir ekki þennan kúltúr. Það er algjörlega vonlaust.

Ég á eftir að sjóða saman einhverja yfirlýsingu þegar þetta róast. Fram að því ætla ég að reyna að segja sem minnst. NöttZ hefur bersýnilega hagað sér brjálæðislega miklu verr heldur en ég hafði áttað mig á, en ég held að notendurnir hafi allir skilið á þeim tíma að hvorki mér né nokkrum öðrum álíka ruddum hafi verið alvara með það sem við vorum að segja.

En hvað um það, internetið er internetið og það er nákvæmlega ekkert að gera annað en að biðjast auðmjúklega fyrirgefningar. Mjög svo auðmjúklega. Ég skammast mín ofan í tær.

Til að svara spurningunni enn og aftur um hvort eitthvað hafi breyst, hvort ég hafi tapað trúverðugleikanum, hvort og svo framvegis og svo framvegis… Nei. Það að ég sé hálfviti sem hefur hagað sér hálfvitalega þýðir ekki að baráttan mín sé ekki verðug eða skoðanir mínar vondar.

Þau ykkar sem hafa sent mér öll þessi ógrynni af sjúklega fallegum skilaboðum í kvöld; þið getið ekki mögulega ímyndað ykkur hvað það skiptir miklu máli

Ekki náðist í Hildi þegar reynt var að ná tali af henni í morgun.

SHARE