Hiti, kviðverkir og niðurgangur getur verið Svæðisgarnabólga

Langvinnur bólgusjúkdómur sem einkennist af tímabilum þar sem sjúklingurinn er með hita, kviðverki, niðurgang og jafnvel megrast en þess á milli er hann einkennalítill/laus. Sjúkdómurinn herjar yfirleitt á neðri hluta smáþarma og/eða ristilinn en getur verið hvar sem er í þarminum. Þar sem sjúkdómurinn er verða bólgubreytingar í þarminum. Sár geta myndast sem leiða stundum til mikilla blæðinga. Ör myndast þegar sárin eru að gróa sem getur leitt til þrengingar i þarminum. Ekki er hægt að lækna Crohnssjúkdóm en hægt er að minnka óþægindin og draga úr tíðni kasta sem verða þegar bólgan er hvað mest.

Hver er orsök Crohns sjúkdóms?

Orsökin er óþekkt en líkurnar verða meiri ef aðrir í fjölskyldunni hafa sjúkdóminn. Algengast er að sjúkdómurinn komi fram á milli tvítugs og þrítugs.

Hver eru einkennin?

 • Einkennin eru mismunandi eftir því hvar og hversu mikill hluti þarmsins er bólginn.
 • Margir hafa mjög væg einkenni og því geta liðið mörg ár áður en sjúkdómurinn er greindur.
 • Kast öðru hvoru sem lýsir sér með vægum hita, niðurgangi (blóðugum og jafnvel slímugum) og kviðverkjum ( hægra megin neðan til í kvið ef sjúkdómurinn er í ristli eða neðri hluta þarmsins).
 • Þyngdartap án þekktra orsaka og án þess að viðkomandi sé í megrun.
 • Almenn vanlíðan, slen og slappleiki. Lítil matarlyst.
 • Ígerð og fistlamyndanir í kringum endaþarminn geta verið fyrsta einkenni sjúkdómsins.
 • Sjúkdómurinn byrjar oft milli tvítugs og fertugs og blossar upp af og til en fellur svo í dvala þess á milli.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir Crohns sjúkdóm?

Það er ekkert hægt að gera til þess.

Sjá einnig: Þvagfærasýkingar hjá börnum

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Niðurgangur, kviðverkir og þyngdartap eru einkennin og hafi slíkt staðið yfir í meira en 3 til 4 vikur getur verið um að ræða Crohns sjúkdóm. Blóð- og hægðasýni, speglun á smáþarmi og ristli auk röntgenrannsókna geta hjálpað til við greininguna á Crohns sjúkdómi. Einnig geta vefjasýni úr bólgna hluta þarmsins verið gagnleg.

Hvað er til ráða?

Sá sem hefur sjúkdóminn verður að fylgjast vel með einkennum sem benda til að sjúkdómurinn sé að ágerast eins og t.d. blóð í hægðum, nýir eða öðruvísi verkir og hiti sem kemur að ástæðulausu. Fari svo skal hafa samband við lækni.

Starfsgeta og lífshættir

 • Það er mikilvægt að hvílast meðan kastið gengur yfir.
 • Lifa eðlilegu lífi þess á milli.
 • Yfirleitt eru engin takmörk hvað mataræði varðar. En ef um aðra þarmasjúkdóma er að ræða er mikilvægt að borða fitusnauðan mat, sem jafnvel getur dregið úr niðurgangi. í sumum tilfellum getur „geimfarafæði“ (mjúku fæði) hjálpað.

 

Sjá einnig: Hvers vegna fæ ég ristilkrampa?

Fylgikvillar

 • Blæðingar (þar sem sár myndast) og járnskortur.
 • Þarmastífla t.d. vegna þrengingar.
 • Verkir og bólgur í liðum, augum og lifur.
 • Erfiðleikar við upptöku efna úr fæðunni , annað hvort vegna mikillar örmyndunar í þarminum eða vegna verulegrar styttingar á þarminum sökum aðgerða.

Framtíðarhorfur

Flestir sjúklingar lifa eðlilegu lífi, sækja vinnu og eiga börn.

Hver er meðferðin?

 • Meðferðin fer eftir eðli og útbreiðslu sjúkdómsins og þeim áhrifum sem hann hefur á sjúklinginn.
 • Lyfjameðferð getur í mörgum tilfellum dregið úr bólgum og haldið sjúkdóminum niðri.
 • Í erfiðari tilfellum getur innlögn á sjúkrahús verið nauðsynleg.
 • Dugi lyfjameðferð ekki í bráðu kasti getur verið nauðsynlegt að grípa til skurðaðgerðar.

Sjá einnig: 10 merki þess að þú ættir að hætta að borða glúten

Hvaða lyf eru í boði?

 • Töflur sem draga úr bólgu í þarmaveggnum við vægum einkennum. Það er ekki alveg ljóst hvort lyfin fyrirbyggja köst.
 •  Barksterar (hafa m.a. bólgueyðandi verkun) ef sjúkdómurinn versnar skyndilega sem kallar yfirleitt á innlögn á sjúkrahús.
 • Lyf sem hafa staðbundin áhrif á þarminn , barksterar við mildum og vægum einkennum. Gefið sem innhelling upp í endaþarminn. Þetta form er notað ef bólgan er í endaþarminum eða neðarlega í þarminum.
 •  Frumuhemjandi lyf (cytostatika) við mjög erfið tilfelli þar sem barksterar hafa ekki haft nægilega góð áhrif.
 • Verkjastillandi lyf .
 • Sýklalyf er gefið þegar einnig er um bakteríusýkingu að ræða.
 • Vítamín eru gefin þegar skortur á vítamínum hefur komið fram í blóðprufum.
 • Lyf við niðurgangi, ef það er viðvarandi vandamál.

 

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

SHARE