Hildur Lillendahl hefur skráð sig í Ungfrú Ísland

Keppnin um Ungfrú Ísland verður haldin á nýjan leik þetta árið. Áherslur eru breyttar í hinni nýju Ungfrú Ísland, samkvæmt Rafni Rafnssyni, framkvæmdarstjóra keppninnar.

Rafn segir að nú sé öllum frjálst að skrá sig og aðstandendur keppninnar segjast sækjast eftir meiri fjölbreytileika í þetta sinn. Rafn segir í viðtali við Vísir.is:

“Það er ekki til nein staðalímynd af Ungfrú Íslandi lengur. Hún þarf alls ekki að vera ljóshærð, bláeygð og 1,73 cm á hæð, heldur getur hún verið af afrískum eða asískum uppruna. Möguleikarnir eru fjölmargir og þetta snýst alls ekki bara um útlit”

Hildur Lillendahl, sem flestir kannast við, ætlar ekki að missa af þessu tækifæri og hefur skráð sig í keppnina. Hildur segir á Facebook síðu sinni:
“Í ljósi þessara frétta er ekkert sem kemur í veg fyrir að ég taki þátt. Ég hef (fyrir utan allar augljósu ástæðurnar) fundið fyrir töluverðum þrýstingi frá aðdáendum mínum og það væri hreinlega ekki sanngjarnt af mér að skorast undan þeim væntingum sem fólk hefur til mín.”

Hildur fékk góð viðbrögð frá Facebook vinum sínum og einn segir “Þetta er líka svo gott tækifæri til að kynnast fólki og góð reynsla.”

Venjan í Ungfrú Ísland er sú að þær stúlkur sem taka þátt þurfa að vera barnlausar og ógiftar. Við fengum að heyra í Írisi Telmu Jónsdóttur, sem sér um verkefnastjórnun og kynningarmál fyrir keppnina og spurðum hana hvort að þessar reglur væru enn í gildi:

“Við leitum eftir stelpum á aldrinum 18-24 ára, ógiftum og barnlausum. Það eru þær reglur sem við tileinkum okkur úr keppnunum erlendis til þess líka að okkar fulltrúi eigi möguleika á að taka þátt fyrir Íslands hönd erlendis.”

Íris segir að keppnin hafi fengið góðar viðtökur og mikið af ábendingum:
“Við höfum fengið góðar viðtökur og mikið af ábendingum sem ég vinn núna hörðum höndum að og vonast til þess að fá enn fleiri.”

“Það er bara frábært að fá inn hennar ábendingu eins og allar aðrar og unnið verður úr þeim öllum á sama hátt.” – Segir Íris um umsókn Hildar.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here