Í kuldanum núna og ég tala nú ekki um svona fyrir jólin er æði að fá sér heitt súkkulaði með rjóma.

Það er ótrúlega einfalt að gera og hérna er uppskrift sem tekur enga stund að skella saman.

 

Heitt súkkulaði

200 grömm Konsum súkkulaði frá Nóa Síríus

1 Líter mjólk, nýmjólk eða léttmjólk, spari er að blanda 50/50 mjólk og matreiðslurjóma

salt á hnífsoddi

1 teskeið Vanillusykur

 

Bræðir súkkulaðið í vatnsbaði í frekar strórri skál.

Hitar mjólkina, að viðbættri teskeið af vanillusykri og klípu af salti, að suðu á sama tíma.

Þegar súkkulaðið er bráðnað og mjólkin orðin heit á að hella eða ausa smá mjólk útí súkkulaðið meðan það er í vatnsbaðinu og hræra varlega saman. Það mun kekkjast fyrst en sýndu þolinmæði og hrærðu rólega þar til súkkulaðið er orðið mun þynnra og fullkomlega blandað við mjólkina.

Því næst er blandan tekin úr vatnsbaðinu og henni hellt varlega útí mjólkina og hrært á meðan.

Ekki er nauðsynlegt að hita súkkulaðið mikið fyrir neyslu þar sem það þykir engum gott að brenna sig á tungunni, 60°-70° er mjög gott áður en því er skenkt.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here